Þóra Leósdóttir, formaður Iðjuþjálfafélags Íslands, segir tengslin á milli manns og iðju órjúfanleg. „Iðja er öllum manneskjum nauðsynleg og frá örófi alda hefur líf okkar einkennst af þörf til að stunda iðju af margvíslegu tagi. Rannsóknir sýna glöggt að ef fólk kemst í þær aðstæður að geta ekki sinnt þeim viðfangsefnum sem eru því mikilvæg og hafa jákvæðan tilgang, þá bitnar það á heilsu og líðan.“

Það sé sérstaklega brýnt að vera vakandi fyrir þessum mikilvægu þörfum um þessar mundir. „Á tímum heimsfaraldurs, með tilheyrandi sóttvarnaaðgerðum og efnahagsþrengingum blasir það einmitt við okkur hversu áríðandi er að geta viðhaldið daglegum venjum eins og að stunda vinnu eða skóla, hitta fjölskyldu og vini og sinna tómstundaiðju og áhugamálum. Hætta er á að fólk einangrist félagslega og það hefur neikvæð áhrif á geðheilsu. Á tímum farsóttar þurfum við því öll að „endurhugsa hversdaginn“,“ segir Þóra.

Iðjuþjálfar fást við fjölbreytt verkefni og athafnir er snúa að hversdeginum, mörg hver sem fólk tekur sem sjálfsögðum hlut. „Í iðjuþjálfun felst sérþekking á daglegri iðju mannsins. Þá er átt við allt það sem fólk innir af hendi í daglegu lífi í þeim tilgangi að annast sig og sína, vinna ýmis störf er nýtast samfélaginu og njóta þess sem lífið hefur að bjóða. Sem dæmi um iðju má nefna það að klæða sig og snyrta, elda mat, aka bíl, afgreiða í verslun, skrifa ritgerð, fara á skíði, mála mynd eða fara í göngutúr í náttúrunni. Þótt þessi viðfangsefni virðist sjálfsögð og einföld fyrir flesta, þá geta þau verið erfið og jafnvel óyfirstíganleg fyrir fólk sem glímir við skerta færni hvort heldur sem er af líkamlegum, andlegum eða félagslegum toga eða vegna þess að það býr við hindranir í umhverfi sínu og ójöfn tækifæri til iðju.“

Umhverfið hefur áhrif

Iðjuþjálfar þurfa að huga að mörgum þáttum sem hafa áhrif á líf skjólstæðinga. „Iðjuþjálfar vinna með fólki og aðstoða það við að efla sjálfstæði sitt, færni og þátttöku við daglega iðju auk þess sem þeir rýna í hvað veldur iðjuvanda og þá ekki síst í þá þætti í umhverfinu sem draga úr færni viðkomandi – eru Þrándur í götu. Samspil einstaklings, iðju og umhverfis er þannig ávallt í brennidepli. Stundum er einfaldasta leiðin til að auka færni fólks hreinlega sú að breyta aðstæðunum. Gott dæmi um það er að útbúa skábraut fyrir framan verslun eða veitingastað þannig að þau sem nýta hjólastól komist inn án hjálpar.“

Þá er ekki síður mikilvægt að skoða umhverfi viðkomandi. „Það er brýnt að horfa meira til umhverfisins því þar liggur oft rót vandans. Það hefur sýnt sig að sem samfélag höfum við ríka tilhneigingu til þess að líta svo á að skert færni sé til komin vegna veikleika eða galla hjá viðkomandi manneskju og því þurfi að „lagfæra“ hana. Það á miklu frekar að horfa á styrkleika fólks og breyta umhverfinu þannig að það sé aðgengilegt, hvetjandi og geri öllum kleift að taka þátt,“ segir Þóra.

„Iðjuþjálfar nýta sérþekkingu sína og viðurkenndar matsaðferðir til að greina hvað það er í umhverfi fólks sem hindrar eða ýtir undir þátttöku þess í leik og starfi. Þetta geta verið aðstæður heima, í skóla, vinnu eða samfélaginu. Oft starfa iðjuþjálfar með hópum og veita þá fræðslu og ráðgjöf sem snýr að breyttum lífsháttum og vinnuvernd, svo sem til að sporna við vinnuálagi, breyta vinnuaðstöðu og hafa stjórn á streitu til að ná betra jafnvægi í daglegu lífi.“

Fag- og stéttarfélag

Iðjuþjálfafélag Íslands er eitt af aðildarfélögum Bandalags háskólamanna. Það var stofnað 1976 og voru stofnfélagar tíu talsins. Í dag eru félagsmenn hátt á fjórða hundrað. „Hlutverk félagsins er meðal annars að standa vörð um hagsmuni iðjuþjálfa og efla samvinnu og samheldni innan stéttarinnar. Það hefur einnig hlutverki að gegna við að efla þróun og gæði iðjuþjálfunar, stuðla að bættri menntun og aukinni fagvitund iðjuþjálfa. Góð og regluleg samvinna er við iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri en þar starfa öflugir kennarar sem, fyrir utan það að leiðbeina nemendum, stunda rannsóknir og láta sig þróun fagsins hér á landi miklu varða. Félagið tekur þátt í erlendu samstarfi bæði á norrænum og evrópskum vettvangi,“ segir Þóra.

