Skólinn býður upp á danskennslu á ellefu stöðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Kennt er í hópum frá 5 ára aldri upp í 25 ára og eldri.

„Við kennum fjölbreytta street- dansstíla, eins og Hiphop, Dancehall, Waacking, House, Popping og fleira. Við leggjum áherslu á hópefli, erum með frábært kennarateymi og setjum hug og hjarta í það sem við gerum,“ segir Brynja Pétursdóttir, danskennari og eigandi skólans.

„Það sem í raun keyrir skólann áfram er félagslegi þátturinn. Það er mikill vinskapur og virðing innan kennarateymisins og danshópanna, sem dreifist til nemenda okkar. Gildin okkar eru að vinna vel og hafa gaman af því. Við þekkjum það á eigin skinni að elska að dansa og vera feimin við að koma í danstíma, þess vegna skiptir það okkur máli að styrkja sjálfsmynd þeirra sem koma í tíma. Okkar hlutverk er að gefa fólki tækifæri til að nálgast áhugamál sitt í vernduðu og jákvæðu umhverfi. Það er jafn mikilvægt fyrir bestu dansara landsins og þau sem eru að koma sér til dægrastyttingar. Hér fá allir að njóta sín.

Á nemendasýningum sitja dansararnir hægra megin við sviðið, sem þau kalla partímegin, og fylgjast með sýningunni.

Brynja segist stolt af því hvað skólinn er með flottan hóp leiðbeinenda sem er annt um nemendur sína og vilja að þeim líði vel í danstímum.

„Við gerum okkur grein fyrir því að sumir sem koma í tíma eru að finna langþráð heimili í dansinum, eða eru til dæmis ný á Íslandi og vilja mynda tengsl. Aðrir eru að koma til að verða ofboðslega góðir og vilja ná langt. Við viljum geta mætt fólki þar sem það er. Hér er fólk af öllum getustigum, öllum litum, trúarbrögðum, kynjum. Bara öll flóran af fólki,“ útskýrir hún.

Nemendurnir taka þátt í ýmiss konar viðburðum og koma víða fram.

Danstímar sem henta byrjendum og lengra komnum

Dansskólinn býður upp á fjölbreytta stíla eins og til dæmis Popping og Break, sem er vinsælt hjá strákum sem vilja dansa, Waacking og Dancehall sem er vinsælt hjá stelpum sem vilja bæta sviðsframkomu og fleira. Flestir sem sækja tíma koma tvisvar í viku í Hiphop og geta svo bætt við sig aukatímum og verið oftar í viku að dansa.

„Við höldum nemendasýningar eftir hverja önn þar sem allir dansararnir okkar fara á svið. Það eru uppáhalds dagarnir og umgjörðin hefur verið eins síðan 2012, dansararnir sitja allir hægra megin við sviðið, sem við köllum ‘partýmegin’ og fylgjast með allri sýningunni. Nemendurnir eru kjarninn og sýningin er fyrir þau, þess vegna myndast alltaf rosalega skemmtileg stemning, sem minnir líka á hjarta allra street-dansstílanna, en menningin snýst um samkomur fólks. Öll þessi flottu dansform verða til á dansgólfinu,“ segir Brynja.

„Mikilvægt er að búa til vettvang sem hentar öllum fjölbreytileikanum okkar. Við setjum upp fjölda viðburða á ársgrundvelli þar sem dansararnir okkar fá tækifæri til að sýna sína list. Við höldum þrjár keppnir árlega: Street dans-einvígið fyrir framhaldsnemendur 16 ára og eldri og Krakka-einvígið fyrir 12-15 ára. Það eru einstaklings- og tvíliðakeppnir, svo er einnig hópakeppni fyrir breiðari aldurshóp.

Sýningarhóparnir okkar hafa unnið keppnir hér heima og erlendis, þau hafa komið fram á flottum viðburðum með Reykjavíkurborg, Hinu húsinu, Barnamenningarhátíð, Unglist, Samfés, Eurovision, Adidas, Coca Cola og sést í ýmsum auglýsingum og uppákomum. Einnig er beðið um dansara frá okkur í fjölbreytt verkefni.“

Það er mikill vinskapur og virðing innan kennarateymisins og danshópanna, sem dreifist til nemenda skólans.

Eftirspurn eftir námskeiðum mikil

Hóparnir skiptast í fjögur getustig, byrjendur, ‘all levels’, miðstig og framhaldshópa. Haustönnin hefst 14. september og nú þegar eru sum námskeið farin að fyllast, enda hafa þau verið mjög vinsæl undanfarin ár.


Allar upplýsingar er að finna á vefsíðunni brynjapeturs.is.