„Minn eftirlætisáfangastaður, þegar ég á frí yfir vetrartímann, er Maspalomas-svæðið á Gran Canaria, með sína flottu golfvelli, frábæru hótel, dásamlega mat og skemmtilegu svæði. Mér finnst líka mjög gott að skjótast í vikuferð til Tenerife á veturna, í sól og notalegheit, langt í burt frá íslensku skammdegi og stórhríðum, eins og var í vetur. Á sumrin er ég svo hugfanginn af grísku eyjunni Krít, því Grikkir eru svo gestrisnir og vinalegir og grísk matargerð ævintýri út af fyrir sig,“ svarar Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA, spurður um sína uppáhaldsstaði hjá VITA.

„Mér finnst líka æðislegt að taka langa helgi í Alicante-borg. Það eru ekki margir sem átta sig á hversu frábær sú borg er, með úrvali flottra veitingastaða, mörgum með Michelin-stjörnur, og heillandi tapas-mannlífi. Í Alicante-borg er mikið af Spánverjum svo maður fær spænska upplifun í æð. Við fljúgum þangað á fimmtudögum og mánudögum og aldeilis frábært að taka langa helgi í Alicante, til að fara á frábæra golfvelli og upplifa stemninguna á kvöldin. Margir halda að Alicante sé bara flugvöllur en þetta er stórkostleg borg og langskemmtilegasti staðurinn á Costa Blanca-ströndinni til að njóta helgarfrís, án þess að fara í hefðbundna sólarlandaferð. Ég mæli því eindregið með Alicante og það tekur aðeins korter að taka leigubíl inn í borgina af flugvellinum, sem kostar lítið. Þar er því hægt að nýta tímann vel,“ segir Þráinn.

Benidorm er þekkt fyrir fallegar strendur og líflegt næturlíf. Stutt er til Alicante-borgar þar sem spænsk menning er í hámæli og sælkeramatur.

Ísland og Tenerife eiga í ástarsambandi

Vinsælasti áfangastaður sumarsins hjá VITA, og reyndar á öllum árstíðum, er Tenerife, borið fram eins og það er skrifað, með e-i í endann.

„Ísland og Tenerife eiga í ástarsambandi. Þar vilja allir vera, jafnt sumar, vetur, vor og haust. Margir fara til Tenerife tvisvar, þrisvar á ári, þekkja sig orðið vel og vilja hvergi annars staðar vera. Þangað er beint flug í suður, rúmir fimm tímar í loftinu og sami tími á veturna, en klukkustundar munur á sumrin. Á Tenerife er allt til alls, hægt að fara ferða sinna fótgangandi og mikið af mjög góðum en ódýrum veitingastöðum. Þá er sólin trygg yfir Tenerife, með yfir 300 sólardaga á ári. Þar fíla krakkar sig mjög vel, loftslagið er ekki eins heitt og á meginlandinu í júlí og ágúst, og lítið um moskítóflugur,“ útskýrir Þráinn.

Krít er sólgyllt paradísareyja þar sem heimskunn gestrisni Grikkja er við völd og víst er að Grikkir kunna að hræra í pottunum og útbúa gómsætar krásir.

Aðrir vinsælir áfangastaðir VITA í sumar eru Alicante, Krít og Benidorm.

„Krít hefur sérstöðu og þar stendur tíminn svolítið í stað. Hún er ólík Spáni og yndisleg upplifun. Því sækir fólk aftur og aftur í Krítarstemninguna og menninguna. Við fljúgum líka mikið til Alicante þar sem margir Íslendingar hafa aðgang að húsum og íbúðum í Torrevieja og við Costa Blanca-ströndina. Þá er alltaf líf og fjör á Benidorm,“ segir Þráinn.

Ódýrast ekki alltaf best

Þetta fyrsta stóra ferðasumar eftir heimsfaraldurinn var ákveðið að bæta ekki við nýjum áfangastöðum í pakkaferðum VITA.

„Við fundum strax að Tenerife er númer eitt, tvö og þrjú, en líka að fólk er varfærið og vill fara í öruggt ferðalag, þar sem það þekkir vel til, eftir það sem á undan er gengið. Íslenskir ferðalangar eru að taka sín fyrstu skref út í heiminn á ný og mín tilfinning að þeir verði nýjungagjarnari á næsta ári og séu þá meira til í að upplifa ævintýri á nýjum stað,“ greinir Þráinn frá.

Þráinn Vigfússon er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA sem er í fullri eigu Icelandair. Hann segir öryggi, gæði, skemmtun og hagkvæmni fylgja hveri ferð með VITA. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Talandi um örugg ferðalög segir Þráinn pakkaferðir VITA bæði öruggari og hagstæðari en gerist og gengur.

„Við erum með afar hagstæða samninga og frábæra fararstjóra á hverjum stað. Þá er fólk mun betur tryggt í pakkaferðum, ef eitthvað kemur upp á í ferðinni eða ferðaskrifstofan getur ekki sinnt því sem fólk keypti. Þá er það tryggt hjá Ferðamálastofu samkvæmt lögum. Margir lentu í hremmingum í kringum Covid, höfðu kannski keypt flug hjá Icelandair en gistingu í gegnum erlendrar síður, en fengu svo bara flugið endurgreitt en ekki hótelið þegar röskun varð á flugi eða samkomubönn bundu enda á ferðina. Því er bæði öruggara og betra að kaupa flug og hótel á sama stað. Þá gilda ferðatryggingar sem ganga mjög langt í að tryggja rétt neytenda,“ upplýsir Þráinn.

