Það eru fáir staðir í veröldinni sem búa yfir jafn mikilli dulúð eins og Snæfellsjökull. Svæðið í kring er þó ekki síður töfrandi. „Það þekkja auðvitað allir Snæfellsjökul og fegurð hans og hafa heyrt sögu Jules Verne um ferðina að miðju jarðar, en ég held það geri sér ekki allir grein fyrir hversu aðgengilegar og fjölskylduvænar margar náttúruperlur eru hér í Snæfellsbæ“, segir Heimir Berg Vilhjálmsson, markaðs- og upplýsingafulltrúi Snæfellsbæjar.

Heimir Berg ásamt sonum sínum á sparkvellinum á Hellissandi.

Fullkominn áfangastaður

Snæfellsbær er ansi víðfeðmt sveitarfélag á Snæfellsnesi og liggja bæjarmörkin annars vegar í Staðarsveit, rétt vestan við Vegamót og hins vegar í Búlandshöfða að norðanverðu. Er þar að finna þéttbýliskjarnana Ólafsvík, Hellissand og Rif, smærri byggðakjarna á Arnarstapa og Hellnum, auk dreifbýlis í Staðarsveit. Þá liggur þjóðgarðurinn Snæfellsjökull að öllu leyti innan Snæfellsbæjar.

Heimir Berg segir Snæfellsbæ tilvalinn áfangastað fyrir ferðalög innanlands. „Það tekur ekki nema rétt rúma tvo tíma að keyra hingað frá höfuðborgarsvæðinu og hér er allt til alls fyrir fullkomið ferðalag innanlands. Innviðirnir eru mjög góðir eftir uppgang ferðaþjónustunnar síðustu ár og fjölbreytt verslun, þjónusta og afþreying í boði fyrir gesti og gangandi.“

Svæðið hafi notið góðs af áhuga og heimsóknum ferðamanna í gegnum tíðina. „Þjóðgarðurinn hefur verið ákveðinn segull undanfarin ár og dregið til sín mörg hundruð þúsund erlendra gesta ár hvert og samhliða því hefur átt sér stað mikil uppbygging af hálfu bæði ríkisins og sveitarfélagsins á svæðinu, þar sem útsýnispallar, göngustígar, bílastæði og fleira er víða eins og best verður á kosið.“

Hann nefnir nokkra staði sem njóti alltaf vinsælda meðal ferðamanna. „Það er auðvitað hægara sagt en gert að velja það, en ætli vinsælustu staðirnir síðustu ár hafi ekki verið Arnarstapi, Búðir, Djúpalónssandur og Ingjaldshólskirkja, auk þess sem Svöðufoss hefur verið að koma sterkur inn.“

Íslendingar og erlendir ferðamenn hafi þó ólíkar ferðavenjur. „Stór hluti erlendu gestanna hefur farið tiltölulega hratt í gegnum svæðið og tikkað í ákveðin box, ef svo má segja, tekið myndir á vinsælum stöðum og þess háttar, en Íslendingar ferðast kannski með öðrum hætti og á öðrum forsendum og hafa ef til vill lengri tíma til að staldra við og njóta alls þess sem Snæfellsbær hefur upp á að bjóða.“

Skarðsvík er draumi líkust.

Fjölbreytt afþreying

Fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum geta hæglega gert sér glaðan dag í Snæfellsbæ. „Eins og ég minntist á er aðgengi að náttúruperlum hér náttúrulega einstakt. Þegar komið er á svæðið er stutt á milli staða og hægt að upplifa alveg ótrúlega fjölbreytta flóru af náttúrutengdum upplifunum í auðveldu göngufæri fyrir litla eða lúna fætur. Það er nefnilega heilmargt hægt að gera í Snæfellsbæ sem er skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna.“

Möguleikarnir á afþreyingu séu ótæmandi. „Það er hægt að fara í sund og náttúrulaug, leika sér á einhverjum af þeim fjölmörgu ströndum sem hér er að finna og busla, eða stinga sér til sunds, í Breiðafirðinum fagra. Hér eru fjölmargir leikvellir með sparkvöllum, ærslabelgjum og svo framvegis og nokkur skógræktarsvæði sem hægt er að stoppa á, borða nesti og teygja úr sér.“

Ævintýrin eru aldrei langt undan. „Svo er auðvitað hægt að kíkja í hella, ganga upp að fjölda fossa og jafnvel ganga upp á gíga. Ég meina, hvaða krakki vill ekki hlaupa upp á eldfjall? Ég á sjálfur tvo stráka sem hafa skokkað upp á Saxhól og þeir draga ekkert undan í hetjusögunum og leggja mikla áherslu á eldfjalla-elementið,“ segir Heimir Berg og hlær.

Svörtuloft eru stórbrotin.

Lifandi samfélag

Þá er alltaf nóg um að vera í bænum og er sumarið í ár engin undantekning. „Það kom mér á óvart hversu lifandi samfélagið er og hvað það er í raun og veru mikið að gera hérna. Bærinn er iðulega fullur af lífi og sem dæmi um það má nefna að núna í júlí og ágúst verður fjölskyldufjör í Frystiklefanum á Rifi, þar sem dagskráin er sniðin að fjölskyldum. Þar koma fram meðal annars Jón Jónsson, Frikki Dór, Ásgeir Trausti, Vök, Emmsjé Gauti og fleiri tónlistarmenn, í bland við töframenn og vísindasýningar,“ segir Heimir Berg.

„Sumarið er auðvitað komið hjá okkur, en við ætlum að hlaupa það formlega inn núna um helgina þegar Snæfellsjökulshlaupið, algjörlega einstakur viðburður, fer fram,“ segir Heimir Berg að lokum, í sama mund og hann býður alla hjartanlega velkomna til Snæfellsbæjar í sumar og hvetur fólk til að kynna sér sveitarfélagið á nýjum ferðavef á vefsíðunni snaefellsbaer.is.