Að vita hvar við stöndum og að fylgjast með heilsunni hvetur okkur til að viðhalda góðum matar-, svefn- og hreyfivenjum. Við þekkjum flest öll mælingar á borð við skrefafjölda, svefn, hreyfingu, blóðsykur og mælingar í mataræði á borð við kaloríufjölda eða magn orkuefna.

Stöðug þróun hefur átt sér stað í sjálfsprófun undanfarin ár, þekktust eru þungunarprófin sem komu á markaðinn í kringum 1977, en með tilkomu Covid varð sprenging í sölu sjálfsprófa. Sjálfspróf eru einföld í notkun og auðvelda einstaklingum að skima fyrir sérstökum kvillum þannig að hægt sé að grípa inn í og fyrirbyggja frekari sjúkdóma.

„ Við höfum fundið fyrir miklum áhuga Íslendinga á að kanna og fylgjast með eigin heilsu. Í Lyfju hafa viðskiptavinir haft aðgang að fjölbreyttu úrvali sjálfsprófa sem mæla egglos, þungun, þvagfærasýkingu, DNA, hormónabreytingar í tengslum við breytingaskeið sem og fíkniefna- og kynsjúkdómapróf, “segir Karen Rúnarsdóttir, sviðsstjóri vöru-, birgða- og framleiðslusviðs Lyfju.

Samhliða aukinni áherslu á ábyrgð á eigin heilbrigði hefur úrval sjálfsprófa stóraukist. Nú getur þú tekið heimapróf til að varpa ljósi á ýmsa heilsufarsþætti, eins og vítamínbúskap líkamans, fæðuóþol, sýkingar og fleira. „Við viljum gera viðskiptavinum okkar kleift að taka stjórn á heilsu sinni á jákvæðan og fyrirbyggjandi hátt,“ segir Karen. „Við höfum strax fengið frábærar móttökur við þessum nýju sjálfsprófum sem kosta öll í kringum 2.000–3.000 krónur,“ bætir Karen við.

D-vítamín

D-vítamín er afar mikilvægt líkamanum og hjálpar til við upptöku kalks sem er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina. Einnig hefur D-vítamín áhrif á ónæmiskerfið og getur því dregið úr ýmsum sjúkdómum. D-vítamín myndast í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar en fæst einnig úr fæðu, svo sem feitum fiski og eggjarauðum. Þar sem ekki gætir mikillar sólar hér á landi, þá er sérstaklega mikilvægt að fylgjast með D-vítamínbúskap líkamans. Helstu einkenni D-vítamínskorts eru þreyta, vöðvamáttleysi, beinog/eða liðverkir og fleira.

D-vítamínprófið er tekið með ástungu á fingur og segir til um hvort gildin séu of lág, nægileg eða of há, á aðeins 10 mínútum.

Járn

Járn er mikilvægt til framleiðslu á hemóglóbíni (blóðrauða) sem flytur súrefni með blóðinu frá lungum um líkamann. Járnskortur er algengasta orsök blóðleysis og þá sérstaklega hjá kvenfólki á barneignaraldri. Járnskortur getur haft áhrif á ónæmiskerfið okkar sem er þá ekki eins vel í stakk búið að takast á við sýkingar og pestir.

Einkenni járnskorts geta verið þreyta, höfuðverkur, fölvi, fótaóeirð, orkuleysi og svimi. Prófið er einfalt og gert með ástungu á fingur og greinir járnbirgðir í blóði. Niðurstaðan kemur fram innan 5 mínútna.

Glútenóþol

Glútenóþol er meltingar-og þarmasjúkdómur sem felur í sér bólgur í smáþörmum vegna neyslu á glíadíni: prótínhluta glútens. Upptaka næringarefna getur takmarkast hjá einstaklingum með glútenóþol og algengt er að einkenni séu kviðverkir, langvarandi niðurgangur, þreyta, slappleiki, þyngdartap og fleira.

Celiac-prófið getur verið gagnlegt fyrir þá sem vilja athuga hvort þeir séu með glútenóþol. Ef prófið reynist jákvætt er mikilvægt að hafa samband við hjúkrunarfræðing eða lækni með ráðleggingar um næstu skref.

Prófið er framkvæmt með ástungu á fingur og birtast niðurstöður innan 10 mínútna.

Streptókokkar

Streptókokkar eru algeng bakteríur sem valda hálsbólgu. Helstu einkenni eru hálssærindi, eyrnaverkur, bólgnir hálskirtlar og hiti.

Prófið er fyrir þá sem vilja athuga hvort bakteríusýking í koki sé til staðar og greinir hvort um streptókokkasýkingu sé að ræða. Prófið er framkvæmt með stroku úr hálsi og niðurstöður birtast innan 5 mínútna. Ef niðurstaða reynist jákvæð er mikilvægt að hafa samband við hjúkrunarfræðing eða lækni varðandi ráðleggingar um meðferð.

„Við leggjum áherslu á fagmennsku og gæðavöru í Lyfju og eru öll prófin CE-merkt ásamt því að vera með ISO-vottun. Nákvæmni prófanna er á bilinu 80–97,6% en að sjálfsögðu er mælt með því að fólk leiti til læknis ef niðurstaðan þarfnast frekari skoðunar,“ segir Karen.

Prófin eru einföld í notkun og fylgja ítarlegar leiðbeiningar á íslensku. Hjúkrunarfræðingar Lyfju í Lágmúla og Smáratorgi eru til taks fyrir þá sem þurfa aðstoð við prófin. Einnig býður Lyfja upp á heilsufarsmælingar og heilsuráðgjöf án tímabókunar í völdum verslunum.

Sjálfspróf

Til að ákvarða eggbúsörvandi hormón.
Til greiningar á streptókokkum A með hálsstroku.
Til ákvörðunar á D-vítamín magni í blóði manna.
Til að greina hvítfrumur , blóð, nítrít og prótein í þvagi.
Til að greina ferritínmagn í blóðsýni.
Til glútenóþolskimunar á glútenmótefnum í blóði.