Siggi og Jón ehf. varð til við samruna tveggja fyrirtækja, S.Þ. verktaka ehf. og Linda ehf. Stofnendur eru þeir Sigurður Þórðarson og Jón Ingi Gunnarsson. Sigurður er menntaður húsasmíðameistari og byggingarstjóri. Hann stofnaði S.Þ. verktaka ehf. árið 1993 og rak fyrirtækið í tæplega 30 ár á sömu kennitölu. Fyrirtækið hefur mestmegnis verið aðalverktaki að stærri byggingum fyrir bæjarfélög og sveitarfélög.

Jón Ingi er menntaður húsasmíðameistari og fasteignamatsfræðingur. Jón hefur starfað í byggingariðnaði í um 40 ár en unnið sjálfstætt við fagið síðustu 30 ár og öðlast mikla reynslu í flestu er við kemur fasteignum. Jón stofnaði Lindar ehf. árið 2006 og vann jafnt að nýbyggingum, viðhaldsverkefnum og matsstörfum byggingariðnaðar.

„Ég myndi segja að við værum lítið til meðalstórt fyrirtæki. Við erum að jafnaði 15-20 manns og vinnum á verktakamarkaði. Við vinnum eftir ströngu gæðakerfi og reynum að vera virkir á útboðsmarkaðnum. Við höfum mikla reynslu enda búnir að vera í þessu í tugi ára, bæði í íbúðarhúsnæði og öðrum byggingum,“ segir Jón.

„Áður en samruninn varð vorum við í því að byggja og selja en síðan við fórum að vinna saman höfum við bara verið á útboðsmarkaði og höfum byggt mikið fyrir bæjarfélög og fyrirtæki,“ bætir hann við.

Fyrirtækið hefur sem dæmi byggt mikið fyrir Hafnarfjarðarbæ og unnið að verkefnum fyrir bæjarfélagið.

„Við höfum líka unnið mikið fyrir kirkjuna og erum einmitt núna að byggja þjónustuhús fyrir kirkjugarðana. Það er við Lindakirkjugarð sem er aðalverkstaðurinn okkar eins og er,“ segir Jón.

Það hefur verið nóg af verkefnum hjá fyrirtækinu frá stofnun en Jón segir að stefnan sé að halda sig við verkefni í minni kantinum en þó ekki í þeim allra minnstu.

„Við viljum frekar taka að okkur minni verk og skila af okkur vönduðu verki, en við reynum samt að vera þar sem eitthvert kjöt er á beinunum. Það er það sem við leggjum áherslu á.“

Nánari upplýsingar á siggiogjon.is

Safnaðarheimili Ástjarnarkirkju er falleg smíði, hér séð að innanverðu.
Siggi og Jón hafa mikið unnið fyrir bæjarfélög. Þessi bygging er sambýli í Austurkór í Kópavogi.
Bygging safnaðarheimilis Ástjarnarkirkju á Völlunum í Hafnarfirði er eitt þeirra verkefna sem Siggi og Jón ehf. hafa tekið að sér. Safnaðarheimilið byggist í kringum þrjú garðrými. Mynd/Aðsend
Starfsstöð fyrir HS veitur í Hafnarfirði var eitt verkefna Sigga og Jóns ehf.
Loftið hjá HS veitum er listasmíð