Í þætti vikunnar er upptaka birt af bókaklúbbi um bókina Hold On To Your Kids eftir þá Gordon Neufeld uppeldissálfræðing og lækninn og rithöfundinn Gabor Maté frá árinu 2004. Höfundar þessarar bókar eru þeirrar skoðunar að börn séu að renna foreldrum úr greipum, að verða nánast týnd kynslóð og þá sér í lagi með skjáina alls staðar í sjónlínu og unglinga sem vilja sem minnst vita af foreldrum sínum. Það sem foreldrar þurfi að skilja segir þeir, er að hegðunarerfiðleikar eru í raun ekki hegðunarerfiðleikar – heldur erfiðleikar með tengsl. Og í hjarta tengslaerfiðleika er nokkuð sem Neufeld og Maté nefna „jafningjamiðun“. Sumir myndu telja að aukin tengsl við jafningja séu þroskamerki. Maté segir að svo sé ekki, ef þau tengsl koma í staðinn fyrir grundvallartengsl barna við uppalendur sína. Og hvað á foreldri að gera sem hefur misst tengsl við barn sitt til jafningja þess? Náðu þeim tilbaka, segja þeir, og gefa fáein dæmi um hvað sé hægt að taka til bragðs.Við ræddum þessa bók sundur og saman fjórar sem mættu á þennan bókaklúbb, Ágústa Margrét Arnardóttir, Guðrún Birna le Sage og Sólveig Ösp Haraldsdóttir, ásamt Guðrúnu Ingu Torfadóttur sem stjórnaði umræðum.

Athugasemdir