Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir er verkefnastjóri Asks - mannvirkjarannsóknarsjóðs. Hún segir að í Nýsköpunarvikunni verði kynnt níu af tuttugu og þremur verkefnum sem hlutu styrk hjá Aski. „Verkefnin eru til vitnis um þau tímamót sem byggingariðnaðurinn stendur á varðandi vistvænar áherslur. Hringrásarhagkerfið, endurnýting byggingarefna, notkun á vistvænum efnum og þær áherslur að finna leiðir til að vinna með efni í nærumhverfinu, koma sterkt fram í verkefnum Asksins,“ segir Hrafnhildur.

Áhugaverð verkefni

„Rannsóknir á nýjum byggingarefnum eins og hampi sem einangrandi efni, rannsóknir á aukinni vistvænni steinsteypu, íslenskum trjám sem klæðningarefni, krosslímdum timbureiningum, endurskoðun á nýtingu jarðefna úr uppgreftri, endurnýtingu niðurbrots eldri bygginga og nýtingu á trefjaplasti í húsbyggingar eru allt viðfangsefni styrkþega Asksins.

Leki, raki, mygla og óheilnæmi í húsnæði eru áskoranir sem er svo mikilvægt að mæta því áhrif þeirra hafa ekki eingöngu sýnt sig í gríðarlegu verðmætatapi heldur einnig stórfelldum heilsufarslegum vandamálum og getu íbúa til að taka þátt í lífinu. Fjögur verkefni sem hlutu styrk í Aski lúta að rannsóknum og leiðbeiningum til að mæta þessu vandamáli.

Glæsilegur hópur sem hlaut styrki en afl Asksins stuðlar að aukinni grósku og nýsköpun í mannvirkjarannsóknum. Afl sem varðar ekki eingöngu vistvæna mannvirkjagerð, heldur eykur einnig gæði íbúða og mannvirkja.

Hönnun skiptir máli

Hönnun og bygging heimila okkar og nærumhverfis getur skipt sköpum um vellíðan og þátttöku íbúanna í samfélaginu. Í styrkflokknum gæði og ólík form húsnæðis eru verkefni sem lúta að rannsóknum á dagsbirtu og rannsóknum á hagkvæmum íbúðum í samhengi við gæði híbýlanna og áhrif þeirra á heilsu og virði gæða íbúðanna fyrir einstaklinga og samfélög. Ríki og sveitarfélög vinna að uppbyggingu á hagkvæmum og hóflegum leiguheimilum. Í því opinbera stuðningskerfi er farin sú leið að hanna verðmiðann fyrst, þannig að hann henti notandanum, og fundnar leiðir til að hámarka gæði innan verðmiðans. Samfélagslegur ávinningur rannsókna á hagkvæmum íbúðum er ótvíræður. Hann talar inn í þau stuðningskerfi sem við höfum verið að innleiða og mun án efa treysta þau í sessi og stuðla að auknu virði fyrir íbúana og samfélagið allt.

Lifandi borgarrými

Nýir þróunarreitir eru ekki lengur einskorðaðir við íbúðir eða atvinnurými í sérstökum hverfum heldur hefur skipulagið færst í þá átt að gert er ráð fyrir lifandi borgarrými, íbúðum í bland við atvinnurými þar sem er pláss fyrir fjölbreytta nærþjónustu við íbúa og lifandi nágrenni. Meðal styrkþega Asks er rannsókn sem varpar ljósi á heimilisrýmið í samhengi við næsta nágrenni og áhrif þess á hegðun, neyslu og almenna líðan fólks auk framangreindra rannsókna sem einnig tala inn í þennan málaflokk.

Styrkþegar í flokknum tækninýjungar munu reisa hringrásarhús með það að markmiði að hámarka auðlindanýtingu og lágmarka kolefnisspor og stuðla að grænni nýsköpun í byggingariðnaði. Nett uppfinning sem snýr að þunnu varmaendurvinnslu-loftræstikerfi sem lækkar orkunotkun, stýrir raka og viðheldur heilnæmu umhverfi innandyra fær einnig styrk úr Aski til frekari rannsóknar og þróunar.

Eins og framangreind umfjöllun sýnir er afl Asksins umtalsvert til að stuðla að aukinni grósku og nýsköpun í mannvirkjarannsóknum. Afl sem varðar ekki eingöngu vistvæna mannvirkjagerð, heldur eykur einnig gæði íbúða og mannvirkja og stuðlar enn fremur að bættri heilsu íbúa.

Næsta úthlutun í haust

Við hjá HMS munum til viðbótar við þá styrki sem hafa verið veittir bjóða upp á spennandi málstofur styrkþega. Við hvetjum fagaðila og almenning til að fylgjast með og taka þátt í þeim viðburðum sem við munum bjóða upp á í tengslum við Askinn. Heimasíða Asksins hefur einnig að geyma upplýsingar um þessi verkefni og þau tækifæri sem þau geyma.

Við hjá HMS hlökkum til að taka þátt í að efla nýsköpunar- og rannsóknarumhverfi mannvirkjageirans. Mikilvægur grunnur hefur verið lagður en umfang umsókna og samanburður við nágrannaríkin staðfestir jafnframt tækifæri og þá krafta sem hægt er að leysa úr læðingi með auknum stuðningi við byggingarrannsóknir.“

Næsta úthlutun úr Aski verður auglýst í september.

Nánari upplýsingar um sjóðinn má nálgast á hms.is/askur.