„Á hverjum degi alla vikuna höfum við hlaðið í ný tilboð og stærstu afsláttarsprengjurnar springa svo á sjálfum Svörtum fössara, sem er einmitt í dag. Þá erum við að bæta við tilboðum en önnur tilboð sem komu inn aðra daga vikunnar gilda ennþá svo lengi sem takmarkaða magnið er ennþá til. Öll tilboðin munu gilda út helgina, ef magnið leyfir. Svo kemur Stafræni mánudagurinn eftir helgina eins og rúsínan í pylsuendanum,“ segir Sófús Árni Hafsteinsson, þjónustustjóri ELKO.

„Það eru mjög margir sem nýta sér þessi tilboð og eru þá bara dálítið snemma í því að kaupa jólagjafirnar. Ég held að það skipti máli fyrir okkar viðskiptavini að geta með góðri samvisku gefið jólagjafir sem eru keyptar á Svörtum fössara og Stafrænum mánudegi því að í ELKO erum við með jólaskilamiða sem gildir út janúar á næsta ári. Í langflestum tilfellum geta þau sem fá jólagjöf úr ELKO jafnvel prófað gjöfina og séð hvort þeim líkar hún og skilað henni síðan ef hún hentar ekki og fengið inneign eða jafnvel endurgreitt.“

Það er hægt að gera ótrúlega góð kaup í ELKO á tilboðsdögum sem nú standa yfir.

Á Svörtum fössara og öðrum tilboðsdögum dettur inn aragrúi tilboða og er því stundum um að ræða takmarkað magn á mestu sprengjutilboðunum. „Við mælum eindregið með því að fólk skrái sig á póstlistann okkar á elko.is. Þau sem eru á listanum fá sendar upplýsingar um það hvaða vörur eru að fara á tilboð. Þau fá til dæmis dagstilboðin send, fá að vita um föstudagstilboðin fyrst allra og það sama gildir um tilboðin á Stafrænum mánudegi,“ segir Sófús Árni.

Geta aftur tekið á móti viðskiptavinum í búðunum

En eru þá Svartur fössari og Stafrænn mánudagur í raun einn stór tilboðsviðburður?

„Nei, þetta rennur aðeins saman en er þó vel afmarkað. Við keyrum tilboðin á Svörtum fössara í öllum verslunum okkar sem og í vefverslun en Stafrænn mánudagur er eingöngu í vefverslun. Viðskiptavinir okkar verða því að panta á ELKO.is á mánudeginum til að nýta tilboðin. Í fyrra var þetta raunar með öðru sniði. Þá keyrðum við Svartan fössara eingöngu í gegnum vefverslunina vegna þess að þá var tíu manna samkomubann. Þetta gerðum við til að koma í veg fyrir að fólk færi að hópast saman í biðröð fyrir utan verslanirnar okkar. Við erum búin að vera mjög spennt að geta tekið aftur á móti viðskiptavinum okkar í þessari tilboðsviku en pössum að sjálfsögðu vel upp á allar sóttvarnir og förum eftir reglum um leyfilegan fjölda viðskiptavina í verslunum en eins og staðan er núna munum við ekki þurfa að takmarka aðgang viðskiptavina að verslunum okkar.“

Tilboðin á Svörtum fössara hjá ELKO gilda fram á Stafrænan mánudag eða á meðan birgðir endast. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Engar raðir í vefversluninni

Sófús Árni greinir frá því að í ár verður Svartur fössari í fyrsta sinn í ELKO á Akureyri. „Við opnuðum verslunina þar í desember í fyrra, eða eftir tilboðsvikuna. Akureyringar eru því að fá Svarta fössarann hjá okkur í fyrsta skipti í ár í sinni eigin verslun fyrir norðan. Verslunin á Akureyri er eina ELKO verslunin á landsbyggðinni en við leggjum mikla áherslu á vefverslunina til að þjóna viðskiptavinum á landsbyggðinni.

