Beta hefur haldið mörg sjálfshjálparnámskeið og fyrirlestra og næsta námskeið hennar verður á dagskrá þann 9. janúar. Hlutverk hennar er að virkja einstaklinga til ábyrgðar á eigin heilsu og styðja fólk í átt að betri lífsstíl og betra lífi.

„Ég er að halda námskeið sem ég hef á netinu og bera nafnið Betra líf sem er sex vikna prógramm. Ég hef notast við eigin aðferðafræði og heildræna nálgun. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Það er svo frábært að sjá árangur hjá fólki sem taldi sig hafa reynt allt og var nánast búið að gefast upp. Ég nota fræðslu og kennslu til að ná árangri. Að skilja hvernig líkaminn virkar er lykillinn að árangri til frambúðar, eða ég tel það, og námskeiðin mín hafa sýnt að það er það sem virkar,“ segir Beta.

Síðasta sumar vann Beta sem kokkur á Vagninum á Flateyri þar sem hún naut þess að vera með fólkinu og náttúrunni. MYND/KRISTBORG BÓEL

Markaðssetning á vítamíni og kollageni

Beta er með fleiri járn í eldinum sem tengjast vítamíni.

„Ég er á fullu núna að markaðssetja vítamín-línuna mína, Beta Nordic vítamín, og kollagen sem ég hef verið að þróa síðustu tvö árin. Ég fann að ég gat ekki farið fram með látum þegar ég byrjaði því ég vildi vera viss um að ég væri með góða vöru. Ég hef því lítið markaðssett en þar sem ég er fullviss núna um að vítamínin mín, sem eru alveg ný hönnun, eru frábær þá er ég tilbúin að stökkva fram,“ segir Beta.

Spurð hvaða vítamín hún sé með segir hún: „Liposomal vítamín og fæðubótarefnin sem eru umlukin tvöfaldri fituhimnu, fosfólípíðum, sem eykur til muna upptöku í meltingarvegi og skilar sér þannig betur til vefja og frumna. Þau eru fljótandi og eru blönduð í vatn, djús eða hristinga. Það eru til dæmis margir sem þurfa ekki lengur í B12-vítamínsprautur eftir að hafa tekið inn B12 liposomal.“

Ég er nýbúin að taka inn nýja vöru sem er kollagen. Ný þróun er í hvernig fiskroðið er unnið og því er duftið fínna og meiri líkur á að líkaminn taki það upp og nýtingin er betri. Þetta er bara byrjunin og við erum á leiðinni með vörurnar til Skandinavíu og svo vonandi víðar,“ segir Beta.

Fæ víst bara 24 tíma í sólarhringinn

Hvernig blandar þú þessu saman við að vera starfandi næringarfræðingur?

„Ég hef verið smá efins með það. Mér finnst erfitt að blanda þessu saman og bendi iðulega mínum skjólstæðingum á að fara í apótek eða heilsubúðir og spyrja um vöruval í þeim bætiefnum sem ég ráðlegg. Mér finnst erfitt að segja þeim að velja mitt en mér finnst það líka erfitt að segja það ekki því ég er sannfærð um að ég er með mjög góða og heiðarlega vöru.

Sem næringarfræðingur hef ég dregið úr þeirri vinnu. Ég fæ víst bara 24 tíma í sólarhringinn eins og flestir, þannig að ég vinn núna hjá Heilsuvernd einn til tvo daga í viku og er svo með einn dag í viðtalstíma tengt heilsugæslu Heilsuverndar. Mér finnst það reyndar frábær þróun að fá næringarfræðinga inn á heilsugæslurnar og ég tel að við getum unnið frábært starf með læknum og hjúkrunarfræðingum sem þar vinna. Ég get eiginlega ekki hugsað mér annað en að vinna einn til tvo daga í viku sem ráðgjafi þannig að líklega, á einhverjum tímapunkti, þá stækkar fyrirtækið mitt nógu mikið og ég get ráðið inn fólk.“

Hvernig sérð þú nýtt ár fyrir þér?

„Vonandi gott. Ég mun halda áfram að vinna hjá Heilsuvernd og sinna vítamínframleiðslunni minni. Síðan er stefnan tekin á að halda fyrirlestur eða hálfgert uppistand 12. janúar. Þar ætla ég að nota sögu mína og reynslu til að miðla áfram á skemmtilegan hátt. Ég er byrjuð að selja inn á fyrirlesturinn á vefsíðunni minni í formi gjafabréfs og vona að sem flestir skelli einu í jólapakkann í ár þar sem ég lofa skemmtilegri kvöldstund með fróðleik og skemmtun,“ segir Beta.

Á einstakri kvöldstund fjallar Beta á lifandi og einlægan hátt, og með dæmum úr eigin lífssögu, um þær oft á tíðum óhefðbundnu og umdeildu leiðir sem færðu henni lykilinn að bættum lífsgæðum eftir lífshættuleg veikindi. Í þeirri baráttu nýtti Beta sér næringarfræði, eigið innsæi, jákvæð samskipti, dans, leik og ekki síst ótal ferðir út fyrir þægindarammann.

„Svo er það að lifa og njóta. Ég er dugleg að gera skemmtilega hluti, ferðast og vera í samskiptum við góða vini eða fjölskyldu,“ segir Beta.

Fyrirlesturinn fer fram í Sjálandi í Garðabæ og hægt er að skoða allt um hann á vefsíðunni betareynis.‌is eða á Facebook-síðunni betareynis ráðgjöf.

Beta með börnum sínum, Auði og Reyni Rafni, ásamt hundinum Pjakki, sem kvaddi í fyrra. MYND/ÁSTA KRISTJÁNSDÓTTIR
Beta með vinkonum sínum í Kaupmannahöfn. MYND/AÐSEND
Vítamínin og kollagenin sem Beta býður upp á núna.