Vörur sem félagið selur eru tengdar öryggismálum og telja meðal annars innbrotaviðvörunarkerfi, brunaviðvörunarkerfi, myndavélakerfi, aðgangsstýrikerfi og slökkvikerfi.

Guðrún Inga Guðlaugsdóttir, mannauðsstjóri hjá Securitas, segir fyrirtækið hafa verið markvisst á stafrænni vegferð og eitt af stærri verkefnum fyrirtækisins innleiðingu á nýju CRM kerfi, Salesforce.

„Við í mannauði höfum einnig tileinkað okkur stafræna vegferð en í dag er allt ráðninga- og innleiðingarferlið okkar orðið rafrænt. Við útbúum rafræna ráðningarsamninga og undirritanir, sem fylgir svo rafrænt „onboarding“-ferli og formleg stofnun í kerfunum okkar,“ segir Guðrún.

„Þegar rafrænu „onbording“ er lokið þá stofnast starfsmaður strax í Vitru, fræðslukerfinu okkar, þar sem opnast fyrir starfsmanninn bæði skyldunámskeið og valnámskeið og kynningar. Í okkar stafrænu vegferð tókum við einmitt Vitru í gagnið sem gerir okkur kleift að veita fræðslu og þjálfun hvar sem er og hvenær sem er. En starfsemin okkar er dreifð um landið og fólkið okkar getur verið að sinna verkefnum á öllum tímum sólarhringsins.“

Guðrún fullyrðir að starfsfólk Securitas hafi tekið Vitru vel, því á fyrsta mánuðinum skráði megnið af starfsfólki sig þar inn og hóf að nýta sér námskeiðin.

„Við erum samtals um 500 manns sem störfum hjá Securitas og erum með starfsstöðvar vítt og breitt um landið. Því hefur rafrænt fræðslukerfi opnað okkur nýjar dyr hvað varðar fræðslumöguleika.

Í Vitru má finna rafræn velkomin myndbönd til nýs starfsfólks, en það eru stutt fræðslumyndbönd sem segja frá starfseminni og mikilvægum upplýsingum tengdum því að hefja hjá okkur störf, en að auki bjóðum við nýliðum reglulega til okkar á staðbundin námskeið þar sem farið er meðal annars yfir verklega öryggisfræðslu og þjálfun. Markmið okkar er að allt okkar starfsfólk fái samræmda nýliðafræðslu í upphafi starfs, sama hvert starfið er,“ segir Guðrún.

Stefna og jafnlaunavottun

„Við í mannauðsteyminu erum einnig óhrædd við að prófa nýjar aðferðir og finna hvað það er sem virkar best í okkar mannauðsferlum. Við búum svo vel að stjórnendur hjá Securitas eru opnir fyrir nýjungum og árið 2019 ákváðum við til dæmis að prófa að notast við hópviðtöl þegar verið er að ráða inn fyrir jóla- og sumarstörf, en þá ráðum við inn mikinn fjölda fólks, allt upp undir 100 manns í einu. Þessi nálgun hefur reynst okkur afar vel, bæði stjórnendum og umsækjendum þykja hópviðtölin skemmtileg nýbreytni frá stöðluðu viðtalsformi, en þar fá umsækjendur að leysa raunhæf verkefni sem skapa miklar umræður í hverjum hópi fyrir sig. Fyrsta tilraun gekk það vel að stjórnendur vildu ekki snúa til baka svo þetta er orðið hefðbundið verklag við fjöldaráðningar hjá okkur,“ segir Guðrún.

„Í Covid þurftum við eins og önnur fyrirtæki að laga okkur að aðstæðum, tókum þá hópviðtölin gegnum Teams og notuðumst við „breakout rooms“. Það var mjög áhugavert og gekk vel, sem sýnir okkur að það er hægt að notast við rafræna aðferð hópviðtala ef þannig ber undir, en við klárlega veljum frekar að hitta hópana í raunheimum.“

Securitas hlaut jafnlaunavottun árið 2019 og segir Guðrún að teymið sé afar stolt af því, en jafnréttismál eru því hugleikin.

„Launamunur kynjanna hjá okkur mælist undir 1 prósenti. Í fyrra hófum við formlega vegferð um að auka jafnréttisvitund innan félagsins í jafn karllægu umhverfi sem öryggisbransinn og tækniumhverfið er. Fyrsta skrefið var fundur meðal kvenna hjá fyrirtækinu þar sem jafnréttismál voru rædd í víðu samhengi. Í kjölfarið var sú ákvörðun tekin að fyrsti hluti vegferðarinnar væri að auka almenna vitund um jafnrétti og mikilvægi fjölbreytni á vinnustaðnum og horfðum við sérstaklega til orðfæris í daglegu tali og skrifmáli, að forðast karllæg orð eins og tæknimenn og starfsmenn og notast heldur við tæknifólk, starfsfólk og í daglegu skrifmáli að forðast ávörp eins og sælir,“ segir hún.

„Við breyttum einnig hópnetföngum okkar úr „allir hjá Securitas“ í „öll hjá Securitas“ og erum smátt og smátt að breyta orðalagi í skrifuðum texta hjá okkur, til dæmis í verklagsreglum og tilkynningum og fréttum á innri og ytri miðlum. Þetta hjálpar allt við að auka vitund um öll kyn á vinnustaðnum. Í framhaldi höfum við lagt enn meiri áherslu á að minnka bil kynjanna, en kynjahlutföll okkar eru um 80 prósent karlar, 20 prósent konur. Við störfum í frekar karllægum geira en við erum með um 100 iðnmenntað starfsfólk og því miður eru konur almennt í iðngreinum í minnihluta. Við höfum því markvisst lagt áherslu á að ráða inn kvenfólk í öll störf, nú síðast í hóp tæknifólks á tæknisviði, einnig hafa kvenstjórnendur bæst við hópinn okkar, konum hefur fjölgað í hópi öryggisvarða ásamt því sem við ráðum inn hæft fólk af öllum kynjum í önnur störf hjá okkur. Með þessu hófst okkar vegferð og munum við halda áfram að stuðla að enn meiri jafnréttisvitund á vinnustaðnum.“

Securitas er í Skeifunni 8. Sími 580-7000. Sjá nánar á securitas.is