Sigurjón Friðrik Garðarsson og Helgi Þórir Sveinsson tóku áhugamálið alla leið og stofnuðuMjaðargerðina Öldur árið 2017, sem er eina mjaðargerðin á Íslandi. Þeir láta sköpunargleðina njóta sín en mjöðurinn er unninn úr íslensku vatni og sérinnfluttu hunangi og gjarnan bragðbættur með berjum eða kryddum.

„Okkar markmið er að endurvekja áhuga fólks á þessum sögulega drykk, sem að okkar mati ætti að vera þjóðardrykkur Íslendinga,“ segja þeir Sigurjón og Helgi hjá Mjaðargerðinni Öldur. Þeir höfðu báðir starfað við bruggun á mismunandi brugghúsum og voru virkir í heimabruggi um nokkurra ára skeið þegar þeir ákváðu að sameina krafta sína og stofna Mjaðargerðina Öldur.

„Við bruggum mjöð eins og gert var í gamla daga en drykkurinn er í grunninn gerður úr íslensku vatni og hunangi. Mjöður er ævaforn drykkur og hefur líklega fylgt mannkyninu um aldaraðir. Mjöður er ekki það sama og bjór eða pilsner heldur líkari léttvíni eða síder. Í hann er ekki notað neitt korn, eins og gert er við bjórbruggun. Það tekur um fjórar til fimm vikur í það minnsta að fullgera mjöð en það getur líka tekið ár ef drykkurinn á að „þroskast“ vel,“ segja þeir.

Sigurjón og Helgi hafa verið óhræddir við að prófa sig áfram með ýmsar bragðtegundir og notað íslenskt hráefni við framleiðsluna. Má þar nefna Bláma sem er mjöður gerður úr íslenskum, villtum handtíndum bláberjum, og Flugu, sem er krydduð með íslensku blóðbergi og ætihvannarfræjum. Mjöðurinn Rjóð og Blámi eru af tegundinni melomel, sem þýðir mjöður með berjum eða ávöxtum sem gefur drykknum rauðan eða bláan lit.

„Nýjasta tegundin, Sumarfluga, er léttur og kolsýrður mjöður með sítrónum og humlum. Sumarfluga er gerð að finnskri fyrirmynd og er í grunninn hefðbundinn, finnskur mjöður,“ segir Helgi.

Mjaðargerðin Öldur er komin í nýtt húsnæði við Fiskislóð 24 í Reykjavík. Þar verður tekið á móti hópum sem vilja kynnast miði. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Varð ekki aftur snúið

Upphaflega ætluðu þeir félagar aðallega að brugga bjór og mjöðinn meðfram því. „En þegar við byrjuðum að brugga mjöð varð ekki aftur snúið og þar fundum við okkar réttu hillu,“ segir Sigurjón en bætir við að eftir að þeir hafi kynnt mjöð á heimabrugghátíð hafi boltinn farið að rúlla.

„Við hittum kokk sem smakkaði mjöðinn frá okkur og var svo hrifinn að hann bað um að fá að selja hann til viðskiptavina sinna á veitingastaðnum Nostra, sem þá var og hét. Síðan vildu fleiri fá að kaupa mjöð af okkur og smám saman vatt þetta upp á sig,“ segir Helgi.

Vildi meiri fjölbreytni

Sigurjón bjó lengi í Vancouver í Kanada og þar kynntist hann því sem kallast kraftbjór. „Í Kanada er mikil gróska á þessu sviði og mikið um handverksbrugghús, sem gaman var að kynnast. Eftir að ég flutti aftur til Íslands fannst mér úrvalið af kraftbjór ekki nógu mikið hér heima, svo ég ákvað að prófa að brugga sjálfur. Um leið og ég fór að dýfa puttunum í þetta fann ég hvað þetta var skemmtilegt. Það er líka ánægjulegt að leyfa öðrum að prófa eitthvað sem maður hefur sjálfur búið til frá grunni,“ segir Sigurjón.

„Mér fannst skemmtilegast strax í byrjun að bruggun á miði leyfir sköpunargleðinni að njóta sín. Ég fæ útrás fyrir minn innri listamann. Það er eitthvað heillandi við að vera með hugmynd í kollinum, sem endar síðan sem eitthvað sem hægt er að finna ilm af og bragð og drekka. Svo er alltaf skemmtilegt að sjá viðbrögðin hjá fólki þegar það smakkar mjöð í fyrsta sinn,“ segir Helgi.

Þeir eru sammála um að það sé mikil gróska í bruggun úti í heimi og mörg handverksbrugghús hafa verið opnuð síðustu árin hér heima. „Það eru margir að brugga bjór á Íslandi en við erum þeir einu sem gerum mjöð,“ segir Sigurjón.

Mjaðargerðin Öldur flutti fyrir skömmu í nýtt húsnæði við Fiskislóð 24 í Reykjavík. „Við getum bráðlega tekið á móti hópum sem vilja kynna sér hvað mjöður nákvæmlega er en við verðum með skoðunarferð um brugghúsið og einnig fræðslu,“ segja þeir en mjöðinn má fá í Vínbúðinni og á bjorland.is. ■

Helgi og Sigurjón hafa prófað sig áfram með ýmsar bragðtegundir við mjaðargerðina. MYND/NORRIS NIMAN
„Okkar markmið er að endurvekja áhuga fólks á þessum sögulega drykk, sem að okkar mati ætti að vera þjóðardrykkur Íslendinga,“ segja þeir Sigurjón og Helgi hjá Mjaðargerðinni Öldur. MYND/NORRIS NIMAN