Þverfaglegt sérfræðiteymi starfar hjá Greenfit. Lukka Pálsdóttir er annar eigandi fyrirtækisins en margir kannast við hana frá því hún rak heilsuveitingastaðinn Happ. Már Þórarinsson sem lengi stundaði keppnisíþróttir rekur Greenfit með Lukku, en ásamt þeim starfar hópur sérfræðinga hjá fyrirtækinu. Greenfit hefur starfað í tæplega tvö ár og segir Lukka ótrúlegt að sjá árangur fólks sem hefur komið í mælingar. „Við erum fyrst og fremst í heilsumælingum. Starfsemin er nýjung hér á landi og ég veit ekki til þess að þetta sé gert eins annars staðar. Við erum ekki líkamsræktarstöð en til okkar leita mjög margir sem eru í einhvers konar hreyfingu eða íþróttum. Ætli við séum ekki brúin á milli heilsuræktar og heilsugæslustöðvar,“ segir hún.

Fyrirbyggja heilsubrest

„Fólk á öllum aldri leitar til okkar. Allt frá þeim sem vilja stíga upp úr sófanum og bæta heilsuna yfir í þá sem eru á leið í heimsmeistarakeppni. Margir halda að svona mæling sé bara fyrir íþróttamenn en það er alls ekki þannig. Allir sem vilja bæta heilsuna geta komið til okkar í ástandsskoðun. Fólk fer með bílinn sinn í skoðun reglulega en það er ekki síður mikilvægt að ástandsskoða líkamann. Fólk fer til heimilislæknisins þegar eitthvað bjátar á, en það kemur til okkar ef það vill fyrirbyggja heilsubrest,“ útskýrir Lukka. „Við leggjum áherslu á að hámarka bætta heilsu óháð því í hvaða formi fólk er. Síðan eru fjölmargir sem koma til okkar til að bæta árangur sinn í íþróttum. Aðrir koma til að bæta líðan og lífsgæði,“ segir hún.

Álagsprófið getur hjálpað þeim sem æfa á röngu álagi.

Efnaskiptin mæld

Lukka segir að gerðar séu grunnmælingar, efnaskipti eru mæld sem segja fólki hver brennsla líkamans er á sólarhring og hvernig hlutföll kolvetna og fitu skiptast í brennslunni. Einnig er gert álagspróf en það getur sagt til um hvernig best sé að æfa til að ná hámarksárangri. Loks eru skoðaðir helstu áhrifavaldar heilsunnar eins og blóðsykur, blóðfita og bólgur. Einnig er hægt að mæla hvort fólk sé með vítamínskort, eða vandamál tengd lifur eða nýrum. Ef einhverjir sjúkdómar koma í ljós er læknisheimsókn ráðlögð. Annars fær fólk ráðleggingar frá sérfræðingum Greenfit um hvað það getur gert til að bæta mataræði og hreyfingu.

„Grunnmælingin gefur fólki góða hugmynd um hvernig það er statt heilsufarslega séð. Út frá niðurstöðum gefum við fólki verkefni til að vinna að,“ segir Lukka. „Sumir þurfa að auka fitubrennslu eða róa öndun en aðrir þurfa að þjálfa á öðruvísi álagi. Hvert verkefni er einstaklingsmiðað. Það getur verið mikill fróðleikur í því að rýna í töluleg gildi í blóðsykri. Mjög algengt er að fólk sé með of há gildi og ég myndi segja að það væri aðkallandi að skoða það vandamál betur. Við tölum mikið um orkuskipti í bílum, að fara úr bensíni í rafmagn. Minna er talað um orkuskipti líkamans sem eru þó svo mikilvæg fyrir heilsu okkar. Fólk hefur verið að skipta úr fitubruna í kolvetnabruna sem veldur bæði heilsubresti og vanlíðan, finnur til dæmis fyrir aukinni þreytu. Mörg okkar hafa tapað hæfni til að nota orkugjafa okkar rétt, en það er hægt að þjálfa það upp aftur. Hluti af meðferðinni hjá okkur er að skoða mataræði fólks og gefa ráð til að bæta það. Almennt eru Íslendingar mjög duglegir, vilja hreyfa sig og ná árangri. Margir eru að æfa vitlaust á alltof miklu álagi sem skilar því þreytu í stað árangurs. Við erum þess vegna oft að hægja á fólki og benda því á að fara í rólegri hlaup eða fjallgöngur. Með þessari breytingu sér fólk fljótt árangur. Þegar fólk er of kappsamt gefst það frekar upp á þjálfuninni,“ segir Lukka og bendir á að ofþyngd sé sömuleiðis algengt vandamál.

