Eftir fyrirlestur Odds nokkrum dögum áður, um mataræði og krabbamein í versluninni Maður lifandi, sátu nokkrir fundarmenn eftir og ræddu saman um hve umræðan um blöðruhálskrabbamein færi hljótt. „Við ákváðum að stofna félag karla, sem hefði það að markmiði að afla fjár til að auka umræðu og styrkja rannsóknir á krabbameini í blöðruhálskirtli (BHKK) og efla baráttuna gegn því,“ segir Hinrik Greipsson, stjórnarmaður hjá Krabbameinsfélaginu Framför.

„Í fyrstu stjórn félagsins voru kjörnir, auk Odds, Hinrik Greipsson, Einar Benediktsson, Jón G. Ingvason, Guðni Á. Alfreðsson, Hrafn Pálsson og Haukur L. Hauksson.

Til þess að ná settu marki stofnaði félagið Styrktarsjóð Krabbameinsfélagsins Framfarar. Stofnfé sjóðsins var kr. 1.000.000 sem var gjöf frá Rolf Johansen og Co. ehf.

Með framlagi Styrktarsjóðs Baugs Group að fjárhæð kr. 2.500.000 tókst ásamt hjálp margra annara velunnara félagsins að fjármagna verkefnið. Félagið styrkti einnig útgáfu bókarinnar Bragð í baráttunni, eftir Denis Gingras og Richard Béliveau, í þýðingu Þórunnar Hjartardóttur. Útgáfan var í höndum JPV útgáfu. (bokalind.is/vara/bragdi-barattunni-matur-sem-vinnurgegn-krabbameini/).

Auk þess hélt félagið málþing: Krabbamein í blöðruhálskirtli – meinið, greining, meðferð, forvarnir og félagsleg áhrif, og gaf út upptöku af málþinginu á DVDdiski og dreifði ásamt eintaki af bókinni til allra heimilislækna á landinu svo og allra stuðningsfélaga Krabbameinsfélags Íslands. Þetta var gert með stuðningi Hárgreiðslustofunnar 101 Hárhönnun í Reykjavík, en starfsmenn hárgreiðslustofunnar gáfu Framför afrakstur innkomu stofunnar einn föstudag, þar sem hver mínúta var bókuð, og innkoman var um kr. 700.000, sem Framför naut góðs af í þetta verkefni.

Þá stóð félagið fyrir fyrirlestrum og fundum sem snertu málefnið, meðal annars fjölmennum fundi um mataræði og krabbamein í Háskólabíó, þar sem fenginn var erlendur fyrirlesari, Jane Plant. (canceractive.com/article/professor-jane-plant-your-life-in-yourhands). Oddur Benediktsson var formaður félagsins frá upphafi til dauðadags, 17. ágúst 2010. Þá féllu frá þeir Haukur L. Hauksson (2010) og Hrafn Pálsson (2016) og við það lamaðist starfsemi félagsins allverulega.

Eftir nokkurt hlé var reynt að halda starfsemi félagsins gangandi næstu ár á eftir, undir stjórn nýs formanns, Guðmundar Arnar Jóhannssonar, og var haldið áfram að safna fé til styrktar umræðu um og rannsókna á blöðruhálskirtilskrabbameini. Meðal annars var safnað fé til fjármögnunar kaupa Landspítala á svonefndum Þjarki, það er tölvuróbot sem notaður er við skurðaðgerðir á blöðruhálskirtli.

Framleiddir voru einnig sex sjónvarpsþættir undir stjórn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, viðtöl við karlmenn sem greinst höfðu með meinið og reynslu þeirra af vandamálinu. Starfsemi félagsins lá niðri í nokkur ár, eða þar til hópurinn Frískir menn kom fram árið 2019 og ákvað að endurreisa félagið og halda starfseminni áfram. Erum við nú á fullri ferð að vekja athygli og umræðu á BHKK með myndarlegum stuðningi Krabbameinsfélagsins.

Með stuðningi þess hefur félagið getað ráðið framkvæmdastjóra í hlutastarf hjá félaginu. Hann heitir Guðmundur G. Hauksson og hefur lyft grettistaki í starfsemi félagsins, með öflugri útgáfu aðgengilegra upplýsinga um meinið, meðferðir, samræður manna um reynslu hvers annars, aðkomu maka, auk kynningar félagsins á samfélagsmiðlum um framtíðaráform á starfi félagsins. Miklar framfarir í greiningum og meðferðum, bæði með tækjum og lyfjum, hafa orðið á þessum tíma og mikil þróun er í gangi. Sem dæmi má nefna þróun í geislameðferðum.

Vegna bættrar greiningartækni er hægt að beina geislum nákvæmar en áður að meininu sjálfu og þannig auka styrkleikann á hnitmiðaðra svæði. Í framtíðinni verður hægt að fækka og stytta geislameðferðir.“ Hinrik nefnir að slagorðið Þú gengur ekki einn og merkið Blái trefillinn séu mjög mikilvægir þættir í starfi Framfarar.

„Framför hefur skort slagorð og merki. Slagorðið er mikilvægt til þess að skapa tilfinningu manna sem greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein og maka þeirra fyrir því samfélagi sem við hjá Framför erum að skapa. Að greinast með þetta krabbamein er mikið áfall og mönnum hættir til að einangrast. Við viljum að menn og makar finni að hjá Framför fái þeir stuðning sem þeir þurfa og munu því ekki þurfa að ganga einir.

Merkið Blái trefillinn er hluti af söfnunarátaki sem er fram undan. Starfið hefur til þessa hvílt á einum harðduglegum framkvæmdastjóra, Guðmundi G. Haukssyni, sem var ráðinn í hlutastarf en hefur unnið meira en fullt starf. Við erum með fjölda hugmynda til þess að skapa það samfélag og bæta lífsgæði þeirra sem greinast.

Til þess að koma þessum hugmyndum okkar í framkvæmd þarf Framför starfsfólk og fjármagn og er fjáröflun með sölu á Bláa treflinum stærsti þátturinn í að takmarkinu verði náð.“