Við skilgreinum okkur fyrst og fremst sem landsbyggðastöð og dagskráin ber þess greinileg merki, kastljósinu er sérstaklega beint að málefnum landsbyggðanna og íbúum þeirra auk þess sem N4 er eina sjónvarpsstöð landsins með höfuðstöðvar sínar fyrir utan höfuðborgarsvæðið og sker sig þess vegna úr öðrum sjónvarpsstöðvum. Við finnum greinilega fyrir því að fólk um allt land vill að landsbyggðirnar fái pláss í fjölmiðlum. Okkar hlutverk er því á margan hátt mikilvægt, enda hefur mikilvægi fjölmiðlunar vaxið samfara örum tæknibreytingum. Við reynum eftir bestu getu að spegla samfélagið,“ segir María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4.

Þakklátir áhorfendur

„Við finnum greinilega fyrir þakklæti frá áhorfendum og velvildin í okkar garð er mikil, enda vill fólk fá efni frá landsbyggðunum þar sem sagt er frá fólki á öllum aldri í leik og starfi. Ég segi hiklaust að N4 skipti máli i íslenskri fjölmiðlun, stöðin geri það að verkum að landsbyggðirnar séu sýnilegri í augum allra landsmanna. Á síðasta ári frumsýndum við um 350 þætti af íslensku efni, sem tók samtals um 200 klukkustundir að sýna, þannig að framleiðslan á þessari litlu en mikilvægu sjónvarpsstöð er ansi mikil, enda valið fólk í hverju rúmi. Við höfum tekið mikilvægt skref í þá átt að gefa tónlistarfólki úti á landi möguleika til að koma tónlist sinni á framfæri í sjónvarpi hjá okkur. Við erum með eina sjónvarpsstúdíóið á landsbyggðunum og mikilvægt að nota það. Eins og gefur að skilja getum við ekki orðið við öllum beiðnum um umfjöllun, þannig er það hjá öllum fjölmiðlum, en við reynum að gera okkar besta í þeim efnum. Ekki má heldur gleyma því að við tökum upp og framleiðum hina stórmerkilegu Fiskidagstónleika og sýnum á N4.

Sýnileikinn skiptir máli

„Við frumsýnum venjulega klukkutíma af íslensku efni á hverju virku kvöldi og „Að“ þættirnir eru þar í aðalhlutverki. Þannig fjallar „Að norðan“ sérstaklega um Norðurland, „Að austan“ er tileinkaður Austurlandi og „Að vestan“ um Vesturland. Við vonumst svo til þess að geta bætt Vestfjörðum í hópinn og fá „Að sunnan“ aftur á dagskrá. Helstu kostendur þessara þátta eru flest sveitarfélögin í viðkomandi landshlutum, auk þess sem fyrirtæki koma að kostun þáttanna. Flest sveitarfélögin gera sér grein fyrir mikilvægi þess að vera sýnileg og þessi samvinna hefur gengið afskaplega vel fyrir sig. Síðan erum við með sérhæfða þætti, þar sem fjallað er um einstaka málaflokka, svo sem íþróttir, atvinnulífið, sveitarstjórnarmál, ungt fólk, mannlíf og svo framvegis. Við á N4 höfum farið þá leið að útvista framleiðslunni heim í hérað sem mest. Þannig stuðlum við að því að byggja upp þekkingu og reynslu í fjölmiðlum á hverjum stað. Sem dæmi hefur heimafólk á Austurlandi framleitt fyrir okkur „Að austan“ og sömu sögu er að segja um Vesturlandið, „Að vestan“. Þessi stefna hefur gefist vel og við viljum mjög gjarnan halda áfram á þessari braut, þegar þess er nokkur kostur. Þess má einnig geta að N4 hefur átt í farsælu samstarfi við KNR, Grænlenska ríkissjónvarpið, frá árinu 2016 við framleiðslu á þáttunum Nágrannar á norðurslóðum.“