„Fagið hefur þróast og breyst í gegnum tíðina og víðast hvar í hinum vestræna heimi hefur iðjuþjálfun náð því takmarki að vera skilgreind sem fræðigrein með áherslu á vísindalega þekkingu og gagnreynt starf.“

Starfsemi félagsins er fjölþætt og öflug. „Félagið heldur regluleg málþing og fræðslufundi fyrir félagsmenn og aðra áhugasama. Enn fremur stendur það að útgáfu fagblaðs þar sem finna má bæði ritrýndar greinar og annað efni um það sem iðjuþjálfar taka sér fyrir hendur. Félagið heldur einnig úti heimasíðu með ýmsum hagnýtum upplýsingum auk þess að nýta samfélagsmiðla til að dreifa fræðslu og upplýsingum.“

Þóra Leósdóttir segir að Covid og afleiðingum þess sé gefinn sérstakur gaumur á Alþjóðlegum degi iðjuþjálfa þetta árið.

Þörf á fleiri iðjuþjálfum

Starfsmöguleikar fólks að loknu iðjuþjálfanámi eru fjölbreyttir. „Iðjuþjálfun er faggrein sem er í örum vexti og mikil eftirspurn er eftir starfskröftum iðjuþjálfa á heimsvísu. Í nýlegri grein sem birt var í Forbes-tímaritinu er því spáð að eftirspurn eftir iðjuþjálfum muni aukast um 16% á næstu árum. Hér á landi starfa félagsmenn á fjölbreyttum vettvangi til að mynda í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, í leik- og grunnskólum, á hjúkrunarheimilum og við endurhæfingu eða hjá félagasamtökum sem sinna fólki með geðræna erfiðleika.“

Þó sýni tölfræðin að gera megi betur hér á landi. „Þrátt fyrir það er þjónusta iðjuþjálfa oft lítt sýnileg og ekki aðgengileg til dæmis í grunnþjónustu eins og heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við er staðan mun betri. Sem dæmi má nefna að í Danmörku starfa tæplega 200 iðjuþjálfar á hverja 100 þúsund íbúa en hér á landi eru þeir einungis 90. Bætt aðgengi að iðjuþjálfun í grunnþjónustu landsmanna er eitt helsta baráttumál Iðjuþjálfafélagsins þessi misserin. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir og endurhæfingu og þar eru hafa iðjuþjálfar skýrt hlutverk sem ein af lykilstéttum þverfaglegrar endurhæfingar.“

Mikilvægt sé að fólk sé meðvitað um að hægt sé að leita aðstoðar. „Gegnum áratugina hafa iðjuþjálfar komið á laggirnar ýmiss konar þjónustu þar sem hana hefur vantað. Til þess að forvarnir og endurhæfing gagnist fólki þá þarf slíkt að vera sýnilegt og aðgengilegt í nærsamfélaginu. Iðjuþjálfar líta svo á að endurhæfing sé valdeflandi samstarfsferli þar sem full þátttaka og hlutdeild í samfélaginu eru mannréttindi.“

Þá sé gríðarlega mikilvægt að efla forvarnir, það borgi sig margfalt hvernig sem á það er litið. „Það þarf að vera hægt að grípa inn í áður en vandinn verður of stór og einnig fylgja eftir endurhæfingu sem viðkomandi hefur notið á sjúkrahúsi eða endurhæfingarstofnun. Með því að tryggja gott aðgengi fólks með vægari færniskerðingar að endurhæfingarúrræðum, þar sem snemmtæk íhlutun er í forgrunni, má fyrirbyggja þörf á sérhæfðari og dýrari þjónustu síðar. Nýleg skýrsla sem iðjuþjálfafélögin á Norðurlöndunum létu gera sýnir til dæmis að iðjuþjálfun hefur ótvíræðan samfélagslegan ávinning út frá heilsuhagfræðilegum mælikvörðum – iðjuþjálfun borgar sig.“

Alþjóðlegur dagur

Í dag er alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar en hann er haldinn hátíðlegur ár hvert. „Þemað í ár er „Að endurhugsa hversdaginn“ eða „Reimagine doing“ og það hefur skírskotun í heimsfaraldurinn sem veldur því að daglegt líf okkar fer úr skorðum. Hjá flestum er hversdagurinn alla jafna á sjálfstýringu og skil á milli vinnu og einkalífs, vinnustaðar og heimilis nokkuð skýr,“ skýrir Þóra frá.

„Nú eru breyttar aðstæður. Félagsleg tengsl og þátttaka eru eru lykilþættir fyrir okkur manneskjur, rétt eins og góð næring, svefn og hreyfing. Enn fremur er þekkt að það að láta gott af sér leiða styrkir ónæmiskerfið. Skortur á félagslegum samskiptum og einmanaleiki hefur á hinn bóginn neikvæð áhrif á heilastarfsemi, geðheilsu og vellíðan.“

Þóra segir atburðarás undanfarinna mánuða varpa ljósi á mikilvægi starfsstétta á borð við iðjuþjálfa. „Ný heimsmynd sýnir okkur glöggt hversu brýnt það er að velferðarþjónusta og stuðningur við fólk í viðkvæmri stöðu, hvort heldur sem það er vegna líkamlegra, geðrænna eða félagslegra erfiðleika, sé sýnileg og aðgengileg. Þetta á við um alla aldurshópa og áherslan þarf að vera á forvarnir og snemmtæk inngrip. Þeir veikleikar sem voru fyrir í kerfinu verða enn augljósari við þessar aðstæður. Má þar nefna mönnun í heilbrigðis- og félagsþjónustu og aðgengi að þverfaglegri endurhæfingu í nærumhverfi fólks. Hundruð sem hafa veikst af COVID-19 en lögðust ekki á spítala þurfa á þverfaglegri endurhæfingu að halda en sú þjónusta er sjaldnast í boði. Úr þessu verður að bæta.“