Alvöru framþróun verður í rauninni til með valdeflingu kvenna, segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Rauði krossinn á Íslandi leggur áherslu á konur og stúlkur í verkefnum sínum. Sérstakt teymi innan Alþjóðaráðs Rauða krossins vinnur að því að samþætta forvarnir og undirbúa fólk og skipuleggja þolendavæn viðbrögð gegn kynferðislegu ofbeldi. Þá hefur stjórn Alþjóðasambands Rauða krossins unnið að því markvisst að tryggja jafnari kynjahlutföll innan stjórnar Alþjóðasambandsins.

„Við leggjum áherslu á konur og stúlkur í verkefnum Rauða krossins vegna þess að við teljum að þetta sé það eina rétta í átt að framþróun; að það sé mikilvægt skref í átt að framþróun,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. „Við sjáum það náttúrulega hér á landi hversu mikilvæg þátttaka kvenna er og við erum löngu búin að átta okkur á því hér á landi hversu miklar framfarir hafa orðið síðustu áratugi með þátttöku kvenna í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Alvöru framþróun verður í rauninni til með valdeflingu kvenna.“

Portia Nuyumwa er 16 ára nemandi við Kakoma-framhaldsskólann í Malaví. Hún er heppin að geta sótt sér daglega vatn í einn af mörgum brunnum sem Rauði krossinn hefur byggt á skólalóðum í Malaví. MYNDIR/AÐSENDAR

Valdefla stúlkur í Malaví

Kristín nefnir sem dæmi menntun og valdeflingu stúlkna í Malaví.

„Það er áhersluatriði í verkefnum okkar þar og það er eitt af því mikilvægasta til þess að koma í veg fyrir fátækt að stúlkur festist ekki í fátækt; að þær hafi tækifæri til að mennta sig og öðlast sjálfstæði. Við höfum byggt brunna á skólalóðum því það kemur gjarnan í hlut stúlkna að sækja vatn fyrir heimilið og ef það þarf að ganga langar vegalengdir, langt frá skólanum til að sækja vatn, gefst ekki tími til að sinna náminu. Með aukinni menntun fækkar líka ótímabærum þungunum auk þess að það eru meiri líkur á að stúlkur geti séð fyrir sér og fái tekjur. Þannig að það er mikilvægt að byrja þarna til þess að tryggja líka sjálfbærni: menntun, atvinna, þvinguð barnahjónabönd, þungun ungra stúlkna og svo framvegis: Það er keðjuverkun að koma stúlkunum út úr þessari hringrás. Við sáum til dæmis að skólum í Malaví var lokað í Covid-faraldrinum og þá var mikil aukning þungana á meðal barnungra stúlkna og þær hættu í skólanum. Það mikilvægasta er auðvitað að breyta hugsunarhætti í samfélögum til að auka þátttöku kvenna en það er gríðarlega stórt og umfangsmikið verkefni sem ekkert félag eða einstaklingur getur klárað einn síns liðs. Það tekur tíma, samvinnu og samfélagsbreytingar í öllum lögum samfélagsins. Við vinnum með sjálfboðaliðum okkar að fræðslu til að tala um mikilvægi kvenna í samfélaginu.“

Kristín nefnir einnig að þegar kemur að neyðaraðgerðum og neyðaraðstoð Rauða krossins á átakasvæðum og í neyðarviðbrögðum þá sé einnig mikilvægt að huga sérstaklega að konum og sem dæmi um það í sinni einföldustu mynd er að það þarf að tryggja að tíðavörur séu á staðnum; að það sé hægt að dreifa dömubindum.

„Konur hætta ekki að fara á blæðingar þó það komi flóð, aurskriða falli eða átök hefjist. Þegar konur eru ekki hluti af þeim sem skipuleggja viðbrögð og koma að þeim þá er hætt við að eitthvað jafneinfalt og þetta, en mikilvægt, gleymist.“

Kristín segir að þegar þörf sé greind og metin með heimamönnum þá átti starfsmenn Rauða krossins sig á því hverjir standa berskjaldaðir.

„Og við reynum að stuðla að þátttöku allra því að við trúum að leiðin til raunverulegrar framþróunar sé að allir séu með. Um leið og við vinnum að jafnrétti þá skiptir fjölbreytileikinn líka máli og að við séum í forystu í því að fólki finnist það vera velkomið hvernig sem það er, hvaða skoðanir sem það hefur, trúarbrögð og svo framvegis. Eitt mikilvægasta grunngildi Rauða krossins er óhlutdrægni og við þurfum að hafa það í heiðri alltaf og alls staðar. Við gerum ekki greinarmun á fólki að neinu leyti og lítum mjög til jaðarsettra hópa og að þeir fái tækifæri, stuðning og einhvern sem talar máli þeirra. “

Sérstakt teymi innan Alþjóðaráðs Rauða krossins hefur unnið að því að samþætta forvarnir; að undirbúa fólk og skipuleggja þolendavæn viðbrögð gegn kynferðislegu ofbeldi.

„Rauði krossinn þarf að mennta og þjálfa starfsfólk og sjálfboðaliða til þess að geta brugðist rétt við. Og það er mjög vel þekkt að kynferðisofbeldi er notað í átökum og eru viðbrögð Rauða krossins og Rauða hálfmánans mikilvæg, enda gjarnan oft þau einu sem eru til staðar á vettvangi og geta veitt þolendum aðstoð.“

Margaret Kazembe er leiðbeinandi hjá Mangochi-deild Rauða krossins í Malaví. Hún ferðast á milli þorpa á verkefnasvæðinu á mótorhjóli Rauða krossins til að veita sjálfboðaliðum stuðning og leiðsögn. Margaret er mikilvæg fyrirmynd fyrir stelpur á svæðinu.

Íslendingur í framboði

Rauði krossinn á Íslandi hefur verið öflugur þátttakandi í verkefni innan Rauða kross-hreyfingarinnar til að efla framgöngu kvenna og hefur Kristín verið hluti af því.

„Ég er tengill Evrópulandsfélaganna í því verkefni – allur heimurinn er með – að tryggja hlut kvenna hjá alþjóða Rauða krossinum í æðstu stjórnum og nefndum. Aðalfundur verður haldinn í næstu viku og Ragna Árnadóttir er í framboði til stjórnar Alþjóðasambandsins fyrir hönd Rauða krossins á Íslandi. Það eru 25 manns í stjórninni; 20 stjórnarmeðlimir, fjórir varaforsetar og einn forseti. Við höfum verið að vinna að því síðustu þrjú árin að að tryggja jafnari kynjahlutföll innan stjórnar Alþjóðasambandsins sem endurspegla auðvitað réttari samsetningu jarðarbúa og þeirra sem bæði taka þátt í verkefnum okkar sem starfsmenn, sjálfboðaliðar og notendur þjónustu okkar. Við í Rauða krossinum á Íslandi höfum verið dugleg að ýta þessu mikilvæga málefni áfram því ásýnd stjórnar Alþjóðasambands Rauða krossins verður líka að endurspegla áherslur okkar á aukið kynjajafnrétti og þátttöku allra á vettvangi Rauða krossins og öllum okkar mikilvægu verkefnum.“ ■

Þetta viðtal birtist fyrst í sérblaðinu Kvenréttindadagurinn sem fylgdi Fréttablaðinu laugardaginn 18. júní 2022.