Jóhanna Rútsdóttir, alltaf kölluð Hanna, hefur síðustu sjö ár unnið sem þróunarstjóri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, þar sem hún starfar með kraftmiklu teymi starfskvenna við að skapa og tryggja fjölbreytilegt úrval námskeiða á hinum ýmsu sviðum.

Hanna er kennari að mennt en hefur einnig lokið meistaraprófi í fræðslustarfi og stjórnun. Starfsþróun og ævimenntun almennings eru þau viðfangsefni sem hún nýtur mjög að takast á við, enda sú vinna bæði gefandi og skemmtileg.

Námskeiðsframboð Endurmenntunar hvert misseri hleypur á hundruðum námskeiða og segir Hanna að galdurinn á bak við öfluga starfsemina sé sá frábæri hópur kennara sem stofnunin á í samstarfi við. „Fjölbreytt úrval námskeiða byggist á því að með Endurmenntun starfar fjölmennur hópur framúrskarandi kennara sem hefur afar yfirgripsmikla sérþekkingu. Sumir hafa kennt hjá okkur árum saman en sífellt bætast nýir kennarar við og allir eiga þeir stóran þátt í að starfsemin haldist lifandi og síbreytileg ár frá ári.“

Starfsemin tvískipt

Hanna segir námsbrautirnar starfsmiðaðar en sveigjanlegar, á meðan námskeiðin eru eins ólík og þau eru mörg og krefjast minni skuldbindingar.

„Segja má að flaggskipin okkar séu tvö, það er lengra námið, námsbrautirnar, og svo námskeiðin. Námsbrautirnar okkar henta þeim sem vilja gefa sér lengri tíma til að kafa djúpt og bæta við sig sérþekkingu sem getur styrkt stöðu þeirra í starfi eða opnað dyr að nýjum tækifærum. Þær eru skipulagðar þannig að hægt sé að stunda námið samhliða starfi, kennt er í lotum og í mörgum þeirra er boðið bæði upp á staðnám og fjarnám. Valið snýst um allt frá hagnýtum misserislöngum námslínum án eininga, til tveggja ára framhaldsnáms á meistarastigi. Námskeiðin okkar eru einfaldari í alla staði, skuldbinding í tíma er mun minni og þátttakendur skila hvorki verkefnum né taka próf. Lengd námskeiða er mismunandi eftir viðfangsefnum, allt frá einni mætingu upp í átta skipti. Námskeiðin eru almennt öllum opin og engar kröfur eru gerðar til þátttakenda hvað varðar fyrri menntun eða starfsreynslu. Í nokkrum tilfellum eru námskeið ætluð til sérhæfingar fyrir ákveðnar fagstéttir og þá er það tekið skýrt fram í námskeiðslýsingum.“

Jóhanna Rútsdóttir, þróunarstjóri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, segir fjölmennan hóp hæfileikaríkra kennara tryggja lifandi og síbreytilegt framboð námskeiða. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Fjölbreytt úrval fyrir alla

Núna á haustmisserinu eru námskeiðin um og yfir 200 talsins, sem er eðlilegur fjöldi námskeiða hjá Endurmenntun hvert misseri. En spurð hvernig dreifingin er á námskeiðunum segir Hanna að það sé sitt lítið af hverju fyrir alla.

„Við aðgreinum námskeiðin með tveimur flokkum, annars vegar eru það starfstengd námskeið og hins vegar námskeið fyrir einstaklinginn á sviði persónulegrar hæfni, menningar og tungumála. Í starfstengdu námskeiðunum má finna allt frá mjög almennum námskeiðum eins og Verkefnastjórnun eða Wordpress yfir í afar sértæk námskeið fyrir fagfólk á hinum ýmsu fagsviðum. Þar má nefna námskeið um opinber innkaup og persónuverndarlög sem og námskeið sérstaklega ætluð stjórnendum sem geta haft áhrif á sínum vinnustað.“

Hanna hvetur þá sem eru í atvinnuleit eða vilja bæta við ferilskrána sína að skoða úrval starfstengdu námskeiðanna og athuga sérstaklega hvort þeir eigi inni styrk hjá stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið. „Á heimasíðunni okkar, endurmenntun.is, má finna lista af stéttarfélögum sem styrkja sína félagsmenn í margvíslegt nám og ég hvet fólk eindregið til að kanna sína stöðu hjá sínu félagi. Vinnumálastofnun hefur einnig styrkt atvinnuleitendur til að sækja námskeið og getur það skipt sköpum fyrir öflun þekkingar og reynslu á ferilskrá.“

