Margt er ólíkt með sölu á hefðbundinni fasteign og sumarbústað og því skiptir mjög miklu máli að velja fasteignasala sem er vel kunnugur öllum málum er tengjast sölu á sumarhúsum, segir Jón Rafn Valdimarsson, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Mikluborg. „Það eru fjölmörg ólík atriði sem þarf að hafa í huga. Þar má t.d. nefna mál á borð við forkaupsrétt núverandi eða fyrrverandi landeiganda, sem er stundum í þinglýstum gögnum hjá sýslumanni, og rík upplýsingaskylda hvílir á seljanda að tilvonandi kaupandi sé upplýstur um slík atriði.“

Einnig þarf að huga að staðfestingu á landskiptum sem kveðið er á um í jarðalögum frá 2004, en reyndur fasteignasali veit hvaða leiðir þarf að fara í þeim málum, bætir Jón Rafn við. „Síðan má nefna önnur atriði eins og legu lóðar og teikningar af sumarhúsinu þar sem fram kemur hvernig hann er uppbyggður, en þar skipta undirstöður miklu máli. Þegar kemur að fjármögnun eru nefnilega lánastofnanir almennt hrifnari af því að veita lán ef undirstöðurnar eru traustar.“

Sumarbústaðirnir eru misstórir og margt í boði. MYNDIR/JÓN RAFN VALDIMARSSON

Rétt auglýsing gerir kraftaverk

Réttur fasteignasali getur að sögn Jóns einnig haft áhrif á söluverð, söluhraða og einnig almenna kynningu á húsinu, þannig að náð er til sem flestra sem kunna að hafa áhuga. „Ég tek t.d. eftir því í starfi mínu að auglýsingar í prentmiðlum vigta þyngra þegar kemur að sumarhúsum heldur en t.d. íbúðarhúsnæði. Það virðist vera að margir kaupendur einfaldlega uppgötvi ekki bústað sem einungis er auglýstur á vefsíðum fjölmiðla, sökum þess að viðkomandi kann ekki að þrengja leitina út frá svæði, stærð, herbergjafjölda og öðrum þáttum.“

Hann nefnir sem dæmi að ein birting í vel dreifðum prentmiðli geti stundum skipt sköpum. Því sé mikilvægt að velja fasteignasala sem er ekki bara sýnilegur á vefmiðlum heldur prenti líka. „Kaup á sumarhúsum eru merkilega oft skyndihugdetta hjá kaupendum. Fyrir vikið er sýnileiki og kynning á húsi því mjög mikilvægur þáttur.“

Góðar myndir selja

Ekki er síður mikilvægt að mati Jóns að velja fasteignasala sem getur tryggt góða myndatöku af bústaðnum. „Mér finnst þessi þáttur sérstaklega vanmetinn. Myndir þurfa að vera mjög góðar því að í mörgum tilvikum eru kaup á sumarhúsi ákvörðun sem fjölskyldur taka í sameiningu.

Sumarbústaður á fallegum stað með fallegu umhverfi.

Mögulega náðu bara foreldrar að skoða húsið og þurfa því að styðjast við góðar myndir þegar sumarhúsið er kynnt öðrum fjölskyldumeðlimum. Drónamyndir og vel lýstar myndir af bústað eru því mikilvægar og geta haft töluverð áhrif á endanlegt söluverð.“

Fasteignasali þarf líka að kynna sér vel sumarhúsafélagið á svæðinu og kanna hvort einhverjar fyrirhugaðar framkvæmdir séu fram undan. Um leið þarf að kanna hvert árlegt aðildargjald er að sumarhúsafélagi. „Síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að fasteignasali sé mjög vel kunnugur deiliskipulagi sumarhúsasvæðisins. Þar spila inn þættir eins og hversu mikið byggingarmagn má byggja, stærðir á lóðum og frekari uppbygging sem hefur verið leyfð og getur haft áhrif á núverandi útsýni, umferð og annað sem getur skipt miklu máli við endanlegt val á draumakotinu.“

Sumarbústaður sem nú er til sölu hjá Mikluborg.

Suðurlandið er vinsælt

Langstærsti þátturinn sem hefur áhrif á verðlagningu sumarhúsa er staðsetningin, segir Jón. „Það á svo sem við um nær allar fasteignir en svo koma aðrir þættir inn, t.d. hvort bústaðurinn sé á eignarlandi, er heitt vatn til staðar, stærð lóðarinnar, má stækka bústaðinn, hvernig hefur viðhald verið í gegn um árin og svo eins og ég nefndi áður, þá hafa undirstöður sitt að segja.“ Aðspurður um vinsælustu sumarhúsasvæðin segir hann Grímsnesið tróna vel yfir önnur svæði.

Almennt megi þó segja að Suðurlandið sé vinsælast og þá helst svæði sem eru helst ekki í lengri fjarlægð en sem nemur klukkustundar akstri. „Það má nefna svæði eins og Öndverðarnes, Kiðjaberg, Þrastaskóg og svæðin er liggja meðfram Soginu upp að Úlfljótsvatni.

Á Vesturlandi er Skorradalurinn vinsæll og einnig svæði innan Hvalfjarðarsveitar auk þess sem Kjósin er einnig afar eftirsóttur staður.“ Auk fyrrnefndra svæða telur Jón að önnur svæði eigi eftir að koma sterk inn á næstu árum. „Ég tel að meiri uppbygging á sumarhúsum eigi eftir að eiga sér stað í grennd við Þingvelli á komandi árum og einna helst mætti nefna Skálabrekkulandið sem er einstakt land með óhindruðu útsýni yfir vatnið.

Áform eru einnig uppi um uppbyggingu fleiri sumarhúsasvæða við Skorradalsvatn á næstu árum.“

Ólík vaxtakjör

Það eru ýmsir lánamöguleikar í boði fyrir kaupendur sumarhúsa, að sögn Jóns. „Viðskiptabankarnir eru allir að bjóða upp á lán fyrir sumarhús, en almennt eru vaxtakjörin nokkuð hærri en býðst þegar tekið er lán með veði í íbúðarhúsnæði. Fyrir vikið eru margir kaupendur að fjármagna kaup á sumarhúsum með veði á sínu eigið íbúðarhúsnæði til að fá betri vaxtakjör.“