Skipulögð hjartaendurhæfing hefur verið starfrækt á Reykjalundi frá árinu 1982, svo hún fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir. Magnús B. Einarson, fyrrverandi læknir á Reykjalundi, kom að þessari endurhæfingu frá fyrsta degi og vann að henni í aldarfjórðung.

„Þetta byrjaði þannig að Hjarta- og æðaverndarfélag Reykjavíkur var búið að ákveða og setja í sín lög að koma á hjartaendurhæfingu. Þau fóru á stúfana til að finna góðan stað og enduðu hjá okkur á Reykjalundi,“ segir Magnús. „Ástæðan fyrir því að hjartaendurhæfingin var sett á fót var sú að hjartasjúklingar höfðu mikið verið sendir til Þýskalands til endurhæfingar á stofnunum þar. Þessir sjúklingar voru orðnir það margir að Tryggingastofnun, Hjartavernd og Hjarta- og æðaverndarfélag Reykjavíkur sáu að það var komin mikil þörf fyrir þessa þjónustu.

Sjálfur lærði ég endurhæfingarlækningar í Noregi og kynntist þar meðal annars hjartaendurhæfingu og heilsusporti, sem er endurhæfing með íþróttum. Ég flutti svo heim haustið 1979 og byrjaði á Reykjalundi um haustið, en ég réði mig til að koma upp heilsusporti,“ segir Magnús. „Í mínum huga var hjartaendurhæfing hluti af því, þannig að þegar Hjarta- og æðaverndarfélag Reykjavíkur spurði hvort við gætum tekið hana að okkur hentaði það vel.“

Sjúklingahópurinn breyttist

„Til að byrja með var endurhæfingin hugsuð fyrir hjartasjúklinga sem höfðu fengið kransæðastíflu og þau sem höfðu farið í hjartaaðgerð og einnig sjúklinga með svokallaða hjartakveisu,“ segir Magnús. „Sjúklingahópurinn breyttist svo í gegnum tíðina og það bættust við sjúklingar sem höfðu farið í hjartaflutning og sjúklingar sem höfðu fengið slæma hjartabilun og gátu varla komist fram úr rúmi. Einstaklingsmiðuð þjálfun hentaði vel fyrir þessa hjartabiluðu og þau sem fengu nýtt hjarta urðu eins og ný. Hjartaendurhæfingin flýtti mjög fyrir líkamlegum bata þeirra.“

Margt gert til að auka þrek og bata

„Í upphafi var endurhæfingin sett upp þannig að sjúklingar komu í 4-5 vikur á Reykjalund en til þess að meta þrek hvers og eins var gert álagspróf með hjartalínuriti og blóðþrýstingsmælingum svo hægt væri að sjá þrek hvers og eins, en það var ákaflega misjafnt,“ segir Magnús. „Þegar búið var að mæla þrekið var svo hægt að búa til einstaklingssaumað prógramm fyrir hvern sjúkling.

Í því fólst þónokkuð mikið álag. Leikfimi, gönguferðir og hjólahópar þar sem hjartasjúklingarnir hjóluðu í 20-30 mínútur með hjartalínuriti og voru undir eftirliti. Það voru líka fræðslufundir, slökun og meira að segja dansæfingar á tímabili,“ segir Magnús. „Á sumrin var farið út á Hafravatn á bátum og svo á veturna var farið á gönguskíði. Það var líka sund og oft var endað með fjallgöngu, en sjúklingum bauðst að fara í fjallgöngu á fjöllin kringum Reykjalund með hópi sjúkraþjálfara og lækna. Það þótti alveg einstakt, því margir höfðu aldrei farið í fjallgöngu og höfðu ekki einu sinni látið sig dreyma um það. Þetta var allt liður í að auka þrekið og fá sjúklingana til að finna að þrekið og batinn væri að aukast. Ég hef ekki fylgst með hjartaprógramminu á Reykjalundi lengi svo nú gæti allt verið breytt og fullkomnara en áður fyrr.“

Kom fólki aftur út í lífið

„Endurhæfingin skilaði mörgum hjartasjúklingum aftur til vinnu sem hefðu annars ekki farið aftur að vinna. Hún kom sjúklingum líka aftur út í íþróttir og aðra tómstundaiðju, svo þeir gátu haldið áfram að stunda sín áhugamál. Ef fólk fer ekki í endurhæfingu er hætta á að það setjist bara í helgan stein eftir svona áföll því að margir eru hræddir við að reyna á sig,“ útskýrir Magnús. „Við náðum líka yfirleitt að svara eftirspurn, en það komu tímabil þar sem það var svolítill biðlisti. En svo kom Endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga árið 1989, sem tók við fólki af honum. Þangað fóru sjúklingar sem voru almennt hressari, en þeir sem þurftu meiri andlega og líkamlega aðhlynningu komu á Reykjalund.“