„Pfaff var stofnað af afa mínum árið 1929 og er eitt að fáum fyrirtækjum sem enn eru í eigu sömu fjölskyldunnar og á sömu kennitölunni,“ segir Margrét en lengi framan af var saumavélin helsta vörulína Pfaff, sem hófst með því að Magnús Þorgeirsson, afi Margrétar, fékk umboð hjá Pfaff í Þýskalandi með því að festa kaup á sex saumavélum.

Hefur allt gengið snurðulaust fyrir sig á þessum langa tíma sem fyrirtækið hefur starfað?

„Nei, nei – á svona löngum tíma hafa komið upp alls konar tímabil þar sem reksturinn hefur verið í járnum. Ytri breytingar eins og stríð, heimskreppur og fleira hafa auðvitað sett mark sitt á reksturinn og við vorum í langan tíma gríðarlega stór í að þjónusta prjóna- og saumaiðnaðinn á Íslandi, sem síðan fluttist að mestu úr landi og sá tekjugrunnur hvarf svo til. Við höfum því á þessum langa tíma þurft að aðlaga reksturinn í takt við breytt innri og ytri rekstrarskilyrði. Ég hef sagt það oft að það er okkar gæfa hjá Pfaff að hafa verið óhrædd við að breyta rekstrinum. Fyrirtækið sem ég rek samanborið við þegar afi og pabbi ráku það hefur gjörbreyst á milli kynslóða. Við höfum verið svo lánsöm að hafa náð að aðlaga reksturinn nútímanum og því sem við sjálf höfum haft áhuga á. Ég held að það sé banabiti margra fyrirtækja, ekki bara fjölskyldufyrirtækja, að þora ekki að gera breytingar og staðna,“ segir Margrét.

Starfsfólkið algjörlega frábært

Margrét segir að mikilvægi starfsfólksins sé gríðarlegt. „Rekstur fyrirtækis eins og Pfaff, sem er frekar sérhæft, væri ekkert án starfsfólksins. Við byggjum okkar rekstur algjörlega á sérhæfðu starfsfólki, sem er allt algjörlega frábært. Það er gæfa okkar númer eitt, tvö og þrjú og grunnurinn í okkar rekstri í gegnum árin að hafa verið svo lánsöm að hafa laðað að okkur gott fólk sem hefur verið lengi hjá okkur. Það skiptir máli að halda í þekkingu en tapa henni ekki ítrekað út um gluggann,“ segir Margrét og bætir við: „Þegar ég fer í frí þá sakna forstjórans ekki margir – en þegar aðrir fara í frí virðast allir bíða eftir að viðkomandi komi til baka. Ég held að það sama eigi við í mörgum fyrirtækjum,“ segir Margrét brosandi.

Eins og áður segir hefur Margrét stýrt Pfaff í þrjátíu ár. „Ég hafði aldrei komið nálægt rekstrinum fyrr en ég var tæplega þrítug. Ég vildi aldrei vinna hjá fyrirtækinu, en þegar ég kom heim úr framhaldsnámi ákvað ég að prófa í eitt ár og síðan eru liðin rúm þrjátíu ár. Heilt yfir er þetta búið að vera ofboðslega skemmtilegur og gefandi tími,“ segir Margrét, sem finnst alltaf jafn gaman að mæta í vinnuna. „Ég hlakka alltaf til á morgnana og mér finnst aldrei neitt mál að skreppa í vinnu um helgar. Ástríðan er enn til staðar. Það kann kannski að breytast á næstu árum og við þurfum kannski að fara að huga eitthvað að því, en enn þá er það þannig að mér finnst alltaf jafn gaman að mæta til vinnu.“

Hvað felst í því að reka fyrirtæki á Íslandi?

„Til þess að reka fyrirtæki sem nýtur velvildar þurfa nokkur atriði að vera til staðar. Ég hef alltaf litið á hlutina þannig að það þurfa allir að græða. Fyrirtækið og eigendurnir þurfa að græða því ef þú ert að reka fyrirtæki í tapi þá endar það með ósköpum fyrir rest. En starfsfólkið þarf einnig að græða, viðskiptavinurinn þarf að græða og samfélagið allt þarf að græða. Ef þú ert að reka fyrirtæki þannig að þú ert eiginlega helst að svína á starfsfólkinu þínu og á sama tíma að reyna að kreista það allra mesta út úr viðskiptavinunum þá getur það gengið í einhvern tíma. En til þess að verða farsæl til áratuga verður þú að vera með þennan þátt í mjög góðu jafnvægi. Við viljum að öllum sem eru að vinna hjá okkur líði vel og að hver viðskiptavinur finni að þessu fyrirtæki er ekki alveg sama um sig. Fyrirtæki verða einfaldlega að starfa í sátt við sitt samfélag. Í dag gengur vel hjá okkur en auðvitað þurfum við alltaf að vera á tánum – það má aldrei sofna á verðinum.“

Þetta viðtal birtist í sérblaði Samtaka atvinnulífsins sem gefið var út með Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. september 2022.