Vinnumarkaðurinn breytist hratt og í dag staldrar fólk æ skemur við á hverjum vinnustað fyrir sig. Hér áður vann fólk á sama vinnustað í tugi ára. Nú er öldin önnur og er orðið algengara að fólk skipti um starf á um tveggja ára fresti. Það verður því æ mikilvægara að nýliðar komist sem fyrst inn í störf sín. Það eykur bæði afköst og ánægju starfskrafts.

„Við höfum þróað lausn sem hjálpar vinnuveitendum á öllum stigum ráðninga að halda utan um allt sem við kemur ráðningaferlinu,“ segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri 50skills. „Okkar lausn skiptist í þrennt. Fyrsta mál á dagskrá er að ná til umsækjenda. Við hjálpum vinnuveitanda að búa til starfsauglýsingar og koma þeim í birtingu á þeim starfatorgum og samfélagsmiðlum sem hentar. Einnig er hægt að tengja lausnina okkar við aðila sem sérhæfa sig í að leita uppi umsækjendur.

50skills lausnina má í öðru lagi nota til þess að meta umsóknir. Lausnin virkar jafn vel fyrir störf þar sem ekki eru gerðar miklar hæfnikröfur og fyrir stjórnendastöður hjá stærstu fyrirtækjum landsins.

Okkar kerfi er stillanlegt út frá því sem vinnuveitandi þarf hverju sinni,“ segir Kristján.

Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri 50 Skills. Fréttablaðið/Valli

Nýliðun með 50skills

50skills lausnina er í þriðja lagi hægt að nýta í innleiðingu nýrra starfsmanna, eða „onboarding“ eins og það nefnist í fyrirtækjaheiminum. „Það er afar mikilvægt að þessi breyta í ráðningaferlisjöfnunni sé eins skilvirk og hægt er. Ég tala nú ekki um sum stærri fyrirtæki sem eru að ráða inn tugi eða hundruð starfsfólks á mánuði. Þegar búið er að taka ákvörðun um ráðningu starfskrafts þá þarf vinnuveitandi að gera ýmislegt til þess að starfsmaður geti tekið við þeirri stöðu sem hann er ráðinn í.

Það þarf að safna upplýsingum um stéttarfélag og lífeyrissjóð viðkomandi starfskrafts, ganga frá ráðningarsamningi, fylla út skjöl og trúnaðaryfirlýsingar, fá upplýsingar um réttindi og sakavottorð, stofna hann sem notanda að hinum ýmsu kerfum sem vinnustaðurinn notar, hefja þjálfun hans og margt fleira.

Við hjá 50skills hjálpum vinnuveitanda við að búa til ítarlegan aðgerðalista með ráðningu hvers nýs starfsmanns. Allar upplýsingar um starfskraftinn eru stilltar inn í kerfið. Ráðningarsamninga má framkalla með fáeinum smellum og er hægt að undirrita þá rafrænt.

Aðgerðalistarnir eru aðgengilegir í 50skills kerfinu sem er afar einfalt í notkun. Notendur eru fljótir að læra á það enda byggir það á því að notendur geti notað innsæið við notkun þess. Þar hefur vinnuveitandi góða yfirsýn yfir það hvar hann er staddur í ferlinu, hvað er búið að gera og hvað á eftir að gera hjá hverjum starfsmanni fyrir sig.

Ferlið er straumlínulagað og hannað til þess að upplifun umsækjanda og stjórnanda af innleiðingu á nýjum starfskrafti gangi vel fyrir sig,“ segir Kristján.

Einstök samvinna

„Það sem er einstakt við okkar þjónustu er sú staðreynd að okkar lausn er hönnuð til að vinna með þeim kerfum og forritum sem viðskiptavinirnir eru að nota nú þegar. Við höfum útbúið samþættingar við tugi lausna sem koma að innleiðingu nýs starfsfólks, þar á meðal eru launa-, tímaskráninga-, verkbeiðna-, mannauðs- og starfsþjálfunarkerfi. Með samþættingunum flæða gögn á milli lausna og umtalsverð handavinna sparast.“

50skills er að sögn Kristjáns mun stærri á markaðnum en margir gera sér grein fyrir. „Fimm af tíu stærstu fyrirtækjum Íslands nota okkar lausnir. Þetta eru allt frá sprotafyrirtækjum upp í stofnanir og sveitarfélög, m.a. Reykjavíkurborg, sem er að taka upp 50skills. Við þjónustum því afar vítt svið og viðskiptavinir okkar eru hæstánægðir með lausnir okkar.“

Hægt er að bóka kynningu á 50skills.com þar sem farið er yfir hvernig 50skills getur sparað tíma, aukið yfirsýn og ánægju nýs starfsfólks.