Vogue samanstendur af nokkrum fyrirtækjum sem sameinuðust í eitt. Eitt þeirra er Lystadún Snæland, en Halldór Snæland á heiðurinn af nýju línunni sem nú hefur litið dagsins ljós. Nýja línan er mjög breið og samanstendur af allt frá einföldustu rúmum upp í hágæða náttúruleg rúm úr 100% náttúrulatexi.

„Nýja dýnulínan er framþróun á því sem við höfum verið að gera hingað til. Þetta er nýjasta skrefið hjá okkur í þá átt að fylgja nýjum straumum í efnum og dýnum. Náttúrulatex-dýnan er ótrúlega flott innlegg inn í þetta náttúruvæna umhverfi sem allir eru að sækjast eftir. Þarna ertu kominn með dýnu úr efni sem er náttúruvænna en nokkuð annað,“ segir Halldór.

„Náttúrulatex er unnið úr latexmjólk sem kemur úr gúmmítrénu. Latexið er síðan notað til að framleiða þessar flottu dýnur sem eru til í ýmsum stífleikum. Þær eru mun meira fjaðrandi, teygjanlegri, meira hitatemprandi og hreyfingadempandi en efnin sem við höfum verið að nota hingað til. Það lifa ekki í þessu rykmaurar og hvaðeina, þetta er ótrúlega flott efni.“

Nýju rúmin standast öll OEKO TEX 100 staðla sem Halldór útskýrir að þýði að engin hættuleg innihaldsefni séu í neinu af því sem notað er til dýnugerðarinnar.

„Það er sama hvort við tölum um rennilása eða svamp eða önnur efni sem við erum að nota, þetta er allt eins umhverfisvænt og hugsast getur. Af því hvað við erum litlir framleiðendur á alþjóðlegan mælikvarða eigum við auðvelt með að fylgja nýjungum á hráefnamarkaðnum og við veljum þau efni í okkar framleiðslu sem falla að þeirri umhverfisstefnu sem þjóðfélagið er að sigla inn í.“

Í síðustu viku var kynnt ný lína af rúmum sem er vottuð umhverfisvæn framleiðsla.

Fylgist vel með nýjungum

Halldór ólst upp í kringum framleiðslu rúma og þekkir því þann heim frá blautu barnsbeini.

„Ég er búinn að vera í dýnuframleiðslu frá árinu 1969 en ég vinn með öll nýjustu efnin á markaðnum. Það verður engin dýnuframleiðandi langlífur sem fylgist ekki með nýjungum. En dýnurnar okkar byggjast eftir sem áður á okkar gömlu góðu gildum um að enginn þurfi að sofa á verri dýnu en hann vill. Þessi gamla mýta um að maður geti sofið á hverju sem er, hún er ekki rétt. Öll höfum við axlir, mjaðmir, mjóbak og háls og það er ekki sama á hverju við sofum,“ segir hann.

„Fólk á ekki að sætta sig við að sofa á vondum dýnum. Ef skórnir meiða þig, ef sólinn er að detta undan eða þú ert kominn með hælsæri þá ertu fljótur að átta þig á því að meinsemdin er í skónum. Alveg sama gildir með flíkurnar þínar, ef þér er kalt þá ferðu í hlýrri peysu. Nákvæmlega það sama ætti að gilda um rúmin, það er svo margt sem hægt er að gera til að hvílan þín gefi þér þá hvíld sem hún á að gera eða getur gert. Fólk er ekki nógu duglegt að leita sér upplýsinga um rúm og koma og prófa þau. Oft er fólk að velja sér dýnu út frá því hvernig rúmi frændinn liggur á eða amman eða afinn eða pabbinn eða eitthvað þvíumlíkt, en það er engin lausn sem hentar fyrir alla í þessum heilsurúmum, þú þarft að finna þitt prívat og persónulega heilsurúm. Það getur verið að þú eigir tvíburabróður sem á alls ekki að sofa á sams konar rúmi og þú af því hann er kominn með slæma öxl eða slæma mjöðm eða eitthvað slíkt. Aðstæður einstaklinga geta verið gjörólíkar þegar farið er að velja hvílu.“

Dís er ný breið lína heilsurúma, allt frá einföldum rúmum upp hágæða náttúruleg rúm. Þau eru sérstaklega framleidd með þarfir viðskiptavina í huga.

