Væri samt ekki betra ef við kynnum þetta nú bara allt saman upp á hár og fengjum fræðslu reglulega í skóla og vinnu á námskeiði Rauða krossins í skyndihjálp? Það er mjög aðgengilegt að læra skyndihjálp hjá Rauða krossinum. Hægt er að setja app í snjalltækið, Skyndihjálp:Rauði krossinn, og taka námskeið á netinu á skyndihjálp.is. Verkleg námskeið eru haldin víðs vegar um land og allar upplýsingar er hægt að finna á skyndihjalp.is.

Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er útbreiddasta og fjölmennasta mannúðarhreyfing heims með starfsemi í flestum ríkjum. Alþjóðaráð Rauða krossins var stofnað 1863 og frá upphafi hefur Rauði krossinn lagt ríka áherslu á skyndihjálp um allan heim, að sem flestir læri skyndihjálp og rétt viðbrögð.

Rauði krossinn á Íslandi sinnir viðamiklu starfi á sviði neyðarvarna og skyndihjálpar um land allt. Upphaf neyðarvarna hjá félaginu má rekja til Vestmannaeyjagossins árið 1973. Það er því mikil reynsla og þekking hjá Rauða krossinum hvað varðar alla skyndihjálp.

„Það hefur margsannað sig að skyndihjálpin bjargar mannslífum og við vitum aldrei hvenær við þurfum á þessari mikilvægu þekkingu að halda. Í skyndihjálp lærir fólk ótalmargt sem snýr að því að hlúa að fólki sem verður fyrir slysi eða bráðum veikindum,“ segir Guðrún Ösp Theodórsdóttir, leiðbeinandi í skyndihjálp, sem nýverið tók við starfi sérfræðings í skyndihjálp hjá Rauða krossinum á Íslandi. „Ég hef yfirumsjón með leiðbeinendum Rauða krossins og sé um undirbúning kennsluefnisins sem er notað í námskeiðin. Ásamt því er ég í hlutastarfi sem bráðahjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja,“ segir Guðrún.

Grunnskólabörn geta vel tileinkað sér aðferðir í skyndihjálp. Mynd/aðsend

Ýmsir þættir geta komið upp hjá börnum sem gerast sjaldnar hjá fullorðnu fólki, og er þörf á því að fólk sem vinnur með börnum eða á börn sjálft, geri sér grein fyrir því hvernig eigi að bregðast rétt við.

Ólík námskeið eftir hópum

Rauði krossinn veitir skírteini fyrir skyndihjálparnámskeið sín sem eru viðurkennd af heilbrigðisráðuneytinu. „Við byggjum fræðslu okkar á alþjóðlegum stöðlum og gagnrýnni þekkingu. Við uppfærum námsefni okkar stöðugt og kennum ávallt eftir nýjustu upplýsingum. Skírteinin sem við gefum út geta til dæmis skipt máli í ferilskrá fólks eða á námsferli þess.“

Vönduð skyndihjálparnámskeið Rauða krossins hafa þróast gegnum árin út frá eftirspurn. „Eitt vinsælasta námskeiðið okkar snýr að því að veita börnum skyndihjálp. Ýmsir þættir geta komið upp hjá börnum sem gerast sjaldnar hjá fullorðnu fólki, og er þörf á því að fólk sem vinnur með börnum eða á börn sjálft, geri sér grein fyrir því hvernig eigi að bregðast rétt við. Til dæmis er mikilvægara að veita börnum öndunaraðstoð strax í neyðartilfellum enda eru þau líffræðilega ólík fullorðnum. Í endurlífgun fullorðinna getur nægt að veita hjartahnoð ef fólk veigrar sér við að nota blástursaðferðina.“

Þeir hópar sem nýta sér námskeið Rauða krossins eru gríðarlega fjölbreyttir. Þar nefnir Guðrún almenning, fagaðila á stofnunum og hjúkrunarheimilum, starfsmenn fyrirtækja og fleiri. Rauði krossinn býður einnig upp á sérsniðin námskeið fyrir hvern hóp fyrir sig. Á námskeiðunum er lögð áhersla á að kenna rétt viðbrögð í neyð og einfaldar aðferðir skyndihjálpar. „Það segir sig sjálft að þú kennir öðruvísi skyndihjálparleiðir á öldrunarheimili en á leikskóla enda eru neyðaratvikin sem þar koma upp eðlislega ólík. Mörg fyrirtæki eru dugleg að sjá starfsfólki sínu fyrir fræðslu í skyndihjálp og fá okkur til að halda sérsniðin námskeið fyrir vinnustaðinn. Í sumum tilfellum er það gert í kjölfar atviks sem hefur átt sér stað á vinnustaðnum og starfsfólk ekki vitað hvernig ætti að bregðast við eða fundið fyrir óöryggi.“

Það geta allir lært skyndihjálp.

