Hafrannsóknastofnun er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði hafs- og vatnarannsókna, með 190 starfsmenn. Skiptast kynjahlutföll þannig að konur eru 35 prósent af heildarfjölda starfsfólks en ef hlutfall er skoðað án áhafna rannsóknaskipa þá er hlutfall kvenna af heildarfjölda starfsfólks 44 prósent. Starfsfólk sem fer í sjóleiðangra og sýnatökur á vegum stofnunarinnar og safnar gögnum er mikið til konur og má segja með réttu að það séu konur sem leggja grunnin að þeim gögnum sem unnin eru hér og eru lögð til grundvallar í því vísindastarfi sem unnið er hjá stofnuninni.

Berglind Björk Hreinsdóttir, mannauðsstjóri.

„Hjá stofnuninni hefur verið markvisst lögð áhersla á að jafna stöðu kvenna innan stofnunarinnar og fjölga konum í ábyrgðarstöðum,“ segir Berglind Björk Hreinsdóttir, mannauðsstjóri.

„Allt er þetta í samræmi við jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun stofnunarinnar. Má nefna að áður fyrr var leiðangursstjórnun oftar í höndum karla en slík er ekki staðan í dag og leiðangurstjórn jafnt í höndum kvenna og karla, enda hefur hlutverkið ekkert að gera með kyn heldur fagþekkingu og reynslu.

Við þurfum að leggja áherslu á að konur séu meira áberandi og séu sýnilegri en þær hafa verið hjá stofnuninni en hjá okkar starfar frábært vísindafólk sem er af öllum kynjum. Hér eru konur að gera frábæra hluti og eru okkar framtíðarfólk. Hjá okkur er mikill mannauður fólginn í konum og þeirra störfum. Konur eiga mikið inni á þessu sviði og ég tel að þær muni leiða og stýra því áhugaverða rannsóknastarfi sem fram undan er á sviði hafs og vatnarannsókna og leyfi ég mér að segja að á þessu rannsóknasviði eins og reyndar mörgum öðrum þá er framtíðin í okkar höndum. Framtíðin er björt og mikil gróska í rannsóknum á sviði hafs og vatna og mjög spennandi störf í boði hjá stofnuninni fyrir konur.“

Eydís Salome Eiríksdóttir, jarðefnafræðingur.

Þurfum að passa vatnaauðlindina

„Ég starfa við rannsóknir á efnasamsetningu ferskvatns á Umhverfissviði Hafrannsóknastofnunar,“ segir Eydís Salome Eiríksdóttir jarðefnafræðingur. Hún hefur starfað hjá stofnuninni frá árinu 2016 en hefur komið að rannsóknum og vöktun á ám og vötnum um allt land í mörg ár.

„Ég starfa mikið með líffræðingum og saman vinnum við að þverfaglegum rannsóknum meðal annars á vistkerfum í ferskvatni og ástandi vatns. Undanfarin ár hef ég unnið mikið með Umhverfisstofnun að málefnum sem snúa að flokkun vatns eftir ástandi þess.

Við þurfum að passa upp á vatnaauðlindina og finna leiðir til þess að meta ástandið og ég hef verið mikið í því á undanförnum árum að sýna hvað er náttúrulegt ástand og hvað gætu verið vísbendingar um mengun í vatni.

Við eigum mjög mikið af ferskvatni; það rignir heil ósköp hérna og er mikið til af vatni og mest af þessu vatni er ómengað og gott vatn. Hins vegar er álag af mannavöldum víða að finna og það er svolítið okkar að fylgjast með því hvaða áhrif það getur haft og reyna að koma í veg fyrir að það valdi hnignun á vatnsgæðum. Og þá er mikilvægt að vita hvert grunnástandið er og hver breytileikinn er frá náttúrunnar hendi.“

Eydís segir að þegar kemur að rannsóknum þá skiptist starfið í útivinnu þar sem hún fer út á öllum árstímum og tekur sýni úr vatni hvernig sem viðrar. „Svo byrjar innivinnan, fyrst á rannsóknarstofu og svo við skrifborðið. Þannig að þetta er mjög fjölbreytt starf.“

Eydís segist ekki hafa velt því fyrir sér að hún sé í starfi sem hafi að mestu verið sinnt af körlum, fyrr en hún hitti gamlan mann úti á landi á sínum tíma þar sem hún var ásamt samstarfskonu sinni.

