„Auknar kröfur eru á heilbrigðisstofnanir hérlendis að setja fram viðeigandi gæðavísa í sinni starfsemi sem og að skila inn gæðauppgjöri í lok hvers starfsárs. Gæðastjórar hafa nú í vetur unnið að þróun gæðavísa til notkunar í endurhæfingu og er gerð þjónustukönnunar einn liður í því ferli, ásamt því að setja fram gæðavísa varðandi skipulag, ferli og árangursmat,“ segir Hlín.

„Í kjölfar hlutaúttektar Embættis landlæknis á Reykjalundi í nóvember 2019 voru stofnaðir nokkrir vinnuhópar til gæða- og umbótastarfa, þar á meðal umbótahópur um þjónustukannanir. Vinnuhópurinn skilaði af sér yfirgripsmikilli skýrslu í apríl 2021 með tillögum að aðferðafræði og spurningabanka tengdum starfseminni. Vorið 2021 sótti gæðaráð Reykjalundar um og hlaut gæða- og nýsköpunarstyrk frá heilbrigðisráðuneytinu til að þróa þjónustukannanir á Reykjalundi til framtíðar,“ segir Berglind.

Berglind segir að gæðastjórum hafi næst verið falið að þróa og hanna þjónustukönnun á Reykjalundi til að meta upplifun sjúklinga á þeirri þjónustu, mati og meðferð sem þeir fá meðan á endurhæfingu stendur. Í framhaldi af vinnu gæðaráðs og umbótahóps um þjónustukannanir huguðu gæðastjórar að því hvaða leiðir væru færar fyrir heilbrigðisstofnanir til að framkvæma slíkar kannanir út frá reglugerðum um upplýsinga- og gagnasöfnun og hvaða hugbúnaður hentaði við gagnasöfnun og tölfræðiúrvinnslu. Einnig var unnið að gerð viðeigandi spurninga og framsetningu þeirra í samstarfi við gæðaráð. Hluti starfsfólks tók þátt í að rýna spurningar.

Niðurstöður heilt yfir jákvæðar fyrir stofnunina

Spurð út í niðurstöðu könnunarinnar segir Berglind:

„Í fyrstu umferð verkefnisins var lagt upp með rafræna forkönnun á meðal allra skjólstæðinga á dagdeildum sem útskrifuðust á tímabilinu 29. apríl til 3. júní 2022. Skjólstæðingar Reykjalundar á þessu tímabili tóku vel í framkvæmdina þar sem svarhlutfall á meðal útskrifaðra var 90,7% eða 88 manns af 97 alls sem tóku þátt. Niðurstöður könnunarinnar voru meira og minna á jákvæðum nótum varðandi flesta þætti starfseminnar. Um fjölvalsspurningar var að ræða en þátttakendum gafst einnig kostur á að koma á framfæri skriflegum ábendingum. Flestir nýttu sér þetta tækifæri til að koma á framfæri hrósi til starfsfólks og einnig að koma fram ábendingum um þætti sem bæta má í framtíðinni, Reykjalundi og þeim sem sækja þar endurhæfingu til hagsbóta. Almenn ánægja var með uppbyggingu meðferðar og viðmót starfsfólks. Margir lýstu ánægju sinni með að fá tækifæri til að vera virkir þátttakendur í eigin meðferð,“ segir Berglind og bætir við:

„Eins og áður sagði voru niðurstöður heilt yfir jákvæðar fyrir stofnunina. Áherslur í spurningum sneru aðallega að þjónustunni sjálfri og eigin mati á upplifuðum árangri. Ábendingar sneru þegar á heildina er litið mestmegnis að aðstöðu og búnaði og upplýsingagjöf auk þess sem eindregin ósk kom fram um nútímalegri vinnubrögð svo sem rafrænt kerfi í kringum stundaskrár sjúklinga.“

Þjónustukannanir mikilvægar

En hvers vegna er svona könnum framkvæmd?

„Í þetta sinn var um forkönnun að ræða en fyrirhugað er að gera reglulegar kannanir á upplifun notenda í framtíðinni. Upplifun skjólstæðinga á þjónustunni og ábendingar eru stofnuninni dýrmætar til að styðja við umbætur og til að veita góða þjónustu til framtíðar. Þjónustukannanir eru mikilvægar þegar stefnt er í átt að notendavænni þjónustu og liður í áætlun Embættis landlæknis um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu,“ segir Berglind.

Um hlutverk gæðastjóra segja Berglind og Hlín:

„Gæðastjórar koma að öllu gæðastarfi tengdu meðferðarteymum, faghópum og starfsstöðvum og vinna að uppbyggingu gæðakerfis, endurskoðun gæðastefnu, vali á gæðavísum og árangursmælingum og uppbyggingu gæðahandbókar. Gæðastjórar koma þannig beint eða óbeint að flestum þeim þáttum sem lúta að þjónustunni.“