Nákvæm greining árekstra á milli reiðhjóls og bifreiðar við gatnamót, er heiti rannsóknarskýrslu sem Katrín birti árið 2018. Skýrsluna vann hún í kjölfar niðurstöðu annarrar rannsóknar, Nákvæm greining á hjólreiðaslysum, sem kom út árið 2016. „Sú rannsókn leiddi í ljós að algengasta slysategundin á hjólandi vegfarendum var árekstur milli bifreiðar og reiðhjóls. Við nánari greiningu kom í ljós að 75% þeirra slysa áttu sér stað við tengingu eða gatnamót,“ segir Katrín sem þótti þessi niðurstaða áhugaverð og ákvað að gera nákvæmari greiningu á þessum tilteknu slysum.

„Ég lagði áherslu á að skoða umferðarstraum ökutækja þegar slys varð, það er stefnu bifreiðar og stefnu reiðhjóls. Ég mat aðstæður hjólandi vegfarenda og umhverfi á slysstað. Einnig skoðaði ég umferðarrétt á staðnum, það er biðskyldu, ljós og álíka.“

Niðurstöður Katrínar voru í takt við þær sem fram komu í fyrri rannsókninni, en algengustu útskýringar á tildrögum slysa við gatnamót eru eftirfarandi:

* Slæmt skyggni eða að sól blindaði ökumann bifreiðarinnar.

* Ökumaður bifreiðar var með augun á umferð eftir götunni, fylgdist ekki með stígum og gangstéttum.

* Sýn ökumanns bifreiðar skert vegna húss, hljóðmanar, bifreiðar, gróðurs og fleira.

* Misskilningur: Hjólandi vegfarandi taldi að ökumaður bifreiðar hefði séð til sín þegar svo var ekki.Misskilningur: Vegfarendur sáu hvor annan og töldu báðir að hinn aðilinn myndi víkja.

* Hraði: Hvorki hjólandi vegfarandi né ökumaður bifreiðar náði að bregðast við í tæka tíð til að koma í veg fyrir slys.

Niðurstöður verkefnisins benda til þess að öruggara sé að hjóla í sömu átt og akstursstefna götunnar, en slys urðu í 19% tilvika við slíkar aðstæður en í 31% tilvika þegar hjólað var á móti akstursstefnu.

Þá kom einnig í ljós að í 59% tilvika hugðist ökumaður bifreiðar beygja um gatnamót þegar slys varð. Langalgengast var að hjólandi vegfarandi hugðist fara beint áfram þegar slys varð við gatnamót eða inn- og útkeyrslu, eða í 79% tilvika.

„Niðurstöður verkefnisins benda til þess að aðalvandamálið sé vegsýn við gatnamót og inn- og útkeyrslur og skortur á meðvitund ökumanna bifreiða um umferð reiðhjóla,“ segir Katrín sem telur þetta undirstrika mikilvægi góðrar hönnunar á innviðum ætluðum hjólreiðum við gatnamót þar sem vegsýn skiptir miklu máli.