„Ég hef starfað við sölu á byggingarvörum í áratugi og sú reynsla og þekking sem á þeim tíma hefur áunnist nýtist mjög vel í starfi mínu hjá Húsasmiðjunni. Enda er hluti af starfinu að miðla af reynslu og þekkingu,“ segir Eggert Gottskálksson, söluráðgjafi í glugga- og hurðalausnum hjá Húsasmiðjunni.

Reynslumikið starfsfólk

„Húsasmiðjan er rótgróið fyrirtæki á íslenska byggingarvörumarkaðnum, stofnað árið 1956, sem er leiðandi á því sviði um land allt. Viðskiptavinir okkar eru bæði einstaklingar í framkvæmdum og fagmenn, stórir sem smáir byggingarverktakar,“ greinir Eggert frá.

„Markmið Húsasmiðjunnar er að veita framúrskarandi þjónustu, bjóða upp á rétt vöruúrval og samkeppnishæft verð. Það er reynslumikið starfsfólk í framlínunni og hægt er að treysta á þekkingu þess varðandi flestar byggingarlausnir.“

Í glugga- og hurðadeild Húsasmiðjunnar er áhersla lögð á að finna sérsniðnar lausnir í samráði við viðskiptavininn. „Fyrst og fremst aðstoðum við einstaklinga og fagmenn við að velja réttu lausnina fyrir framkvæmdina. Hvort sem þú ert að leita að ál-, tré-, PVC- eða timburgluggum og þakgluggum, þá höfum við lausnina fyrir þig og þín verkefni – hvort sem þau eru stór eða smá.“

Eggert segir mikla áherslu lagða á að bjóða upp á fjölbreytt og vandað vöruúrval sem uppfyllir strangar kröfur um íslenskar aðstæður. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Fyrir íslenskar aðstæður

Eggert segir strangar kröfur liggja að baki vöruframboði Húsasmiðjunnar. „Allar okkar vörur eru vottaðar og gæðaprófaðar fyrir íslenskar aðstæður. Þá er líka mikilvægt að reynsla sé af vörunum á markaðnum og við þær veðuraðstæður sem eru hér á landi. Það er áratugalöng reynsla af okkar vörum á íslenska markaðnum og er það mjög mikilvægt.“

Framleiðendur eru því valdir af mikilli kostgæfni. „Húsasmiðjan vinnur eingöngu með hágæða framleiðendum sem eru með áratuga reynslu af því að selja vörur sínar á íslenska markaðnum. Velfac og Rationel eru til að mynda leiðandi á Norðurlöndunum í framleiðslu á ál-, tré- og timburgluggum,“ segir Eggert.

„Við bjóðum svo auðvitað líka upp á Swedoor úti-, stál- og eldvarnarhurðir sem allt eru leiðandi vörur á sínu sviði. Loks bjóðum við Aradas PVC glugga og hurðir sem reynst hafa vel við íslenskar aðstæður, og svo mætti lengi telja.“

Eggert Gottskálksson segir mikil verðmæti fólgin í reynslu og þekkingu starfsfólks í glugga- og hurðadeild Húsasmiðjunnar. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Stærri gluggar og meiri birta

Eggert segist hafa orðið var við ákveðna tískustrauma hvað glugga snertir. „Ég myndi segja að gluggar hafi stækkað hjá hönnuðum, það er að glerfletirnir eru stærri en áður – enda æðislegt að hafa gólfsíða glugga sem hleypa dagsbirtunni inn. Þannig rými eru yfirleitt bjartari og notalegri. Stílhrein hönnun með einföldum og skörpum línum virðist vera það sem fólk vill, myndi segja að það séu svona helstu tískustraumarnir.“

Þegar Eggert er spurður að því hvort einhverjar nýjungar séu væntanlegar nefnir hann nokkrar. „Það eru þó nokkrar nýjungar sem eru og hafa verið að koma á markaðinn undanfarin misseri, þar má telja loftventla í gluggum sem hjálpa til við loftskipti í húsnæðinu, þeir eru í gluggastykkjunum og gefa öndun sem er mikilvægt þegar við erum að horfa til heilbrigðara húsnæðis,“ útskýrir Eggert.

„Síðan eru rennihurðirnar frá okkar framleiðendum búnar að vera í mikilli framþróun í takt við aukna notkun þeirra í nútíma húsnæði. Einnig hefur lamabúnaður með stoppurum til að festa glugga og hurðaeiningar í opnun verið að taka miklum breytingum til hins betra,“ segir Eggert.

„Það er alltaf framþróun hjá okkar framleiðendum enda erum við að selja frá nokkrum af fremstu glugga- og hurðaframleiðendum á markaðnum sem eru stöðugt að þróa og bæta sínar vörur.“

Eggert hvetur þau sem eru í framkvæmdum til að heimsækja Fagmannaverslun Húsasmiðjunnar í Kjalarvogi 12. „Verið velkomin í glugga- og hurðadeildina í Fagmannaversluninni, við tökum vel á móti ykkur.“