Sigurborg Arnarsdóttir er sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Össuri. Hún segir að stefna Össurar í samfélagsábyrgð sé að auka jákvæð áhrif og minnka neikvæð.

„Þegar við tölum um að minnka neikvæð áhrif liggur beinast við að líta á umhverfismálin. En við getum líka haft neikvæð áhrif með slæmum viðskiptaháttum. Við höfum verið að byggja upp heildstæða stefnu, m.a. í tengslum við viðskiptahætti, en sem heilbrigðisfyrirtæki í alþjóðlegu rekstrarumhverfi þá eru spilling og mútur einn af þeim áhættuþáttum sem við þurfum að vera vakandi fyrir,“ útskýrir Sigurborg.

„Áður fyrr þótti það jafnvel eðlilegt að bjóða sporslur fyrir að selja ákveðnar vörur, eða aðrar fyrirgreiðslur, en það er breytt í dag og löggjöf í flestum löndum sem bannar slíkt. Þó svo að við teljum okkur vera með þessa hluti í lagi hjá okkur, þá þurfum við að vera á varðbergi og passa upp á að stefna okkar og áherslur í þessum málum nái til starfsfólks og hvetja það til að láta vita verði það vart við slíkt. Við höfum meðal annars komið upp kerfi „Ossur Speak Up Line“ sem gerir starfsfólki kleift að láta vita ef eitthvað er í gangi sem fellur ekki undir gott viðskiptasiðferði og er almennt brot á reglum fyrirtækisins. Fyrir þá sem það kjósa, þá er hægt að gera þetta nafnlaust.“

Aukin lífsgæði

Sigurborg nefnir að þær vörur sem fyrirtækið framleiðir hafa jákvæð, samfélagsleg áhrif.

„Stærsta framlag okkar til samfélagsins eru vörurnar, en þær auka lífsgæði fólks og gera því kleift að stunda vinnu og taka virkan þátt í samfélaginu. Eitt af þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem við hjá Össuri höfum valið er markmið númer þrjú og setjum við sérstaka áherslu á það, þar sem að við getum haft veruleg áhrif. Þetta markmið snýst um heilsu og vellíðan og að stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan allra aldurshópa,“ útskýrir Sigurborg.

„Í tengslum við þetta markmið þá höfum við ákveðið að setja sérstaka áherslu á vörur sem henta fólki sem er 65 ára og eldra, sem er stór hluti af okkar viðskiptavinum. Það er staðreynd að á flestum okkar markaðssvæðum hefur eldra fólk lakara aðgengi að hátæknivörum en þeir sem yngri eru. Það er okkar sýn að hægt sé að veita stoðtækjanotendum í þessum aldursflokki aukið sjálfstæði og meiri hreyfanleika sem skilar sér í auknum lífsgæðum og leggjum við sérstaka áherslu á að hanna vörur sem henta þessum hópi. Þetta eru til dæmis vörur sem auðvelt er að setja á sig sitjandi. Á sama tíma erum við að gera prófanir á vörum fyrir þennan aldurshóp með það að markmiði að sýna fram á kosti þess að þessi hópur geti haldið virkni lengur.“

Hin þrjú heimsmarkmiðin sem Össur leggur sérstaka áherslu á eru: Jafnrétti kynjanna (markmið 5), Ábyrg neysla og framleiðsla (markmið 12) og Aðgerðir í loftslagsmálum (markmið 13).

„Við höfum sterka stöðu á Íslandi hvað varðar jafnrétti kynjanna. En margir kollegar okkar í öðrum löndum eiga lengra í land,“ segir Sigurborg. „Við fengum jafnlaunavottun hér á Íslandi um leið og byrjað var að gefa slíka vottun. En við viljum líka leggja áherslu á jafnrétti kynjanna hjá dótturfélögum okkar erlendis. Við fylgjumst með kynjahlutföllum á öllum stjórnendastigum og leggjum okkur fram við að bæta þau. Stjórnendur í fyrirtækinu okkar eru sammála þessari stefnu og er það okkar reynsla að þeir sjái kostina og hafi metnað fyrir því að bæta þetta.“

Kolefnishlutlaust fyrirtæki

Össur hefur sett sér það markmið að verða kolefnishlutlaust á afmælisárinu, 2021. Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, sérfræðingur í sjálfbærni, umhverfis- og öryggismálum, segir að hugmyndin að þessu markmiði hafi komið fram fyrri part síðasta árs.

„Í byrjun vorum við að horfa til þess að setja okkur markmið um kolefnishlutleysi árið 2025 eins og sum fyrirtæki eru að gera. Hins vegar, þegar við sáum að það væri gerlegt á sjálfu 50 ára afmælisárinu þá stukkum við af stað með hugrekkið í farteskinu og höfum unnið hörðum höndum undanfarna mánuði við að safna upplýsingum til að ná enn betur utan um kolefnisspor fyrirtækisins og setja fram aðgerðaáætlun að kolefnishlutleysi. Við erum verulega stolt af þessu markmiði og það er gaman að ná því á afmælisárinu,“ segir hún.

„Við stefnum að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstrinum, eins og t.d. flutningi, ferðalögum og bílaflota, og auka orkunýtingu almennt. Við ætlum að tryggja að raforkan sem við kaupum komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum og jafna út þá losun sem við komumst ekki hjá, með því að styðja við verkefni sem draga úr losun. Þau verkefni sem við styðjum eru öll vottuð samkvæmt hæstu alþjóðlegu gæðakröfum.“

Bergþóra segir að fyrirtækið hafi verið með umhverfisstefnu í mörg ár. Meginmarkmiðið er alltaf að draga úr umhverfisáhrifum fyrirtækisins en auk þess er lögð mikil áhersla á stöðugar úrbætur og að virkja starfsfólk til þátttöku.

„Hver starfsmaður er sérfræðingur í sínu starfi og veit því oft best hvernig hægt er að bæta það,“ útskýrir hún. „Við erum með tillögukerfi þar sem starfsmenn koma með tillögur að úrbótum í umhverfis-, öryggis- og gæðamálum. Þannig vinnum við saman að stöðugum úrbótum og á hverju ári verðlaunum við svo bestu tillögurnar.