Ástandsskoðun kemur í veg fyrir að fólk fái heilsubrest en efnaskiptin eru mæld ásamt fleiru.

Lífsstílssjúkdómar algengir

„Við einblínum ekki á þyngd heldur efnaskipti. Þegar þau hafa verið löguð léttist fólk, sem er bara bónus. Við horfum alltaf á manneskjuna út frá heilbrigði og efnaskiptum. Það hefur komið okkur á óvart að fá staðfestingu á því sem við höfum oft heyrt marga lækna hafa áhyggjur af, það er hversu algengt er að sjá hækkandi blóðsykur og hækkað insúlínviðnám. Þetta erum við líka að sjá í okkar tölum. Hátt insúlínviðnám er einn stærsti áhættuþátturinn þegar kemur að ýmsum langvinnum sjúkdómum. Áunnin sykursýki er augljósasta tengingin en einnig getur insúlínónæmi haft áhrif á ófrjósemi, PCOS hjá ungum konum, hjarta- og æðasjúkdóma auk margra annarra þátta. Það má í rauninni segja að kólesteróli hafi verið kennt um þann skaða sem sykurinn veldur. Áhugavert er líka að skoða tengsl insúlínviðnáms og Covid-19. Komið hefur í ljós að þeir sem hafa veikst illa af Covid eru margir með hækkað insúlínviðnám án þess að vita af því. Nokkrir sem hafa verið að glíma við eftirköst af sjúkdómnum hafa leitað til okkar. Þeir hafa margir átt það sameiginlegt að vera með skerta getu til fitubruna og/eða of hátt insúlín,“ upplýsir Lukka.

Áhyggjur af unga fólkinu

„Við höfum verulegar áhyggjur af ungu kynslóðinni. Við höfum verið að mæla unglinga sem koma verr út en foreldrarnir varðandi efnaskipti. Stundum eru þetta krakkar sem stunda íþróttir og í góðu formi. Þau eru samt með forstig sykursýki. Þegar skoðaðar eru neysluvenjur eru þau mikið í orkudrykkjum, unnum matvælum og koffíndrykkjum. Það eru röng skilaboð að maður þurfi orkudrykk ef stundaðar eru íþróttir. Ef heldur fram sem horfir þá erum við að fara að taka börnin okkar með á elliheimilið. Heilsu ungu kynslóðarinnar hrakar örar en okkar eldri. Það var sorgleg en þörf umfjöllun um ofþyngd barna í þættinum Kveik. Við verðum að taka þessa umræðu út frá heilbrigði en ekki fara í vörn. Hækkuð lifrar- og sykurgildi er stórt framtíðarvandamál. Við verðum að taka höndum saman og fara í víðtækar aðgerðir til að sporna við þessu vandamáli. Heilbrigðiskerfið er að springa vegna lífsstílssjúkdóma. Það má ekki þagga niður þessa umræðu. En við getum breytt þessu. Við getum svo sannarlega breytt þessu með betri upplýsingum, samstilltu átaki og hvatningu.“

Lukka og Már stofnuðu Greenfit þegar þau uppgötvuðu hversu margir væru með röng efnaskipti án þess að hafa hugmynd um það. „Við vildum opna augu fólks fyrir þessu vandamáli og gefa ráðleggingar til að bæta heilsu og ekki síður til að bjarga heilbrigðiskerfinu. Það sem gerir starfið okkar skemmtilegt og er hvetjandi, er að sjá þann árangur sem fólk nær eftir að hafa komið til okkar. Fólk er duglegt að segja okkur frá árangri sínum og bættum lífsgæðum. Það er alltaf hægt að bæta heilsu sína og hver og einn ber ábyrgð á sjálfum sér.

Greenfit er staðsett á Snorrabraut 54, sími 780 6226. Hægt er að panta tíma í gegnum heimasíðuna greenfit.is og kynna sér starfsemina.