„Við vorum að vinna að vatnamælingum og rannsóknum á fersku vatni og hann hváði, hló og var voða kátur og sagði: „Nei, tvær konur í vatnamælingum!“ Honum fannst þetta vera stórmerkilegt.“ Síðan þá hefur Eydís oft hugsað til formæðra sinna með þakklæti fyrir að hafa rutt brautina fyrir sig.

Petrún Sigurðardóttir, líffræðingur.

Greinir aldur á þorski

„Ég er með meistaragráðu í líffræði og er starf mitt aðallega tvíþætt. Annars vegar vinn ég við það að greina aldur á þorski út frá kvörnum sem er safnað í röllum og úr sýnatökum á landi. Hins vegar vinn ég við að skoða og greina myndefni sem er tekið á hafsbotni,“ segir Petrún Sigurðardóttir, líffræðingur.

„Ég fer líka svolítið út á sjó í rannsóknarleiðangra, bæði til að mæla fiska og safna kvörnum í árlegu röllunum og til að mynda hafsbotninn.“

Petrún segir að þegar kemur að aldursgreiningu á þorski þá fái hún fullt af kvörnum og þurfi að lesa aldurinn á þeim í víðsjá en hún segir að árlega séu tveir aðilar að aldurslesa um 15.000 þorska. „Aldur á fiskum er mjög mikilvægur til að reikna út fiskveiðiráðgjöfina hvert ár. Kvörnum eru safnað í alls konar leiðöngrum yfir árið, þær sagaðar í tvennt og þá er hægt að telja svokallaða árhringi til að fá aldur þorskanna. Þetta er ekki ólíkt því að telja árhringi í trjám.“

Hvað hafsbotninn varðar segir Petrún að um sé að ræða myndir og myndbönd sem hafi verið tekin á hafsbotni, aðallega til að reyna að finna og skrá viðkvæm búsvæði í kringum landið og stuðla að verndun viðkvæmra búsvæða á hafsbotni.

„Þessi vinna felst að miklu leyti í því að renna yfir myndir af hafsbotni og merkja inn mismunandi tegundir og hluti sem sjást. Út frá þessari vinnu höfum við einnig oft séð rusl, og er ég nú að vinna að skýrslu sem fjallar um það rusl sem við höfum fundið á hafsbotninum. Mest af þessu rusli eru fiskilínur og net úr trollum sem eru að miklu leyti flækt við kórala. Við höfum líka meðal annars fundið flutningabretti, gosdósir og plastpoka. Það er því ýmislegt sem hægt er að finna á hafsbotninum.“

Dr. Pamela Woods, fiskifræðingur.

Veitir ráðgjöf um sjálfbærar veiðar

„Ég fæddist í Connecticut í Bandaríkjunum og fór í framhaldsnám í Seattle við University of Washington í Seattle, í School of Aquatic and Fisheries Sciences, auk þess að stunda nám við líffræðideild Háskóla Íslands,“ segir Pamela Woods.

„Doktorsprófið mitt er sameiginlegt milli háskólanna tveggja. Fyrir framhaldsnámið lærði ég stofnmat og ferskvatnsvistfræði með áherslu á bleikju á Íslandi og í Alaska. Ég veiti nú matvæla- og landbúnaðarráðuneytinu ráðgjöf um veiðimöguleika í gegnum Hafrannsóknastofnun og Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES. Ég stunda einnig rannsóknir í líffræði og hagfræði með áherslu á að bæta stofnmatslíkön og fiskveiðistjórnunaraðferðir, sérstaklega í ljósi loftslagsbreytinga.“

Þessi umfjöllun birtist fyrst í sérblaðinu Kvenréttindadagurinn sem fylgdi Fréttablaðinu laugardaginn 18. júní 2022.