Hátíðin er haldin á Skógum í fallegri náttúru í nálægð stórfenglegra fossa. Það er ýmislegt hægt að gera til afþreyingar á Skógum en þar er fornbílasafn og skemmtilegt byggðasafn auk þess sem fallegar gönguleiðir eru á svæðinu.

Íþróttahús er á staðnum sem nýtt verður undir dagskrána ef veður leyfir ekki útiveru. Á Hótel Kverna er hægt að kaupa morgunverð á vægu verði. Einnig er hægt að kaupa gistingu þar og þá er morgunverður innifalinn.

Á Skógum er gott tjaldstæði þar sem er pláss fyrir bæði tjöld og húsbíla. Hátíðarskipuleggjendur reikna með að geta tekið á móti 1.500 manns á svæðið.

Hilmar Kristensson, Íris Kristjánsdóttir og Guðný Pálsdóttir hafa haft veg og vanda af skipulagningu hátíðarinnar en þau hafa lengi verið virk í félagsstarfi SÁÁ og skipulagt fjölda útihátíða.

„Við erum ungliðahópurinn í SÁÁ,“ segir Guðný hlæjandi, en bæði Hilmar og Íris hafa verið viðloðandi starfsemina í áratugi.

„Þetta verður fjölskylduhátíð og það er algjört skilyrði að skemmtunin verði vímuefna- og áfengislaus. Við stílum inn á ungt fólk, fjölskyldufólk og bara alla,“ segir Hilmar.

„Þó að við þrjú séum kannski í eldri kantinum þá viljum við leggja áherslu á að hátíðin er fyrir alla, ungt fólk, fjölskyldur og eldra fólk,“ segir Guðný og hin taka undir.

Félagsstarf SÁÁ hefur legið í dvala vegna Covid, en með hátíðinni verður það aftur sett í fullan gang. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

„Hátíðin er ekki eingöngu hugsuð fyrir þá sem tengjast SÁÁ á einhvern hátt heldur alla sem vilja koma og skemmta sér saman án áfengis og vímuefna,“ segir Hilmar.

„Þessar útihátíðir sem við höfum haldið hafa verið rosalega vinsælar. Við leggjum alltaf upp úr að hafa flotta skemmtikrafta og gleðin hefur verið mikil. Við höfum haldið Edrú-hátíð á Hlöðum, Laugalandi í Holtum, Staðarfelli í Dölum og fleiri stöðum. En þetta er í fyrsta skipti sem við erum á Skógum. Ég hef tekið þátt í mörgum svona útihátíðum og aðstaðan á Skógum er ein sú allra besta sem við höfum boðið upp á.“

„Þetta er algjör paradís og stutt frá bænum,“ skýtur Guðný inn í.

Íris segir að lengi vel hafi verið öflugt félagsstarf hjá SÁÁ en það hafi legið í dvala vegna Covid.

„Ég hef verið virk í félagsstarfi SÁÁ í mörg ár og það er svolítið það sem hefur gefið lífinu gildi. Með þessari útihátíð erum við að endurvekja félagsstarfið eftir Covid, en svo höldum við áfram með skemmtilega dagskrá í haust í Von í Efstaleiti,“ segir hún.

Á Edrú-hátíðum SÁÁ er alltaf mikið líf og fjör. MYNDIR/AÐSENDAR

Fjölbreytt dagskrá

Auk undurfagurrar náttúru á svæðinu sem býður upp á nóga afþreyingu er einnig heilmikil dagskrá í boði á hátíðinni sjálfri.

„Það verður barnaskemmtun og hoppukastalar. Regína Ósk og Svenni sjá um barnaskemmtunina og leiki,“ segir Íris.

„Það verður líka listasmiðja fyrir börn og hæfileikakeppni. Við leggjum mikið upp úr því að hafa eitthvað í boði fyrir alla fjölskylduna. Það verður fjöldasöngur sem Bjartmar Guðlaugsson stýrir og svo verður boðið upp á jóga, hugleiðslu og fleira.“

Hilmar bætir við að einnig verði sameiginlegt grill og dansleikur í íþróttahúsinu.

Listasmiðja fyrir börnin er fastur liður.
Brekkusöngur er tilheyrandi á útihátíð.

„Það verður sameiginlegt pylsupartí og vöfflukaffi, diskótek fyrir börn og unglinga og dansleikur bæði kvöldin, en við tilkynnum síðar hver sér um hann,“ segir hann.

„Það verða einnig AA-fundir alla dagana, fyrir karla, konur og ung SÁÁ.“

„Við fáum góðan stuðning frá mörgum fyrirtækjum og við viljum þakka þeim og listafólkinu fyrir að geta haldið þessa hátíð,“ segir Guðný.


Miðaverði á hátíðina verður haldið í lágmarki og er tjaldstæði innifalið í því. Fyrir þau sem ekki komast á eigin bíl verður boðið upp á sætaferðir frá Von í Efstaleiti. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í síma: 8969374 eða 8247646.