„Mig langaði til að skapa notalegan og fallegan stað þar sem fólk getur komið saman, fundið til vellíðunar og fengið góða og faglega ráðgjöf um húð- og snyrtivörur áður en það verslar,“ segir Rakel Guðbjartsdóttir, snyrtifræðingur og eigandi snyrtivöruverslunarinnar Elira Beauty, sem var opnuð í Smáralind í október.

„Ég saknaði þess að ekki væru lengur til sérverslanir með snyrtivörur. Því fannst mér kjörið að opna snyrtivöruverslun í Smáralind, þangað sem allir geta komið og leitað til mín sem snyrtifræðings. Í dag eru snyrtivörur, og sérstaklega húðvörur, orðnar svo rosalega góðar, virka gegn alls kyns húðvandamálum og geta gert húðina heilbrigða. Því er mikilvægt að fá faglega ráðgjöf við að finna réttu vörurnar sem henta húðgerð hvers og eins,“ segir Rakel.

Hún segir samfélagsmiðla hafa mikil áhrif á snyrtivörukaup ungu kynslóðarinnar.

„Ég sé mjög oft ungar dömur sem fylgjast með sínum uppáhaldsáhrifavaldi og herma eftir því sem hann gerir í sinni húðrútínu, en það hentar ekki endilega húðgerð þeirra, því enginn er eins og ekki hægt að yfirfæra á sig það sem virkar á aðra. Oft gera þær of mikið eða hreinlega eitthvað rangt. Til að fá þessa eftirsóknarverðu, heilbrigðu og ljómandi húð þarf faglega þekkingu og aðstoð við val á snyrti- og húðvörum.“

Kíkt í snyrtibudduna

Rakel stendur fyrir vinsælum klúbbakvöldum í Elira Beauty.

„Þá koma til mín vinahópar eða vinnufélagar í kósístund með freyðivíni, ráðgjöf og afslætti af snyrtivörum í skemmtilegri vinkvennastemningu. Við erum líka með snyrtistofu í Elira og bjóðum upp á litun og plokkun, augnháralyftingu, augabrúnalímingar og hægt er að koma til okkar í förðun fyrir brúðkaup og afmæli,“ upplýsir Rakel.

Í haust bætist enn við þjónustu Elira Beauty þegar viðskiptavinum býðst að koma með snyrtibudduna og fá ráðgjöf hjá förðunarfræðingi.

„Þar gefum við ýmis tips og trix um hvernig best er að farða sig. Mörg vilja læra að nota snyrtidótið sitt betur en vita ekki hvernig á að fara að. Við erum hins vegar mjög góðar í því og getum alltaf hjálpað, því allir hafa sína fallegu eiginleika sem hægt er að draga fram. Það geta nefnilega allir verið gordjöss og því eru allir velkomnir í Elira Beauty til að fá góða ráðgjöf sem fær húð þeirra til að ljóma og líta betur út. Allir geta öðlast heilbrigða húð með réttum húðvörum,“ segir Rakel.

Rakel leggur mikinn metnað í snyrti- og húðvörumerkin sem hún selur í Elira Beauty, þar á meðal má nefna Augustinus Bader sem er merkið sem stjörnurnar nota. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Kremin sem stjörnurnar nota

Nafnið Elira þýðir að vera frjáls á arabísku. Það hæfir búð Rakelar vel þar sem öll kyn eru velkomin og fá notið sín til fulls.

„Ég lagði upp með að vera með hágæða snyrtivörur og meira í lúxusendanum. Mér fannst ekki hægt annað en að vera með Chanel því það er toppurinn í lúxussnyrtivörubransanum og búið að starfa í heila öld, eða síðan 1921. Þannig leit fyrsti Chanel varaliturinn dagsins ljós árið 1924 og á heilli öld hefur safnast saman gríðarleg þekking og vitneskja hjá þessu fágaða merki,“ segir Rakel sem býður fjölda snyrtivörumerkja sem ekki fást annars staðar á Íslandi og líka merki sem fást eingöngu á snyrtistofum.

„Augustinus Bader er í dag rollsinn í húðvörum. Þær eru hannaðar af þýskum stofnfrumufræðingi sem rannsakaði tækni fyrir húðendurnýjun brunasjúklinga í rúm 30 ár. Árið 2018 ákvað hann að nýta tæknina í húðvörur fyrir almenning og ári seinna sigraði hann heiminn þegar Victoria Beckham sagði förðunarfræðingnum sínum frá þeim og áhrif þeirra spurðust út. Þá byrjaði boltinn að rúlla á meðal stjarnanna og af því virkni varanna er bæði gríðarleg og hröð er Augustinus Bader nú langstærstur og áberandi á Óskarsverðlaununum og Met Gala,“ greinir Rakel frá, en húðvörur frá Augustinus Bader fást aðeins í Elira.

Hlustað á kröfur neytenda

„Það er ótrúlega gaman að taka á móti fólki og kynna það fyrir spennandi nýjungum. Þess vegna er líka mikilvægt að vera á gólfinu sem snyrtifræðingur. Í hillunum vil ég hafa vörur sem virka vel en líka falleg merki sem horfa til framtíðar, hlusta á kröfur neytenda og sjá til þess að jörðin beri ekki skaða af. Þannig get ég nefnt ítalska merkið Skin Regimen, sem verndar húðina frá mengun og sól, en líka streitu, þreytu og kvíða sem hafa slæm áhrif á húðina. Sömuleiðis förðunarvörurnar Sweed sem setja ágóða af möskurum til bjargar sæskjaldbökum og Evolve sem framleiðir allt í smáskömmtum til að tryggja ferskleika,“ segir Rakel um merkin í Elira sem öll eru unnin af ástríðu og hugsjón.

„Svo er líka hægt að kaupa og kaupa en vera aldrei ánægður því kremin passa ekki saman, viðkomandi kann ekki að nota vöruna eða fer of geyst. Það liggja svo mikil vísindi að baki húðvara í dag og því þarf ekki mikið af þeim.“

Elira Beauty er á 1. hæð í Smáralind. Sjá vefverslunina á elira.is