Notkun snjalltækja og farsíma við akstur er orðið eitt helsta áhyggjuefni allra sem koma að umferðaröryggismálum í heiminum. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að nær 25% af öllum umferðarslysum má rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri, að sögn Hildar Guðjónsdóttur, hópstjóra í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

„Samgöngustofa hefur tekið þátt í átaksverkefnum og herferðum með ýmsum hagsmunaaðilum til þess að sporna við þessari þróun. Brýnt er að ökumenn átti sig á því hversu alvarlegar afleiðingar þessi hegðun getur haft í för með sér.

Árlega má rekja mörg slys í umferðinni til notkunar síma undir stýri og sum hver mjög alvarleg. Samgöngustofa fær reglulega ábendingar frá áhyggjufullum vegfarendum um „aðra“ ökumenn sem viðhafa þessa hegðun. Atvinnubílstjórar, hjólandi og gangandi verða sérstaklega mikið varir við þetta. Í niðurstöðum viðhorfskönnunar um aksturshegðun Íslendinga sést að nánast allir ökumenn gera sér grein fyrir hættunni sem fylgir því að nota farsíma undir stýri til að lesa smáskilaboð eða nota samfélagsmiðla. Þrátt fyrir þetta viðurkenna einnig afar margir að hafa notað símann við akstur. Því miður líta alltof margir svo á að tíminn í bílnum á milli staða sé heppilegur til þess að lesa og svara skilaboðum og tölvupóstum eða kíkja á vef- eða samfélagsmiðla – þrátt fyrir að þeir séu að aka um íbúðarhverfi, í kringum skóla og jafnvel með börn í bílnum. Einnig þarf að hafa í huga að senda ekki skilaboð eða hringja í fólk sem vitað er að er að keyra – að vera ekki að hringja og senda óþörf skilaboð til þeirra sem eru að keyra. Engin skilaboð eru svo mikilvæg að þau séu þeirrar áhættu virði.

Það er bannað samkvæmt lögum að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta akstur án handfrjáls búnaðar. Ný umferðarlög sem tóku gildi um síðustu áramót skýra þetta vel. Jafnframt hefur sektin við þessu umferðarlagabroti hækkað úr 5.000 kr. í 40.000 kr. og þykir nú endurspegla alvarleika brotsins. Það ætlar enginn að valda slysi en fólk á það til að vanmeta getu sína og hæfni. Bílstjóri sem notar síma undir stýri er ekki með fulla athygli við aksturinn og skerðir þar með öryggi sitt og annarra vegfarenda. Samkvæmt bandarískri rannsókn 12-faldar það líkur á umferðarslysi að slá inn símanúmer undir stýri. Ökumenn sem líta af veginum í u.þ.b. 5 sekúndur þegar skilaboð eru lesin eða skrifuð eru búnir að aka yfir heilan fótboltavöll án þess að horfa út um framrúðuna, miðað við 88 km/klst.

Hvað er til ráða? Það er til einfalt, ókeypis og ótrúlega þægilegt ráð – að gera EKKI NEITT þegar síminn hringir, pípir eða titrar á meðan við erum að keyra. Þetta snýst um ákvörðun og sjálfsaga. Horfum á veginn. Höldum fókus,“ segir Hildur.

Ekki senda skilaboð í akstri.