Á Hlusta.is má finna verk eftir gömul og ný skáld sem kannski fáir þekkja en hafa mikinn sannleika að geyma, að sögn Ingólfs.

„Við viljum hafa efni á vefnum sem við vitum að fólk vill heyra og sem við höfum trú á að eigi erindi til samtímans,“ segir hann.

„Við erum núna að fara af stað með að kynna bækur Jóns Óskars skálds. Við erum komin með minningabækurnar hans til okkar. En Jón Óskar var frábær höfundur og bækurnar eru mjög skemmtilegar. Það er líka að fara að koma ein ljóðabók eftir hann inn á vefinn til okkar en þessar bækur verða aðgengilegar út árið.“

Ingólfur segir að nýtt efni komi vikulega inn á vefinn sem sé kynnt sérstaklega á vefsíðunni.

„Við reynum að segja aðeins frá efninu svo fólk viti hverju það gengur að, svona nokkurn veginn. Það hefur reynst vel og menn hafa verið sáttir við það,“ segir hann.

Minningabækur Jóns Óskars eru nýlega komnar inn á Hlusta.is.

„Í fyrra og hittiðfyrra tókum við inn nánast allar bækur Theódórs Friðrikssonar. Það vakti gríðarlega mikla athygli og margir hlustuðu á þær. Það bættist mikið af fólki í hóp okkar áskrifenda út af því. Við fengum mikið hól fyrir enda flestar af hans bókum illfáanlegar í dag.“

Ingólfur segir að bækur Theódórs Friðrikssonar og Jóns Óskars séu frásagnir frá svipuðum tíma.

„Þetta eru minnisatriði um líf skálda og listamanna í Reykjavík í kringum stríðsárin.“

Af nýlegu efni á Hlusta.is nefnir Ingólfur meðal annars verk skáldkonunnar og rithöfundarins Erlu.

„Við erum búnir að láta lesa inn nánast allt efnið hennar. Það er efni sem hafði einhvern veginn týnst svolítið í menningarflórunni. En það er frábært efni sem fólk ætti að hlusta á. Við erum líka með verk eftir Torfhildi Hólm sem var fyrsti atvinnurithöfundurinn okkar. Frábær höfundur sem hefur aldrei fengið þann sess sem hún á skilið. Hún skrifaði sögulegar skáldsögur, fyrst Íslendinga,“ segir Ingólfur.

„Við erum líka með bréf Matthíasar Jochumssonar sem voru gefin út í stóru ritsafni á sínum tíma. Við erum með þau í þremur bindum. Það er gríðarlegur fróðleikur í þeim. Við fáum líka fljótlega bókina Stúlka sem er fyrsta ljóðabók eftir konu á Íslandi. Hún kom út árið 1874 og er eftir Júlíönu Jónsdóttur.“

Bækur Theódórs Friðrikssonar hafa vakið gríðarlega athygli á vefnum.

Mikilvægur menningararfur

Auk íslenskra verka má finna þýddar skáldsögur á Hlusta.is, þar er einnig úrval barnaefnis og ýmislegt fleira spennandi.

„Í þessari viku erum við til dæmis að fá inn Ævintýri Lísu í Undralandi eftir Lewis Caroll. Svo ætlum við bráðum að byrja að bjóða upp á hlaðvörp. Við eigum mikið af stuttum sögum og frásögnum á vefnum sem líkjast svolítið hlaðvörpum. Við viljum auka það svolítið án þess þó að minnka hitt efnið,“ segir Ingólfur.

Hlusta.is hefur mikið verið notað af skólafólki í gegnum tíðina og margir skólar eru í áskrift, að sögn Ingólfs.

„Við erum með Íslendingasögurnar á vefnum okkar, þennan menningararf sem er svo mikilvægt að halda til haga. Þannig byrjuðum við fyrir rúmlega tíu árum. Hlusta.is er stofnað út frá skólavefnum sem er 20 ára gamall vefur. Menntaskólanemar voru að hringja og spyrja hvort þeir gætu ekki fengið Íslendingasögurnar, sem þeir áttu að læra í skólanum, upplesnar. Við gerðum það og fengum mikið þakklæti fyrir. Það er ekki alltaf auðvelt að lesa þessar fornu bækur en þær hljóma betur ef menn hlusta,“ segir Ingólfur.

Á Hlusta.is er úrvalsbarnaefni. Lísa í Undralandi er ný viðbót.

„Upp úr þessu ákváðum við að stofna Hlusta.is, við áttum svo mikið til af hljóðskrám fyrir skólavefinn. Það reyndist mikill áhugi fyrir þessu hjá öllum aldurshópum. Það var ekki um auðugan garð að gresja á þessum markaði og margir sem sóttu í efnið okkar. En sem betur fer hefur ekkert dregið úr áhuga manna á okkur þó að fleiri hafi komið inn á markaðinn. Það er bara þannig í dag að fólk vill frekar hlusta en lesa. Það hentar samtímanum á margan hátt betur. Við leggjum metnað í að vera með vandað efni og eitthvað sem við höfum trú á að eigi erindi til fólks, og að hafa þetta á viðráðanlegu verði, það er lykilatriði.“

Þau hjá Hlusta.is láta lesa sögurnar inn fyrir sig og tína margar þeirra upp úr glatkistunni.

„Við gröfum upp sögur alls staðar að meðal annars úr gömlum tímaritum. Sögur sem eru jafnvel týndar flestum en fólk vildi gjarnan getað hlustað á. Við leitum til fólks sem er í höfundarrétti og fáum leyfi til að lesa sögurnar. Það hefur venjulega verið auðsótt. Svo hafa núlifandi höfundar leyft okkur að lesa sitt efni. Við erum ekki bara með gamalt efni,“ segir Ingólfur.

„Íslendingar hafa í gegnum tíðina farið illa með sín gömlu skáld á margan hátt svo þau hverfa. Við þurfum að hlúa að þessum gömlu skáldum og rithöfundum. Þau eiga það skilið og við eigum það skilið að njóta þeirra.“