Það geta allir lært skyndihjálp

„Það er hægt að kenna öllum skyndihjálp. Börn geta öðlast færni í skyndihjálp frá unga aldri. Leikskólabörnum er kennt að hringja í 112 og þau geta það vel. Grunnskólabörn geta lært enn meira. Á afmæli Rauða krossins fyrir nokkrum árum fór Rauði krossinn til dæmis í grunnskólana og kenndi nemendum í fyrsta til tíunda bekk skyndihjálp. Fyrstubekkingar sýndu okkur þá til dæmis gríðarlega færni í hjartahnoði.

Skyndihjálp ætti í raun að vera hluti af námsefni í grunn- og menntaskólum og verða að almennri lífsleikni. Það er áríðandi að við lærum skyndihjálp á öllum aldri. Þetta snýst um að láta sig náungann varða og að geta boðið fram aðstoð ef maður kemur að einhverjum í nauð, en oftast lendir fólk í því að þurfa að veita einhverjum nákomnum sér skyndihjálp. Í slíkum aðstæðum er ómetanlegt að hafa lokið námskeiði og þjálfun í skyndihjálp.“

Í upphafi námskeiða spyr ég oft hópinn hvort einhver hafi veitt skyndihjálp. Fæstir telja sig hafa gert það, en svo þegar ég upplýsi hvað felst í skyndihjálp, skipta flestir um skoðun.

Flestir hafa veitt skyndihjálp

Skyndihjálp byggir á fjórum grundvallarreglum: Í fyrsta lagi að tryggja öryggi, næst skal meta ástand, svo skal sækja hjálp og síðan skal veita skyndihjálp. Skyndihjálp er ekki bara endurlífgun heldur snýr hún að viðbrögðum við öllu sem gæti komið upp á. „Í upphafi námskeiða spyr ég oft hópinn hvort einhver hafi veitt skyndihjálp. Fæstir telja sig hafa gert það, en svo þegar ég upplýsi hvað felst í skyndihjálp, skipta flestir um skoðun. Það hafa nefnilega margir hjálpað einhverjum sem hefur skorið sig á einhverju eða brennt sig. Það er skyndihjálp.“

Að sögn Guðrúnar hafa margir að sama skapi einhvern tíma tekið þátt í skyndihjálparnámskeiði. „Þrátt fyrir það er mikilvægt að halda þekkingunni við, því eftir ákveðinn tíma fennir yfir hana. Það er mikilvægt að fólk geti fundið öryggi í eigin kunnáttu í neyðaraðstæðum. Þar er endurtekning þjálfunar lykilatriði. Svo eru skyndihjálparnámskeið mismunandi og aðferðir þróast með tímanum. Með hverju námskeiði lærir fólk eitthvað nýtt og byggir ofan á grunninn.“

Rauði krossinn dansar í takt við tíðarandann þegar kemur að áherslum í skyndihjálp. „Fyrir nokkrum árum var herferð í Bretlandi vegna óvenju margra dauðsfalla hjá ungu fólki í kjölfar vímuefnaneyslu. Þá var kennt til dæmis í sjónvarpinu að setja fólk í læsta hliðarlegu, sem getur skipt sköpum þegar fólk er í annarlegu ástandi eða meðvitundarskert. Í dag hræðast menn að faraldurinn hafi þau áhrif að fólk hiki við að veita skyndihjálp af ótta við smit. Þá leggjum við aukna áherslu á að hnoða, fram yfir að blása, en í tilfelli endurlífgunar skiptir nær alltaf meginmáli að hnoða. Annað gildir þó þegar börn eiga í hlut. Þá skiptir meira máli að blása.“

Öðruvísi kennsla

Skyndihjálparnámskeið hafa breyst í gegnum tíðina. „Í dag er ekki þörf á að sitja margra klukkutíma námskeið og fyrirlestur í skyndihjálp. Við höfum tileinkað okkur fjölbreyttar kennsluaðferðir. Meðal annars erum við með vefnámskeið og fyrirlestra á netinu. Eftir að hafa kynnt sér viðeigandi viðfangsefni mæta þátttakendur með ákveðinn grunn og taka þátt í verklegri kennslu.

Einnig höfum við þróað stórsniðugt skyndihjálparapp sem nýtist til að hjálpa fólki í gegnum skref við að veita skyndihjálp. Þá ýtir þú á ákveðinn kvilla, eins og bruna, og færð upp hvað á að gera í hverju tilfelli fyrir sig. Þetta er mjög hentugt ef fólk er óöruggt. Snjallforritið er líka sniðugt ef fólk vill kynna sér hvað skal gera ef það lendir í að þurfa að veita skyndihjálp síðar meir. Hægt er að nálgast forritið í öllum snjalltækjum óháð framleiðanda.

Ég vil samt ítreka að 112 er neyðarsíminn. Ef neyðin er til staðar þá er alltaf mikilvægt að hringja í neyðarlínuna. Ég segi líka stundum að ef fólk er í vafa þá á það samt að hringja. Það er í raun aldrei rangt að hringja í 112, nema maður sé að panta pítsu eða leigubíl.

Ég hvet alla til að skrá sig á skyndihjálparnámskeið Rauða krossins, hægt er að sjá hvaða námskeið eru í boði nærri þinni heimabyggð á skyndihjálp.is. Námskeiðin eru ekki bara fræðandi heldur afskaplega skemmtileg.“