Ladybug (Brad Pitt) er ólánsamur leigumorðingi sem er staðráðinn í að skila næsta verkefni sínu óaðfinnanlega eftir að hafa mistekist of oft að undanförnu. Örlögin hafa hins vegar annað á prjónunum.

Þetta nýjasta verkefni Ladybug leiðir hann út í baráttu við banvæna andstæðinga hvaðanæva að í heiminum. Allir hafa þeir hver sitt verkefnið, sem tengjast en stangast á, um borð í hraðskreiðustu járnbrautarlest í heimi. Leiðarlok er rétt byrjunin í þessari miklu þeysireið um tæknivætt Japan samtímans.

Raunar hafði Ladybug ætlað að setjast í helgan stein og snúa baki við lífi sínu sem leigumorðingi, en höndlarinn hans, Maria Beetle, dregur hann aftur inn í leikinn til að ná í skjalatösku á lest sem kennd er við byssukúlu vegna þess hve hraðskreið hún er og er á leiðinni frá Tókíó til Kýótó og stoppar aðeins á örfáum stöðum á leiðinni.

Um borð í lestinni kemst hann að verkefni sínu og sama gildir um hina leigumorðingjana sem eru keppinautar hans.

Spurningin er, hver leigumorðingjanna kemst lífs af frá lestinni og hvað bíður þeirra á endastöðinni?

Að myndinni kemur einvala lið og klippingin er í öruggum höndum okkar eigin Elísabetar Ronaldsdóttur, sem allir vita að er ávísun á góða mynd.

Í myndinni gengur Ladybug í gegnum sálarkreppu. Meira og minna öll verkefni hafa mistekist hjá honum að undanförnu og hann er farinn að komast að þeirri niðurstöðu að það eina sem þessi verkefni eigi sameiginlegt sé hann. Ólánið elti hann og hafi áhrif á vinnuna hans. Nú þarf hann að skila sínu, ekkert má klikka.

Í Bullet Train koma saman sjö persónur, sem allar hafa fengið tengd verkefni sem eru í mótsögn hvert við annað og nokkuð ruglingsleg á stundum. Áhorfandinn fær innsýn í mannlegu hlið þessara leigumorðingja. Ladybug vill verða betri manneskja og áhorfandinn skynjar umhyggju persónanna hver fyrir annarri.

Einhvern veginn er áhorfandinn dreginn í ferðalag með miskunnarlausum morðingjum sem honum stendur ekki á sama um, hann skemmtir sér með þeim og hlær að bröndurunum hjá þeim.

Bullet Train er ekki þriðja eða sjöunda myndin í einhverri myndaröð. Hún fjallar ekki um gerviheim ofurhetja. Þetta er mynd um fólk með mannlega eiginleika, bresti og breyskleika.

David Leitch, leikstjóra myndarinnar, tekst að gera hasarmynd sem ekki er bara röð hraðklipptra slagsmálasena heldur höfðar til hugsunar og skopskyns áhorfandans. Myndin höfðar til hins hugsandi áhorfanda sem tekur sig ekki of alvarlega.

Smárabíó, Háskólabíó, Laugarásbíó og Sambíóunum Egilshöll, Álfabakka og Kringlunni

Fróðleikur

  • Leikstjórinn David Leitch og Brad Pitt hafa oft unnið saman áður. Um árabil var Leitch áhættuleikari fyrir Pitt, meðal annars í Fight Club (1999), Ocean‘s Eleven (2001) og Mr. & Mrs. Smith (2005).
  • Brad Pitt gerði nær öll áhættuatriði sín sjálfur í þessari mynd.
  • Sandra Bullock kom í stað Lady Gaga í myndinni.
  • Joey King leikur bardagaíþróttamanneskju sem heitir Prince í þessari mynd. Í myndinni Princess, sem líka var gerð á þessu ári, leikur hún prinsessu sem er sérhæfð í blandaðri bardagalist.

Komin í bíó

Aðalhlutverk:

Brad Pitt, Joey King, Aaron Taylor-Johnson, Brian Tyree Henry, Andrew Koji, Hiroyuki Sanada, Michael Shannon og Sandra Bullock

Handrit:

Zak Olkewicz, byggt á bók eftir Kotaro Isaka

Leikstjórn:

David Leitch

Bönnuð innan 16 ára.