„Við erum líka með þannig samninga við hótel að við höfum sérvalið herbergi og okkar fararstjóri á staðnum þekkir öll hótel út og inn, stjórnendur þeirra og starfsfólk. Hann talar tungumál innfæddra og þekkir landið og allar aðstæður vel. Því er engin hætta á að lenda í herbergi á fyrstu hæð við illa lyktandi ruslagám, eins og maður getur lent í þegar hótel er keypt af erlendri síðu. Það er nefnilega töluverður munur á herbergjum þegar kemur að gæðum og verði, og ekki alltaf best að kaupa ódýrast. Ferðalög eru ekki ókeypis og þótt einhverjar krónur sparist er það fljótt að tikka inn aftur ef um fjölskyldufríið er að ræða. Því þarf að passa að gæði og öryggi séu í fyrirrúmi.“

Skíðasvæðið í Selva á Ítalíu hefur í áranna rás verið fádæma vinsælt hjá íslensku skíðafólki. Flogið er til Veróna og hefst sala skíðaferða í næstu viku.

Margt er að seljast upp

Ferðaskrifstofan VITA var stofnuð í miðju hruni 2008 og er alfarið í eigu Icelandair. Í lok mars flutti hún í Icelandair-húsið við Reykjavíkurflugvöll.

„Flutningurinn var til að samþætta betur starfsemina. Samstarfið er góð blanda sem býður upp á mikla möguleika og hefur gefist mjög vel; Icelandair selur eingöngu flug og sérhæfir sig í því, á meðan við erum sérfræðingar í gistingu og pakkaferðum. Í samstarfinu hófum við beint áætlunarflug til Tenerife 1. maí 2021 og til Alicante nú í febrúar,“ skýrir Þráinn frá.

Hægt er að nota vildarpunkta upp í flug og pakkaferðir, sem Þráinn segir vinsælt. Hægt er að nota 100.000 punkta upp í flug og ferðir sem jafngilda 60.000 krónum á mann.

„Nú þegar er að verða uppselt í margar ferðir sumarsins og við eigum lítið eftir af sætum til Tenerife í júní og júlí. Þá er uppselt í fyrstu og þriðju ferðina til Krítar. Því er rétti tíminn nú til að tryggja sér flug og víða orðið erfitt með gistingu því það eru ekki bara Íslendingar einir sem eru að koma úr heimsfaraldrinum heldur öll Evrópa sem flykkist nú í sólarfrí til Grikklands, Tyrklands, Spánar, Ítalíu og Tenerife eftir tveggja ára einangrun,“ upplýsir Þráinn.

Hann bætir við að Íslendingar séu orðnir um margt líkir Þjóðverjum þegar kemur að fyrirhyggju og skipulagningu ferðalaga langt fram í tímann.

„Fólk er tímanlega í að panta sér vetrarfrí og jólaferðir. Skíðaferðirnar fara í sölu strax í næstu viku, til Madonna og Selva á Ítalíu, með beinu flugi til Verona. Þegar við byrjuðum að selja ferðir til Kanaríeyja fyrir vetur komanda var löng röð út á götu til að tryggja sér réttu hótelin og dagsetningarnar, allt fram í mars á næsta ári. Fyrsta ferðin til Kanarí verður farin 23. október en þegar er uppselt, sem og í jólaferðina þangað. Vetrarferðir til Kanaríeyja seljast sumsé mjög vel og er þegar uppselt í jóla- og áramótaferðina,“ greinir Þráinn frá.

Hér má sjá yfir Maspalomas-golfvöllinn á Gran Canaria, en VITA fer með íslenska kylfinga á stórkostlega golfvelli á Spáni, Tenerife og í Portúgal.

Golfferðir Vita njóta líka gríðarlegra vinsælda og um marga áfangastaði að ræða með stórkostlegum golfvöllum.

„Við förum í fjölmargar golfferðir til Suður-Spánar og Portúgal í ár, líka til Alicante og nýs áfangastaðar, Isla Canela á landamærum Spánar og Portúgal, í haust. Sífellt fleiri vilja sveifla kylfunni suður við Miðjarðarhaf í þeim paradísum sem golfvellirnir þar eru,“ segir Þráinn.

Með aukinni samþættingu með Icelandair er VITA nú að stilla upp spennandi borgarferðum í haust, sem og sérferðum til Madeira og Aþenu í september, og hafa þær farið mjög vel af stað í sölu.

„Vita fer líka á framandi slóðir og í febrúar til Dubai og Abu Dhabi, sem gekk mjög vel. Nú erum við að skipuleggja fleiri ferðir þangað, og ferðir á skemmtiferðaskipum seljast mjög vel. Það er því úr mörgu að velja og hægt að hafa það verulega skemmtilegt og skoða heiminn með VITA.“

VITA er á Nauthólsvegi 52, í húsi aðalskrifstofu Icelandair. Sími 570 4444. Netfang ferd@vita.is. Skoðið úrval ferða Vita á vita.is