Sesseljuhús er fræðslusetur um umhverfismál og sýningarhús um sjálfbærar og vistvænar byggingar, sem er staðsett á Sólheimum í Grímsnesi. Þar fer fram fræðsla um umhverfismál og haldin eru námskeið, málþing og fundir, ásamt því að þar er sýning um umhverfismál allan ársins hring.

„Sólheimar eru elsta umhverfisþorp í heimi og hugmyndin á bak við stofnun Sesseljuhúss var að með þá sérstöðu þyrfti að vera hér umhverfissetur sem geti frætt fólk um umhverfismál,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, forstöðumaður Sesseljuhúss og ferðaþjónustu Sólheima.

„Sesseljuhús umhverfissetur er fyrsta sjálfbæra byggingin á Íslandi og þegar það var opnað var hér stærsta sólarsella á landinu,“ segir hann. „Húsið er líka með frábæran ráðstefnusal sem hópar geta leigt fyrir ráðstefnur, fundi eða námskeið.

Það er líka töluvert um að erlendir háskólar nýti aðstöðuna til að læra um umhverfismál. Yfir vetrartímann er húsið leigt út í allt að þrjá mánuði í senn og á því tímabili getur hópurinn nýtt alla aðstöðuna hér,“ segir Skarphéðinn. „Húsið hefur verið sérstaklega vinsælt hjá bandarískum skólum sem sérhæfa sig í námi tengdu umhverfisvernd og það er boðið upp á lærlingsstöður hér.

Menningarveisla Sólheima fer fram á hverju ári yfir sumartímann og þá er alltaf einhvers konar sýning sett upp sem tengist umhverfismálum. Þá getur almenningur komið og skoðað hana, ásamt ýmsu fræðsluefni um vistvænar byggingar, sem er alltaf í boði,“ segir Skarphéðinn. „Þar sem útleigan er í gangi yfir veturinn koma flestir gestir til okkar yfir sumarið, en fólk er auðvitað alltaf velkomið.“

Tvö gistihús og tilboð í gangi

„Ferðaþjónustan á Sólheimum er í boði fyrir alla, en það er eitthvað sem margir átta sig ekki á. Margir halda að Sólheimar séu lokaðir fyrir almenning og telja að það þurfi boð, eða að eitthvað sérstakt sé að gerast til að þau séu velkomin þangað, en það er alls ekki rétt,“ segir Skarphéðinn.

„Við erum með tvö gistiheimili sem eru mjög ólík. Annað er nær því að vera farfuglaheimili, en hitt, Veghús, er með glæsileg herbergi með sérbaðherbergi í hótelstíl. Við viljum hvetja Íslendinga til að koma að heimsækja það,“ segir Skarphéðinn. „Hér býðst umhverfisvæn gisting í umhverfisþorpi og morgunmatur er innifalinn, en hann er allur unninn úr nærumhverfinu. Í sumar bjóðum við upp á glæsileg tilboð og allir sem leigja gistingu fá líka leiðsögn um Sólheima og kynningu á starfseminni.

Við höfum líka verið að taka á móti alls kyns hópum og getum sérsniðið dagskrá og veitingar að þörfum hópsins,“ segir Skarphéðinn.

Slógu í gegn á Instagram

„Við erum að reyna að opna augu fólks fyrir Sólheimum, en þetta hefur verið mjög vinsæll staður hjá útlendingum vegna staðsetningar og sérstöðu sinnar. Það eru allir velkomnir, það þarf ekki einu sinni að hringja á undan sér og það er opið alla daga.

Við höfum náð ágætis árangri við að kynna okkur eftir að faraldurinn hófst með því að tileinka okkur samfélagsmiðla enn frekar með aukna áherslu á Instagram,“ segir Skarphéðinn. „Það hefur gengið mjög vel, við bættum við okkur tæplega 4.000 fylgjendum. Það er hægt að fylgjast með okkur undir notandanafninu solheimareco og þar eru upplýsingar um daglegt líf á Sólheimum, alla viðburði og tilboð auglýst.“