„Eðlilega óx fyrirtækinu ásmegin við góða vinnuaðstöðu. Í febrúar verður opnuð ný og glæsileg verslun Vinnupalla að Vagnhöfða 7 þar sem boðið verður upp á enn frekari breidd í vöruúrvali og rými til frekara umfangs. Það er að sjálfsögðu þannig að fyrirtækið hefur vaxið langt út fyrir nafngiftina og ekki aðeins eru seldir og leigðir vinnupallar hjá Vinnupöllum heldur flest allt sem tengist öryggi við framkvæmdir. Auðvelt er að fá vörur heimsendar, aðstoð við uppsetningar og við að taka niður/ saman. Þjónustustig er hátt og vinnugleðin við völd. Þegar velja skal vöru til sölu hjá Vinnupöllum er grunnatriði að hún styðji við sýn fyrirtækisins og markmið, sem eru að veita framúrskarandi þjónustu með gæðavörum á góðu verði. Fallvarnir eru okkur ofarlega í huga sem og persónuvarnir. Það eru seldir stigar, tröppur og pallar fyrir fjölbreyttar vinnuaðstæður, fallvarnir sem belti, línur og taugar ásamt persónuhlífum eins og hjálmum, gleraugum, rykgrímum, hönskum og ljósum. Verksvæði geta auðveldlega verið örugg með girðingum, göngubrúm og umferðaröryggisvörum. Stoðvörur til að auðvelda framkvæmdir eru meðal annars hitablásarar knúnir dísel, rafmagni, vatni eða gasi, iðnaðarryksugur og vatnssugur.
Persónuleg þjónusta
Vinnupallar hafa ávallt lagt mikla áherslu á öryggi vinnustaða og persónulega lausnamiðaða þjónustu. Viðskiptavinum er kennd rétt notkun varanna, vakin er athygli á mikilvægi öruggra lausna og árvekni við störf hverju sinni. Öryggismenning í mannvirkjageiranum fer batnandi en er þó sífelld endurtekning, því aðstæður breytast hratt á verkstöðum. Einnig er iðnaðurinn ríkur af fjölmenningu sem krefst þess að öryggisupplýsingar séu aðgengilegar og sýnilegar á fleiri tungumálum. Selt og leigt er jafnt til almennings sem fagaðila,“ segir Sigríður Hrund.

„Það er linnulaus vinna að byggja upp fyrirtæki svo vel sé. Ehf. þýðir í raun ekkert frí og yfirlega mikil öllum stundum. Mannvirkjaiðnaður á Íslandi er orðinn heilsársiðnaður og linnulaus umsvif í framkvæmdum – bæði hjá fyrirtækjum og svo einnig vantar íbúðir fyrir hratt aukinn mannfjölda landsins. Að reka fyrirtæki á Íslandi er ekki fyrir hvern sem er, ekki síst lítið viðkvæmt innflutningsfyrirtæki. Hráefnisverð hefur margfaldast sem og flutningskostnaður, launakostnaður er hár og vaxtakjör afar íþyngjandi. Þetta er raunveruleikinn. Það er athyglisvert að gott viðhorf og framúrskarandi þjónustulund er einkennismerki Vinnupalla.“
Eina konan í hópnum
Sigríður Hrund bendir á að í geira sem starfar umtalsvert utandyra séu aðstæður krefjandi, enda viðrar ekki alltaf vel á landinu. Aðstæður á framkvæmdasvæðum geti hratt orðið varhugaverðar og jafnvel hættulegar, hægi á framkvæmdum sem eru kostnaðarsamar og framlegð tapist skjótt. Að þjónusta hratt, vel og skilvirkt með framúrskarandi þjónustulund og viðhorfi góðs teymis, sé því kjarni Vinnupalla.

„Ég er eini kvenmaðurinn í teyminu en finn aldrei fyrir kyni, aldri eða uppruna. Við erum frábært ólíkt teymi sem vinnur vel saman. Orðin sem birtust á töflunni á stefnumótunarfundi nýliðnum um hvað væri gott við að vinna saman voru: notalegt umhverfi, vinskapur, gott tempó, tölum íslensku, brosum, erum góð við hvert annað, veitum framúrskarandi þjónustu, höfum gæði ávallt í huga, með metnað og kraft. – Ég verð að viðurkenna að fyrir utan að fá ryk í augað þá er þetta hráefni í góða vinnudaga til lengri tíma. Svo má ekki gleyma hlaðvarpinu Vinnuskúrinn, sem ræðir við öll kyn óháð uppruna um margvísleg málefni tengd mannvirkjaiðnaði og framkvæmdum,“ segir Sigríður Hrund.

„Vinnupallar leggja metnað í að sýna samfélagslega þátttöku, ekki aðeins með því að efla öryggisvitund við framkvæmdir heldur með því að styrkja málefni. Vinnupallar styrkja til dæmis Lukku Mörk Sigurðardóttur Blomsterberg, sem er besta klifurkona landsins aðeins 19 ára gömul; hugmyndasmiði sem eru að búa til námsefni um frumkvöðlafræði og sköpunargleði fyrir 6-9 ára börn og hlaðvarpið Vinnuskúrinn sem ræðir við öll kyn um margvísleg málefni tengd mannvirkjaiðnaði og framkvæmdum. Það er gefandi og gaman að tileinka hluta góðs reksturs að samfélagslegri þátttöku og vera þannig hluti af einhverju sem er stærra en við sjálf,“ segir Sigríður Hrund. „Þannig erum við samferða í að vera samfélagið sem við viljum búa í.“