Í dag þarf fólk ekkert að fara í verslun frekar en það vill vegna þess að í vefversluninni er hægt að kaupa öll tilboð sem eru í gangi og velja úr mörgum afhendingarmöguleikum. Ég get til dæmis nefnt að hér á höfuðborgarsvæðinu erum við með 65 afhendingarstaði fyrir smávöru og 70 á landsbyggðinni, til dæmis á N1-stöðvum, og því til viðbótar bjóðum við upp á heimsendingu. Við bjóðum þannig viðskiptavinum okkar upp á mjög mikinn sveigjanleika til að mæta þeirra þörfum. Á elko.is eru engar raðir og við komum vörunni til viðskiptavina eins fljótt og mögulegt er eða í síðasta lagi einum til tveimur dögum eftir að pantað er. Því til viðbótar erum við með þjónustusnillinga tilbúna á vaktinni í þjónustuverinu okkar sem geta aðstoðað og svarað spurningum frá morgni til kvölds. Hvort sem það er í gegnum Facebook, netspjall, síma eða tölvupóst.“

Fyrsti Svarti fössarinn hjá ELKO var 2017 sem mun hafa verið fyrsta árið sem Svartur fössari varð að nokkuð stórum viðburði hér á landi. Síðan hefur Svarti fössarinn vaxið stöðugt og er þetta orðið að risastórum viðburði um allt land, að sögn Sófúsar.

Nokkuð bar á því í byrjun að talað væri um Black Friday en nú virðist íslenskan hafa orðið ofan á. „Já, við komum nokkuð snemma með Svartan fössara inn í þetta og viljum frekar nota íslenskuna. Katrín Jakobsdóttir notaði tækifærið á Degi íslenskrar tungu og hvatti fólk til að nota frekar Svartan fössara en Black Friday og við tökum algerlega undir með henni. Og þetta á ekki bara við um Svartan fössara. Við reynum að nota íslensku heitin yfir alla þessa daga, hvort sem það er Dagur einhleypra, Svartur fössari eða Stafrænn mánudagur,“ segir Sófús Árni.

En hver er munurinn á tilboðum sem eru á Degi einhleypra, Svörtum fössara og Stafrænum mánudegi?

Sófús Árni segir Dag einhleypra snúast nær eingöngu um smávöru. „Á Svörtum fössara eru þetta allir vöruflokkar, mikil áhersla á verslanirnar í heild sinni og valdar vörur innan vöruflokka. Stafrænn mánudagur er svo langstærsti dagur ársins í vefversluninni en þá erum við með afsláttartilboð á mjög mörgum vöruflokkum.“

Og jólagjöfin í ár er ...

En hvaða vörur eru vinsælastar? Hver er jólagjöfin í ár?

„Það er mjög mismunandi milli ára hvaða vörur eru vinsælastar. Á Svörtum fössara eru stór heimilistæki á borð við ísskápa og þvottavélar mjög vinsælar vörur. Sama má segja um sjónvarpstæki. Þau eru alltaf vinsæl. Svo er það með jólagjafirnar. Mér sýnist Airfryer, eða loftsteikingarpottar, ætla að verða feikilega vinsælir í ár. Svo erum við að sjá mikla eftirspurn eftir heyrnartólum, nuddbyssum og öðrum heilsuvörum, hátölurum, snjallúrum, hlaupahjólum, hvers kyns tölvuleikjavarningi og ýmiss konar smáum raftækjum fyrir eldhúsið. Samt er óhætt að segja að maður rennir alltaf dálítið blint í sjóinn með vinsældir. Maður sér það alveg á Svörtum fössara að fólk er mikið að kaupa jólagjafir en það er einnig oft að gera góð kaup á stærri raftækjum fyrir heimilið.“

„Þjónustuver ELKO er almennt opið frá morgni til kvölds eða 9-21 virka daga og 12-21 um helgar og geta viðskiptavinir stólað á góða þjónustu hvort sem þeir eru í verslun eða vefverslun þar sem við leggjum okkur fram við að aðstoða viðskiptavini við að velja réttu jólagjafirnar,“ segir Sófús að lokum.