„Þegar Félag náms- og starfsráðgjafa var stofnað árið 1981 varð félagið meðlimur í norrænum samtökum náms- og starfsráðgjafa, sem heita Nordiska förbundet för studie- och yrkesvägledning (NFSY), en þau samtök eru aðili að alþjóðasamtökum náms- og starfsráðgjafa, International Association for Educational and Vocational Guidance (IAEVG). Félög náms- og starfsráðgjafa á öllum Norðurlöndunum eiga sinn fulltrúa í NFSY,“ segir Greta Jessen, sem er fulltrúi í norrænu nefndinni ásamt Margréti Björk Arnardóttur.

„Þessir fulltrúar félaganna mynda stjórn sem hittist tvisvar á ári. Tveir fulltrúar frá hverju landi sitja í stjórn og hefur hvert land formennsku í samtökunum í þrjú ár í einu,“ útskýrir Greta. „Ísland er núna nýbúið að afhenda Svíum stjórnartauminn og þeir sjá um formennskuna næstu þrjú árin.“

Styrkir tengslanetið verulega

„Meginmarkmið NFSY er að styrkja og standa vörð um náms- og starfsráðgjöf á Norðurlöndunum, að koma á tengslum og samstarfi fagfélaga í náms- og starfsráðgjöf og að koma fram fyrir hönd Norðurlandanna í alþjóðlegu samhengi innan alþjóðasamtakanna, IAEVG,“ segir Greta. „NFSY tókst líka að fá sinn fulltrúa inn í alþjóðasamtökin og nú á Guðbjörg Vilhjálmsdóttir sæti þar.

Virkir aðilar í NFSY undanfarin ár hafa, auk Íslands, verið Finnland, Danmörk, Svíþjóð og Noregur en Færeyjar, Grænland og Álandseyjar hafa tekið þátt að einhverju leyti og nú er verið að skoða áframhaldandi þátttöku þeirra,“ segir Greta.

„Eitt af áhersluatriðum NFSY er að efla tengslanet milli félagsmanna á Norðurlöndunum. Fulltrúar NFSY frá hverju landi eru tengiliðir inn í félag síns lands og geta aðstoðað náms- og starfsráðgjafa með að heimsækja kollega sína á Norðurlöndunum og með annars konar samstarf,“ segir Greta. „Upplýsingar um alla tengiliði Norðurlandanna má finna á heimasíðu NFSY, nfsy.org.“

Auðvelt að yfirfæra hugmyndir

„Það er löng hefð fyrir samstarfi milli Norðurlandanna í ýmsum málum. Þetta samstarf byggir á sameiginlegum gildum og áherslur eru svipaðar í málum eins og velferðar- og skólakerfinu. Því er auðvelt að yfirfæra hugmyndir á milli Norðurlandanna og oft er fyrsta skrefið að kanna hvernig málum er háttað hjá nágrönnum okkar,“ segir Greta. „Í NFSY skiptast náms- og starfsráðgjafar á Norðurlöndunum líka á skoðunum og upplýsingum um hluti eins og til dæmis starfsskilyrði, reynslu og rannsóknir.

Norræna samstarfið hefur eflt samvinnu Norðurlandanna á síðustu árum, ásamt því að auka samstarfið við Nordisk Netværk for Boksnes Læring (NVL), sem er norrænt tengslanet um fullorðinsfræðslu,“ segir Greta. „NVL er byggt upp á tengslanetum sem vinna þverfaglega yfir öll Norðurlöndin og byggir á norrænu samstarfsmódeli.“


Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu NFSY: nfsy.org.