Fyrirtækið Greenfit hefur skýrt markmið: Við bætum heilsu og lífsgæði. Greenfit notar nýjustu tæknilausnir í samstarfi við erlenda og innlenda sérfræðinga til að hjálpa íþróttafólki og öðrum landsmönnum til að ná hámarksárangri þegar kemur að hreyfingu og heilsu.

Ástandskoðun Greenfit skiptist í þrjá hluta að sögn Lukku Pálsdóttur, annars stofnenda fyrirtækisins; grunnefnaskipti, álagspróf og blóðmælingu. „Þetta er í raun 360 gráðu sýn á heilsuna sem byggir á þessum þremur mælingum. Við setjum grímu á fólk og mælum samsetningu súrefnis og koltvíoxíðs í andardrætti, skoðum öndunartíðni, hjartsláttartíðni, lungnarýmd og fleira. Út frá þessum tölum fæst mat á orkunotkun einstaklings bæði í hvíld og undir álagi ásamt því hvernig líkamsstarfsemin er dag frá degi og við getum þá hjálpað fólki að bæta almenna heilsu og ná markvissum árangri. Við skoðum líka blóðið, hver er vítamín- og steinefnastaða þess, blóðsykur, blóðfitur, bólgur og fleira.“

Koma auga á tækifærin

Hún segir að með þessum hætti geti þau eflt heilsu fólks sem um leið nær meiri árangri í íþróttum. „Við getum þannig hjálpað fólki að hlaupa betur og hraðar með því að skoða hver sé takmarkandi þáttur og koma auga á tækifærin. Stundum sjáum við t.d. að einhver er með takmarkandi þátt í öndun, mælist kannski með sex lítra lungu en notar bara tvo lítra í álagsprófinu. Þá þarf að kenna viðkomandi að dýpka öndun, styrkja öndunarvöðvana og auka þannig árangurinn. Það að finna þennan takmarkandi þátt hjá hverjum og einum og stilla æfingaálagið að hans persónulegu niðurstöðum skiptir því mjög miklu máli.“

Greenfit var stofnað fyrir tæplega einu og hálfu ári síðan af Lukku og Má Þórarinssyni, flugvirkja, GMB hreyfiflæðiþjálfara, MBA nema og alhliða íþróttamanni. Sjálf er Lukka sjúkraþjálfari, MBA, einkaþjálfari og jógakennari og stofnandi heilsuveitingastaðarins Happs og var um leið frumkvöðull í notkun næringar til heilsueflingar.

Mælingar Greenfit gefa í raun 360 gráðu sýn á heilsuna.

Brúin á milli líkamsræktar og læknisfræði

Hún segir þau Má hafa stofnað fyrirtækið saman eftir að hafa rekist alls staðar á veggi þegar þau fengu ekki þær mælingar í heilbrigðiskerfinu sem þau óskuðu eftir. „Svo áttuðum við okkur á því að hlutverk lækna í heilbrigðiskerfinu er að grípa okkur þegar eitthvað fer úrskeiðis en það vantaði aðila á markaðinn sem hjálpar okkur að halda í heilbrigði og fyrirbyggja vandann. Því er okkar fókus á að hámarka heilsu og koma í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma. Það sést ekki endilega utan á fólki hversu heilbrigt það er og við höfum fengið til okkar tvítuga atvinnuíþróttamenn með forstig sykursýki og það gefur vinnu okkar mikið gildi þegar við sjáum fólk ná árangri og snúa lífsstílstengdum sjúkdómum við.“

Fyrirtækið var stofnað í mars á síðasta ári, rétt áður en heimsfaraldurinn skall á. „Þetta var kannski ekki besta tímasetningin til að stofna fyrirtæki en þrátt fyrir allt hefur gengið lygilega vel. Þörfin fyrir bætta heilsu hefur sjaldan verið meiri og ef það er eitthvað jákvætt sem faraldurinn hefur kennt okkur er það aukin vitund um að við verðum að vera sterk til að standast alls kyns árásir á borð við þessar veiru.“

Fékkstu skoðun í ár?

Langstærsti hópurinn sem leitar til Greenfit kaupir ástandsskoðun að sögn Lukku. „Við teljum að allir Íslendingar ættu að fara í slíka skoðun, svipað eins og þeir setja bílinn sinn í ástandsskoðun. Hugsunin með ástandsskoðun bíla er að koma í veg fyrir slys og óhöpp. Það sama ætti auðvitað að gilda um okkur mannfólkið. Við viljum breyta þessu hér á landi, þannig að í stað þess að takast á við veikindi og sjúkdóma seint viljum við reyna að stunda fyrirbyggjandi aðgerðir og lagfæra snemma í ferlinu og auka þannig bæði langlífi og lífsgæði. Þannig vinnum við stærstu sigrana.“

Álagsprófið er einn þriggja hluta ástandsskoðunarinnar sem er vinsælasta þjónustan hjá Greenfit.

Fyrir hverja er Greenfit?

Góð heilsa er fyrir alla segir Lukka og bætir við að þjónusta Greenfit sé jafnt fyrir þá sem eru að stíga upp úr sófanum og þá sem stefna á heimsmeistaramót. „Sumir tengja okkur við afreksfólk og langhlaupara en góð heilsa á auðvitað að vera í boði fyrir alla. Við getum alltaf haft áhrif á heilsuna óháð því hvar við erum stödd í lífinu. Ólympíufari vill kannski bæta sig um eina sekúndu meðan hversdagsmaðurinn vill stundum bara auka vellíðan og lífsgæði. Við þjónum báðum hópunum.“

Hún segir þau hafa kynnst því gegnum tíðina hvað margir eru duglegir að hreyfa sig en standa þó í stað og nái ekki þeim árangri sem þeir vonast til og eiga skilið. „Stundum sjáum við augljósar ástæður sem hægt er að vinna markvisst með svo sem of hátt insúlín sem getur hamlað þyngdarstjórnun eða rangt æfingaálag sem getur dregið úr árangri í hlaupum og aukið meiðslahættu. Stundum þarf að æfa hægar til að ná að hlaupa hraðar.“

Nánari upplýsingar á greenfit.is.