Um hinn flokkinn segir Hanna: „Námskeiðin sem tengjast persónulegri hæfni, menningu og tungumálum fara flest fram seinnipart dags og á kvöldin. Hingað sækir fjölbreytilegur hópur viðskiptavina á öllum aldri menningarnámskeið á kvöldin, fólk sem vill áhugaverðan fróðleik í bland við skemmtun. Hér eru þá allar kennslustofur nýttar fyrir hina ýmsu hópa og til að gefa einhverja mynd af húsinu að kvöldi þá er kannski einn hópurinn á „ferðalagi“ með kennaranum í kennslustofunni að kynna sér framandi menningu, sögu og áhugaverða staði úti í heimi. Á sama tíma getur verið annar hópur að sökkva sér ofan í vel valda Íslendingasögu eða að spreyta sig í skapandi skrifum, einn hópur að læra um meltingu, þarmaflóru og súrkálsgerð og enn annar að njóta klassískrar tónlistar undir handleiðslu sérfræðings. Ekki síst má finna í þessum flokki námskeið um mikilvæg málefni líðandi stundar eins og loftslagsbreytingar, samfélagshreyfingar og tækniframfarir.“

Aldrei fleiri fjarnámskeið

Það má því segja að oftast sé líf og fjör í húsi Endurmenntunar, en síðastliðið vor setti COVID faraldurinn strik í reikninginn og starfsfólk þurfti að leita nýrra leiða til að geta haldið uppi sömu fjölbreyttu starfseminni og áður.

„Þegar COVID-19 hóf að gera usla í okkar samfélagi í vor gerðist það sama hér og víðast hvar í öðrum stofnunum og fyrirtækjum. Það var ekki mögulegt að halda uppteknum hætti og því þurfti strax að hefjast handa, með lausnamiðaðri hugsun og jákvæðni, við að endurskipuleggja dagskrá lengra náms og styttri námskeiða svo ljúka mætti vormisserinu með sem bestum hætti fyrir okkar nemendur og kennara. Við lærðum öll mjög margt af þessari snörpu kúvendingu og þó að við séum enn að leysa smá hindranir sem fylgja COVID-19 í okkar starfsemi, þá beinum við nú fyrst og fremst sjónum okkar að þeim tækifærum sem blasa við.“

Þegar ljóst var að faraldurinn væri aftur í uppsiglingu undir lok sumars og fjöldatakmarkanir fóru að herðast var lærdómur vorsins dýrmætur í áframhaldandi starfsemi Endurmenntunar. „Það er okkar markmið að vera ávallt eftirsóknarverðasti valkostur fyrirtækja, stofnana og einstaklinga til símenntunar á Íslandi og því var stefnan tekin á að fjölga fjarnámskeiðum í dagskrá haustmisseris og mæta þannig ólíkum þörfum og aðstæðum okkar viðskiptavina. Slíkt er ekki gert nema með öflugum kennarahópi sem var tilbúinn til að setja sig inn í nýja kennsluhætti og rafræn kennslukerfi með skömmum fyrirvara. Framboð fjarnámskeiða hefur aldrei verið meira en nú og með því verðum við líka enn betri valkostur fyrir alla, óháð því hvar á landinu eða í þessari veröld þeir búa.“

Hanna er bjartsýn á góðar viðtökur þátttakenda við breyttu námskeiðsframboði því nú séu margir komnir með reynslu af hvers konar fjarskiptatækni og því fylgi margir kostir að geta sótt námskeið beint frá vinnustað eða heimili.

„Fjarnámskeiðin fara fram í rauntíma í gegnum hið einfalda samskiptaforrit Zoom og allir þátttakendur fá greinargóðar leiðbeiningar við skráningu. Við höfum boðið kennurum okkar upp á að koma á sérstök Zoom námskeið svo að þeir geti áttað sig betur á tækninni áður en kennsla hefst og starfsfólk Endurmenntunar er ávallt til þjónustu reiðubúið ef fólk er með spurningar eða vangaveltur um fyrirkomulag fjarnámskeiðanna, enda hefur persónuleg þjónusta ætíð einkennt alla okkar starfsemi.“

Allar nánari upplýsingar um námskeiðin ásamt ýmsum öðrum fróðleik er að finna á heimasíðu Endurmenntunar, endurmenntun.is.