Sumir sérfræðingar halda því fram að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (SDGs) sé einungis útópískur draumur. Hins vegar hefur Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) meðal annarra talið þetta einn helsta i leiðarvísi mannkyns til þess að komast í gegnum margþættar raunir 21. aldarinnar.

„Heimsmarkmiðin samanstanda alls af 17 markmiðum, 169 undirmarkmiðum og 232 mælikvörðum en hvernig má velja viðeigandi heimsmarkmið til þess að styðja framþróun, flýta vegferðinni í átt að sjálfbærni og á sama tíma huga að fjárhags- og rekstrarlegri sjálfbærni fyrirtækja?“ segja þeir Bjarni Herrera, framkvæmdastjóri og Hafþór Ægir verkfræðingur. Þeir eru meðeigendur fyrirtækisins CIRCULAR.

„Heimsmarkmiðin voru upphaflega hugsuð sem metnaðarfull markmið fyrir stjórnvöld til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir. Fyrirtæki hafa hins vegar í stigvaxandi mæli áttað sig á vægi sínu í vegferðinni að sjálfbærni, sem og tækifærum þeim tengdum til virðisaukningar. Því hafa sífellt fleiri fyrirtæki leitast eftir því að innleiða og velja sér markmið, sem getur þó stundum reynst flókið,“ útskýrir Bjarni.

Mikilvægi, áhættur og viðskiptamöguleikar

„Lykillinn að innleiðingu heimsmarkmiðanna meðal fyrirtækja liggur í meðvitund og forgangsröðun lykiláhættuþátta tengdum UFS (umhverfismál, félagslegir þættir og stjórnarhættir, e. ESG). Þá sérstaklega þeim þáttum sem eiga helst við starfsemi, virðiskeðju og hagsmunaaðila fyrirtækisins, það er eiga sérstaklega við atvinnugeira þess.

Sú meðvitund og forgangsröðun getur því verið grundvöllur að ákvarðanatöku um forgang heimsmarkmiða fyrirtækisins. Mikilvæg (e. material) heimsmarkmið verða þannig mælikvarði á hæfni, meðvitund og skuldbindingu fyrirtækisins til þess að stýra mögulegum neikvæðum og jákvæðum áhrifum þess á þau heimsmarkmið sem valin voru,“ upplýsa þeir.

Hin þrefalda rekstrarafkoma

„Fyrirtæki geta mögulega hagnast á því að hafa heildræna og sterka UFS-stefnu tengda atvinnugeiranum ásamt aðgerðaáætlun með mælanlegum markmiðum og mikilvægum heimsmarkmiðum. Ávinningur í kjölfar þess getur verið á borð við hagnaðaraukningu, kostnaðarhagræði, laðað að og haldið í hæfileikaríkt starfsfólk, betra samtal við eftirlitsaðila og aukinn hagnað innri fjárfestinga.

Öll fyrirtæki hafa bæði getu og tök á því að velja viðeigandi heimsmarkmið fyrir starfsemi sína. Með því að fylgja fyrrnefndri aðferðarfræði geta þau komið í veg fyrir græn- eða regnbogaþvott og þess í stað aukið hina þreföldu rekstrarafkomu (e. triple bottom line), það er fyrir umhverfið, samfélagið og arðsköpun.“