Tuttugu og fjögurra manna hópur fór í gönguskíðaferð til Mývatns þann 12.mars síðastliðinn, degi áður en tilkynnt var um að samkomubann yrði sett á. Engan í hópnum grunaði hvað væri í vændum en ferðin heppnaðist vel, allir sváfu í sitthvoru herberginu og borðuðu saman í matsalnum en að öðru leyti var ekki mikil nánd í hópnum að frátalinni hópmynd í jarðböðunum. Hópurinn kom heim á sunnudagskvöldi en á þriðjudegi og miðvikudegi fundu nokkrir úr hópnum til flensueinkenna. Áður en vikan var á enda voru 20 af 24 með Covid 19 smit.

Hvorki er vitað hvar fólkið smitaðist né hver smitberinn var.

Helgi Jóhannesson 56 ára lögmaður og fjallagarpur og Andrea Sigurðardóttir 32 ára viðskiptafræðingur og fjallakona voru í þessum hóp og lögðust þau bæði í flensu 2-3 dögum eftir heimkomu.

Helga Arnardóttir ræðir við þau í gegnum allt Covid 19 veikindaferlið sem tók hátt í 20 daga hjá þeim.

Athugasemdir