Klæðskerasniðnar dýnur

Halldór segir að undanfarna áratugi og sérstaklega undanfarin ár hafi hann unnið út frá því að ólíkar dýnur henti ólíku fólki. Þess vegna eru dýnurnar hjá Vogue klæðskerasniðnar fyrir hvern og einn en framleiðslan er í sama húsi og verslunin í Síðumúlanum.

„Við leggjum áherslu á að dýnan sé sérsniðin fyrir notandann. Meira að segja í hjónarúmum þar sem tveir ólíkir einstaklingar liggja á sömu dýnunni. Hérna áður fyrr var keypt ein dýna sem átti að henta báðum. En í fleiri tilfellum en ekki er það röng nálgun. Þó einstaklingar séu jafn þungir þá eru karlmanns- og kvenmannslíkamar ólíkir í laginu og gera aðrar kröfur til dýnunnar. Ég er ekki að segja að það geti ekki komið fyrir að fólki geti legið á sömu dýnu, þá væri ég að skrökva, en það er miklu algengara en ekki að til að fólk nái fullkominni hvíld þurfi það að hugsa um sína hvílu alveg óháð því hvað hentar makanum. Við getum útbúið hjónarúmin þannig að þau henti einstaklingum með mjög ólíkar þarfir. Kannski er mikill þyngdarmunur, ólík líkamsbygging og alls konar mein sem hrjá annan einstaklinginn en ekki hinn. Við reynum að horfa til þess þegar við veljum dýnur fyrir fólk.“

Halldór tekur dæmi um hjónarúm sem er 180 cm á breidd. Hann segir að það sé þá sett saman út þremur dýnum sem liggja á sökkli og efst er heil yfirdýna sem getur þó verið mismunandi að stífleika fyrir hvorn einstakling fyrir sig.

„Undir þessari dýnu liggja tvær burðardýnur sem geta verið mjög ólíkar. Við framleiðum allar gerðir af dýnum, pokagormadýnur, dýnur úr kaldsvampi, þrýstijöfnunarsvampi, 100% latexi, og úr 100% náttúrulatexi, eins og er í nýjustu dýnunum okkar,“ útskýrir hann.

Þegar fólk kaupir dýnu frá Vogue hefur það fjórar vikur til að átta sig á hvort dýnan hentar eða ekki. Fólk getur þá komið og breytt um stífleika eða breytt alveg um dýnugerð innan þess tíma, en Halldór segir að það sé mikilvægt að vera vakandi fyrir þessu því oft er erfitt að átta sig á hvort rétt dýna hafi verið valin eftir stutta heimsókn í verslunina.

Útlitið skiptir máli

Halldór tekur fram að fyrir utan þægindi dýnunnar sé útlit hennar farið að skipta fólk meira máli en áður.

„Fólk vill að rúmið samræmist útliti íbúðarinnar að öðru leyti, þá meina ég bæði með tilliti til lita og efnisvals. Áður fyrr var svefnherbergið svolítið tabú, þú bauðst fólki inn í stofu að skoða nýja sófann en það var ekkert verið að bjóða fólki inn í svefnherbergi að skoða nýju dýnuna í svarta og hvíta leðurlíkinu. En í dag er þetta ekki svoleiðis, við framleiðum dýnur og höfðagafla í mörgum gerðum og óteljandi litum og áklæðum svo þú getir persónugert þitt svefnherbergi svo það passi inn í þinn smekk og þinn stíl,“ segir hann.

„Vogue er stór verslun, við seljum líka alls konar húsgögn, gluggatjöld og annað fyrir heimilið. Hjá okkur getur fólk auðveldlega mótað umhverfi sitt á skemmtilegan máta og frjálslegri máta en fólk hefur hingað til gert.“

Efnin í nýju rúmunum stand­ast öll OEKO TEX 100 staðla sem þýðir að engin hættuleg innihaldsefni eru í þeim.
Rétt val á efni skiptir miklu máli.