Skúli Bragi dagskrárgerðarmaður við tökur á þáttunum „Uppskrift að góðum degi“ þar sem hann ferðast um landið með föruneyti og stoppar á áhugaverðum stöðum. Mynd/Rakel Hinriksdóttir

Áhorfsmet

„Það er nú bara þannig að áhorf á línulega dagskrá ljósvakamiðla er á hröðu undanhaldi,“ segir María Björk þegar hún er spurð um áhorfið. „Fólk vill geta ráðið því hvar og hvenær það horfir, hlustar eða les áhugaverð viðtöl eða þætti. Þess vegna nýtum við okkur samfélagsmiðlana óspart til þess að ná til sem flestra, fyrir utan hefðbundnar útsendingar hjá okkur sem ná til rúmlega 99% lögbýla landsins. Það eru ekki bara Akureyringar sem horfa á okkur, langt í frá.

Þótt árið sé ekki hálfnað erum við búin að toppa allar áhorfstölur fyrri ára. Fyrstu fjóra mánuði ársins höfðu myndskeið frá okkur verið sótt meira en milljón sinnum á Facebook. Allt árið í fyrra var áhorfið 730 þúsund, þannig að við erum núna búin að slá út tölur síðasta árs og vel það. Facebooksíðan okkar er mjög stór, 22.500 fylgjendur og við frumsýnum okkar efni samtímis í línulegri dagskrá og á Facebook. Í hverjum mánuði eru þættir okkar sóttir nærri 40 þúsund sinnum á Tímaflakki Símans, þannig að það er greinilegt að fólk kann að meta það sem við erum að gera og fyrir það erum við afskaplega þakklát,“ bætir hún við.

Frá Fiskidags­tónleikunum 2018. Á hverju ári framleiðir N4 og sýnir Fiskidagstónleikana á Dalvík. Mynd/Bjarni Eiríks

Jafnt kynjahlutfall

„Við höfum fylgst náið með kynjahlutfallinu í mörg ár og alltaf hefur hlutfall viðmælenda verið nokkuð jafnt og sömu sögu er að segja um stjórnendur þátta. Fyrstu árin sem við skráðum þetta allt saman samviskulega niður, þurfti af og til að grípa til ráðstafana í lok ársins til þess að rétta af kynjahalla. Sú tíð er löngu liðin enda þykir umsjónarfólki eðlilegt og sjálfsagt að kalla til bæði kynin. Auðvitað hafa fjölmiðlar skyldum að gegna í þessum efnum. Fjölmiðlar sem taka sitt hlutverk alvarlega gæta þess að kynjahlutföllin séu í jafnvægi.“

Það er valið fólk í hverju rúmi við framleiðslu á íslenska efninu sem N4 sýnir í viku hverri. Hér er framleiðandinn Stefán Friðrik Friðriksson.

Ekkert er ókeypis

„Rekstur fjölmiðla hefur verið erfiður, nema kannski Ríkisútvarpsins. Við bindum vonir við að frumvarp menntamálaráðherra um að styrkja einkarekna fjölmiðla muni skipta okkur miklu máli, jafnvel þótt stuðningur við Ríkisútvarpið verði áfram mikill og ríkulegur. Það hefur hins vegar ekki komið fram enn þá þannig að við vitum ekki hverju það mun breyta. Þótt fjölmiðill sé ókeypis er staðreyndin sú að ekkert er ókeypis. Það er alltaf nefnilega einhver sem borgar. Við á N4 erum svo heppin að eigendurnir eru mjög skilningsríkir og standa þétt við bakið á rekstrinum. Stuðningur ríkisins mun skipta máli, en stuðningur atvinnulífsins og almennings mun eftir sem áður skipta sköpum í rekstri fjölmiðla,“ segir María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4.

Karl Eskil Pálsson og María Björk Ingvadóttir við tökur á Föstudagsþættinum, sem er við einstök tilefni tekinn utanhúss. Hér eru þau á LÝSU, Rokkhátíð samtalsins í HOFI á Akureyri. Mynd/Rakel Hinriksdóttir