„Við höfum meðal annars smíðað öpp fyrir starfsmenn Rarik í tengslum við álestur á rafmagnsmælum, vörulista- og kvittana-app og fleiri lausnir á borð við app fyrir bílstjóra sem eru að keyra út vörur sem unnið var fyrir Mjólkursamsöluna. Samstarfsverkefnið var að þróa öflugt app sem þjónaði þeirra þörfum með tengingu við Business Central bókhaldskerfi Mjólkursamsölunnar (NAV),“ segir Gunnar Þórisson, deildarstjóri appþróunar hjá Advania.

„Bílstjórarnir nota Android-spjaldtölvur og skrá sig inn í appið þar sem þeir fá upplýsingar um þær ferðir sem á að fara í yfir daginn. Í hverri heimsókn er kvittað fyrir móttöku á vörum og kvittunin er vistuð í kerfum Mjólkursamsölunnar,“ útskýrir Gunnar.

„Hægt er að taka mynd af stæðu áður en hún fer inn í flutningabílinn og þegar hún er afhent. Þetta hefur sparað mikinn pappír hjá MS og eins leyst úr vafamálum í tengslum við afföll þar sem hægt er að sýna fram á hvaða vörur voru í raun afhentar.“

Innan Advania starfar öflugt appþróunarteymi sem hefur unnið að sérlausnum á fjölbreyttum öppum á borð við Lífshlaupið, sem er heilsu- og hvatningarkerfi fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Allir geta sótt þessa lausn á App Store og Play og skráð sína hreyfingu.

„Með útfærslu á því appi var aðgengi að skráningu á hreyfingu einfölduð. Þátttakendur gátu með örfáum smellum skráð sína hreyfingu. Eins er hægt að sækja gögnin úr Strava-appinu og færa yfir í Lífshlaups-appið,“ segir Gunnar.

Appþróunarteymi Advania hefur meðal annars búið til app fyrir MS og Lífshlaupið. MYND/AÐSEND

Frá hugmynd að fullbúnu appi

Gunnar segir að þegar viðskiptavinur kemur með hugmynd eða vandamál að borðinu sé skoðað hvernig Advania geti leyst verkefnið sem best og aðstoðað viðskiptavininn við að taka hugmyndina alla leið.

„Ferlið er oftast þannig að farið er í hönnunarsprett, greiningarvinnu og við útbúum beinagrind að útliti fyrir appið. Að því loknu er unnið tímamat, farið í viðmóts- og útlitshönnun á appinu, forritun og prófanir með viðskiptavininum,“ segir Gunnar.

Þegar þessu ferli er lokið er appið gefið út. Ef app á einungis að vera aðgengilegt starfsmönnum er það í lokaðri app-verslun en ef fleiri eiga að geta sótt það er það aðgengilegt á App Store fyrir iOS og GooglePlay fyrir Android. Advania hefur unnið að fjölbreyttum sérverkefnum með viðskiptavinum sínum og má þá nefna app fyrir Rarik, Olíudreifingu, Nóa Síríus og mörg fleiri.

Veflausnir og applausnir Advania

Hjá veflausnum Advania starfa 40 hugbúnaðarsérfræðingar með áralanga reynslu af þróun og smíðum vef- og hugbúnaðarlausna. Sér deild er fyrir applausnir en deildin hefur verið starfrækt frá árinu 2012. Advania leggur metnað í að eiga gott samstarf við viðskiptavini sína og vanda vel til verka. Advania hefur unnið fyrir fyrirtæki og félagasamtök af öllum stærðargráðum og fylgist vel með nýjustu stefnum og straumum.


Nánari upplýsingar á advania.is/app.