Miðlægt þjónustuver ELKO er opið í tólf tíma alla virka daga og níu tíma um helgar. Netspjallið er opið frá 9 til 21 á virkum dögum og 12 til 21 um helgar.

„Markmið ELKO er að viðskiptavinir fái sömu þjónustuupplifun, hvort sem þeir eru staddir í verslun okkar eða vefverslun,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri ELKO.

„Við leggjum áherslu á persónulega þjónustu og stuttan biðtíma þar sem viðskiptavinir geta fengið svör við öllum sínum spurningum, hvort sem það á við um ákveðnar vörur, þjónustu eða aðrar ráðleggingar tengdar vörum sem við bjóðum upp á. Mikil ánægja hefur mælst á meðal viðskiptavina með þjónustu ELKO og er það partur af stefnu fyrirtækisins að bjóða framúrskarandi þjónustuupplifun í öllum okkar verslunum, og það sama á við um vefverslun ELKO,“ segir Arinbjörn.

Þjónustufulltrúar taka vel á móti viðskiptavinum ELKO á elko.is.

Fjölbreyttur afhendingarmáti

ELKO býður fjölbreytt úrval afhendingarmáta sem mætir þörfum viðskiptavina hverju sinni.

„Ásamt því að bjóða heim­sendingu á stórum sem smáum tækjum, hvert á land sem er, geta viðskiptavinir einnig sótt vörur í verslanir eða á valdar N1-stöðvar á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ, á Akranesi, Selfossi og Akureyri í samstarfi við Dropp,“ upplýsir Arinbjörn.

Afhendingartími er allt frá því að vera samdægurs, ef pantað er fyrir klukkan 13 á höfuðborgarsvæðinu, en upp í tvo til þrjá daga á landsbyggðinni.

„Við leggjum mikið upp úr þjónustuloforðum okkar þegar kemur að afhendingartíma en allar pantanir í vefverslun eru teknar saman í vöruhúsi Bakkans og þaðan komið í viðeigandi afhendingarferli,“ segir Arinbjörn.

Hægt er að velja um marga mismunandi afhendingarmáta í vefverslun ELKO, elko.is.

Ör vöxtur í vefverslun og nýr vefur elko.is væntanlegur

Ekki er hægt að tala um öran vöxt í vefverslun síðastliðið ár án þess að taka með í myndina almenn áhrif Covid-19 á vefverslun á heimsvísu.

„Þó er óhætt að segja að í bland við Covid-19-áhrifin hafi persónuleg þjónusta, í takt við stafræna þróun, gert okkur í ELKO kleift að takast á við þennan gríðarlega vöxt í vefverslun,“ segir Arinbjörn.

„Aukinn hraði á vefnum og bætt leitarvél hefur skilað sér í því að viðskiptavinir finna hratt og örugglega vörurnar sem þeir leita að. Þjónustuverið hefur svo séð til þess að halda þjónustustiginu uppi þar sem viðskiptavinir fá svör við öllum sínum spurningum á net­spjallinu. Þegar hert hefur verið á samkomutakmörkunum hefur svo gengið vel að skala upp þjónustuna á elko.is en við höfum séð ákveðna toppa í vefverslun í kringum afsláttardaga, jól og hverja Covid-19 bylgju sem skollið hefur á.“

Til að létta á þjónustuveri ELKO var viðskiptavinum einnig gert kleift að sækja kaupnótur aftur í tímann með því að skrá sig inn með stafrænum skilríkjum á Mínar síður (minar.elko.is).

„Með því geta viðskiptavinir flett upp kaupnótum aftur í tímann, séð ábyrgðartíma raftækja sem þeir hafa keypt, gildistíma viðbótartrygginga og svo framvegis. Þessi viðbót hefur ekki bara einfaldað viðskiptavinum að nálgast þessi gögn heldur hefur hún einnig dregið úr álagi fyrirspurna sem tengjast kaupnótum í þjónustuveri,“ segir Arinbjörn.

Mikil áhersla er lögð á stafræna þróun hjá ELKO en telja má að vöxtur í vefverslun sé að einhverju leyti kominn til að vera.

„Í dag er vefverslunin elko.is önnur stærsta verslun fyrirtækisins á eftir ELKO í Lindum. Til að mæta auknum vexti í vefverslun og sífellt vaxandi kröfum neytenda um skilvirkan og notendavænan vef hefur verið lagst í mikla vinnu við þróun á nýjum vef elko.is og má vænta þess að nýr vefur fari í loftið á næstu misserum,“ upplýsir Arinbjörn.

Notendaviðmótið á elko.is er persónulegt og þægilegt.

Traust viðskiptasamband og ánægja til framtíðar

Þegar kemur að neytendarétti hefur ELKO lengi verið leiðandi fyrirtæki á sínum markaði.

„Gott dæmi um sérstöðu ELKO í þeim málum er 30 daga skilaréttur en hann ýtir meðal annars undir að viðskiptavinir eru meira tilbúnir til að klára kaupin í vefverslun. Auðvelt er að skila vörum gegn fullri endurgreiðslu, jafnvel þótt þær hafi verið teknar úr umbúðum og prófaðar. Með þessu viljum við tryggja ánægju viðskiptavina með vörur sem þeir versla. Á það jafnt við um kaup í verslunum okkar eða í vefversluninni elko.is,“ útskýrir Arinbjörn.

Á dögunum var birt verðsaga á öllum vörum á elko.is en það var hluti af innleiðingu nýrrar stefnu fyrirtækisins.

„Með birtingu verðsögu viljum við auka gagnsæi gagnvart viðskiptavinum með það að leiðarljósi að skapa aukið traust og stuðla að áframhaldandi góðu viðskiptasambandi við viðskiptavini ELKO til framtíðar. Birting verðsögu var því rökrétt viðbót við aðra þjónustuþætti ELKO eins og 30 daga skilarétt, verðöryggi, viðbótartryggingar og inneignarnótur án gildistíma svo eitthvað sé nefnt,“ segir Arnibjörn.

Gerðu góð kaup í vefverslun ELKO, elko.is. Allar nánari upplýsingar um skilarétt ELKO á elko.is/skilarettur