Í hartnær 50 ár hafa rafiðnaðarmenn verið virkir í endurmenntun fagmanna í greininni. Þegar árið 1973 hófst formleg endurmenntun á vegum Félags íslenskra rafvirkja en þar var lagður grunnurinn að því sem við erum í dag,“ segir Þór.

Tækniframfarir kveikjan að endurmenntun

Drifkrafturinn að baki endurmenntuninni var að bregðast við tækninýjungum í starfsgrein sem er í stöðugri þróun. „Það sem ýtti endurmenntuninni formlega í gang á þessum árum var gríðarleg tækniþróun og framfarir í rafiðngreininni með tilkomu stórvirkjana og stóriðju. Menn áttuðu sig á því að þekking rafiðnaðarmanna þess tíma náði ekki yfir þessar nýjungar og almennt í námi þess tíma til sveinsprófs var ekki fjallað um þær,“ skýrir Þór frá.

Þór segir nemendum í grunnnámi hafa fjölgað sem sé afar ánægjulegt, enda sé nám af þessu tagi afar hagkvæmt og bjóði upp á ótal valmöguleika. „Segja má að nám í rafiðnaði sé góður grunnur fyrir framtíðina. Þar sem ljóst er að framtíðin stefnir bara í meiri sjálfvirkni, hvort sem það snýr að framleiðslu, flokkun eða kringum daglegt líf einstaklinga. Nám í rafiðnaði er einnig mjög góður grunnur að frekara námi í tækni- og verkfræði.“

Námið opni dyr í allar hugsanlegar áttir. „Störf rafiðnaðarmanna eru mjög fjölbreytt og má segja að það fari eftir áhugasviði á hvaða línu rafiðnaðarmenn lenda. Störfin spanna allt frá framleiðslu, flutningi, dreifingu orkunnar til notkunar hvers konar. Notkunin getur verið hjá stóriðju, sveitarfélögum, minni fyrirtækjum og einkaheimilum,“ útskýrir Þór. „Alls staðar á þessari leið eru rafiðnaðarmenn starfandi. Þá eru ótalin fjarskiptafyrirtækin, hvort sem um er að ræða hljóð, mynd eða önnur rafræn samskipti og svona má lengi telja.

Hér fer fram kennsla í PLC stýringum.

Sveigjanleg þjónusta

Óhætt er að fullyrða að það sé nóg um að vera innan veggja RAFMENNTAR.

„RAFMENNT sinnir fjölda verkefna sem snúa að menntun rafiðnaðarmanna. Árlega eru hér í húsi rúmlega 150 rafvirkjar í sveinsprófi sem haldið er tvisvar á ári. Einnig eru hér kenndar faggreinar í meistaranámi rafiðnaðarmanna. Nú eru um 70 nemendur skráðir í fagnámi meistaranáms á þessari önn.“

Þjónustan einkennist af miklum sveigjanleika en starfsemin er til að mynda ekki bundin við höfuðborgarsvæðið. „Framkvæmd endurmenntunar er með ýmsum hætti. Haldin eru námskeið hér í húsi en einnig erum við færanleg þannig að námskeið eru einnig haldin í fyrirtækjum eða í skólum á landsbyggðinni,“ segir Þór.

Ýmist sé óskað eftir tilteknum eða jafnvel sérsniðnum námskeiðum sem þjóna ólíkum þörfum mismunandi fyrirtækja. „Oft óska fyrirtæki eftir því að fá námskeið sem eru í boði hér til sín en einnig koma þau með óskir um sérhæfð námskeið sem við þá útbúum í samvinnu við þau.“

Þau Maríanna Ragna og Partyk Slot eru að undirbúa sig fyrir keppni í rafvirkjun á Euroskills 2020.

Tenging við yngri kynslóðir

Verksvið RAFMENNTAR nær víða og er af ýmsum toga.

„Við sjáum um umsýslu um námssamninga og getum verið nemendum innan handar við að finna sér fyrirtæki til að gera námssamning við. Einnig sjáum við um vottun menntunar erlendra rafiðnaðarmanna.“

Þá stendur skjólstæðingum okkar til boða að gangast undir svokallað raunfærnimat. „Raunfærnimat er stórt verkefni hjá okkur, þar sem við sjáum um kynningu og fræðslu, útvegum fagmenn sem meta þátttakendur og útbúum þannig ferli sem þátttakendur geta fengið metið inn í skólana til að ljúka námi.“

RAFMENNT leggur jafnframt ríka áherslu á að skapa tengingu við yngri skólastig.

„RAFMENNT er í góðu samstarfi við framhaldsskólana á landinu, árlega færum við nemendum sem hefja nám í rafiðngreinum spjaldtölvur. Við það tilefni hittum við kennara og stjórnendur sem eykur samtalið og önnur jákvæð samskipti,“ segir Þór. „Einnig höldum við úti rafbók þar sem allt námsefni sem nemendur í grunnnámi þurfa, nemendur og kennarar hafa þar gjaldfrjálsan aðgang að þessu efni. Spjöldin sem nemendur fá eru einmitt ætluð til að auðvelda þeim aðgang að þessu efni á meðan á námi stendur,“ segir Þór.

Hér má sjá hluta af verkefni þeirra Maríönnu Rögnu og Partyks.

Endurmenntun hefur aldrei verið mikilvægari en nú

Þór leggur sérstaka áherslu á mikilvægi og nauðsyn endurmenntunar í síbreytilegum samtíma.

„Hafi verið ástæða til að rafiðnaðarmenn sæktu endurmenntun árið 1973, hver er þá staðan í dag! Það er auðvitað alveg morgunljóst að þær framfarir, þróun og nýjungar sem komið hafa fram í þessari grein eru gríðarlegar og fjölbreytni í störfum rafiðnaðarmanna er gríðarleg.“

Rafiðnaðarmenn geti víða komið sterkir inn.

„Veröldin er að verða svo snjöll að ljósastaurarnir ákveða sjálfir hvenær þeir lýsa götur og gangstíga. Bílar keyra sjálfir svo maður geti slakað á á leiðinni heim. Þarna kemur rafiðnaðurinn sterkur inn þar sem þetta er illa framkvæmanlegt án stýringa og sjálfvirkni.“

Snjallvæðingin geri það þó að verkum að allir þurfi að vera á tánum, ekki einungis þau sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðinn. „Það er mikið talað um að ekki séu til þau störf í dag sem verði til þegar ungt fólk í dag kemur út á vinnumarkaðinn og fer að vinna, það segir manni þá bara það að þeir sem eru á vinnumarkaði í dag þurfa að vera á tánum til að halda í þá þróun.“

Það hafi raunar aldrei verið jafn áríðandi að viðhalda og bæta við þekkingu sína og kunnáttu eins og núna, í hringiðu fjórðu iðnbyltingarinnar.

„Þar kemur endurmenntun sterk inn til að starfandi rafiðnaðarmenn verði tilbúnir í þessi nýju störf. Við erum í miðri fjórðu iðnbyltingunni og vitum ekkert hvert tæknin er að taka okkur, og því er ljóst að endurmenntun er ekki síður mikilvæg á þessum tímum sem við lifum en hingað til.“

RAFMENNT er á Stórhöfða 27. Sími 540 0160. Sjá rafmennt.is