„Vogabær er markaðs- og söluskrifstofa Mjólkursamlags Kaupfélags Skagfirðinga í Reykjavík, og sér um alla sölu og dreifingu á vörum félagsins aðallega hérlendis en líka til viðskiptavina erlendis,“ segir Stella Björg Kristinsdóttir, forstöðumaður sölu-, markaðs- og vöruþróunar.

„Vörurnar okkar eru flestar framleiddar í Mjólkursamlaginu á Sauðárkróki, en þar á meðal eru vörumerki sem eru landsmönnum flestum vel kunn eins og Mjólka, E.Finnsson sósur, Voga ídýfur og Íslatte kaffidrykkir. Svo erum við líka með önnur vörumerki sem eru framleidd erlendis eins og próteindrykkurinn Teygur og SoNatural djúsarnir.“

Voga ídýfan í nýjum umbúðum

Stella segir engan vafa á því hvaða vara njóta mestra vinsælda á þessum tíma árs.

„Þar sem Eurovision er nú á næsta leiti þá er ekki annað hægt en að nefna Voga ídýfurnar. Það eru eflaust fá Eurovisionpartí þar sem Voga ídýfa er ekki á boðstólum. Voga ídýfur eru algjör klassíker og langvinsælasta týpan, Voga ídýfa með kryddblöndu, hefur verið óbreytt frá upphafi. Helsta breytingin hefur verið þegar nýjar bragðtegundir bætast við í fjölskylduna.“

Stella segir mikla eftirvæntingu ríkja eftir Voga ídýfunni í nýjum og þægilegum umbúðum. „Vegna fjölda áskorana ætlum við að færa tryggum aðdáendum Voga ídýfunnar þá nýjung núna fyrir sumarið að geta keypt hana í stærri einingum, eða í 400 ml sprautubrúsa. Þannig fæst bæði meira magn en einnig aukin þægindi, til dæmis í veislum þegar maður vill geta borið ídýfurnar fram í huggulegum skálum. Þá er hægt að sprauta ídýfunni beint í skálarnar. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig viðtökurnar verða.“

Sósurnar frá E.Finnsson njóta þá ekki síður vinsælda yfir sumartímann. „Með hækkandi sól og léttari lund hefst líka grilltímabilið og þá er mikið spurt um E.Finnsson sósurnar, sem flestir landsmenn þekkja vel, enda búnar að vera á borðum Íslendinga í bráðum fjóra áratugi.“

Stella Björg segir E.Finnsson sósurnar vinsælar á sumrin með grillmatnum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Nýjar vörur væntanlegar

Vogabær leggur áherslu á að þróa og bjóða upp á nýjungar samhliða framleiðslu á sígildu vörunum sem landsmenn flestir hafa þekkt allt sitt líf.

„Þegar maður er með svona rótgróin vörumerki er mikilvægt að sinna vel þeim trausta viðskiptavinahópi sem fyrir er, en samtímis vera vakandi yfir nýjungum og breyttum áherslum. Til dæmis fannst okkur vanta tilfinnanlega góða sósu sem hentar sérstaklega með fiski og grænmetisréttum, því munum við á næstu vikum kynna til leiks Tartarsósu sem er vel þekkt með Fish&Chips en gengur líka frábærlega vel með öllum steiktum fiski og grænmeti,“ segir Stella.

„Önnur nýjung hjá okkur nú á vormánuðunum verður ný E.Finnsson Majónes vörulína. Neytendur þekkja majónes helst þannig að það sé selt í dósum, en E.Finnsson majónesið er selt í eins brúsum og E.Finnsson sósurnar. Persónulega finnst mér majónes í brúsa mjög handhægt, sérstaklega þegar maður notar bara lítið af því í einu, þá geymist það vel í lokuðum brúsanum þess á milli. Nú svo hlýtur það að vera mjög þægilegt að hafa majónesið í brúsa þegar maður er á ferðalagi eða í útilegu. Majónes vörulínan frá E.Finnsson inniheldur venjulegt majónes, Chili majónes og vegan majónes – allt í 300 ml brúsum.“

Þá eru einnig spennandi nýjungar á teikniborðinu fyrir þau sem ekki neyta dýraafurða.

„Af því ég nefndi áðan breyttar áherslur, þá er líka gaman frá því að segja að við höfum undanfarið ár unnið að því að þróa nýja uppskrift að vegan majónesi sem er jafnframt undirstaðan í mörgum köldum sósum. Okkur fannst að þeir sem velja vegan mataræði ættu ekki að þurfa að sætta sig við minni bragðgæði í vegan útgáfunni af sósunni,“ segir Stella.

„Því lögðum við í umfangsmikla rannsóknarvinnu í það að þróa nýja uppskrift að vegan majónesi og núna sér fyrir endann á þeirri vinnu. Við munun því á næstu mánuðum kynna til leiks nýtt og bætt vegan E.Finnsson majónes og vonandi síðar líka vegan útgáfur af helstu köldu E.Finnsson sósunum.“