Öll þekkjum við skömmina en gerum við okkur grein fyrir því að hún er mögulega að valda okkur heilsubresti eða andlegri vanlíðan án þess að við tökum eftir því? Guðbrandur Árni Ísberg sálfræðingur er höfundur nýrrar bókar sem ber heitið Skömmin úr vanmætti í sjálfsöryggi. Hann segir skömmina oft taka á sig margvíslegar myndir og smeygja sér inn á ótrúlegustu tímum við óvenjulegustu aðstæður án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Hann segir mikilvægast að þekkja hana, tala um hana og útrýma henni ef hún veldur mikilli andlegri vanlíðan. Bókin tekur á öllum myndum skammarinnar á borð við skammarþunglyndi, skammarviðkvæmni, viðbrögð fólks með fullkomnunaráráttu við skömminni og margt fleira. Guðbrandur Árni ræðir við Helgu Arnardóttur um hvernig við eigum að þekkja skömmina, hvenær hún verndar okkur og hvenær hún hreinlega eyðileggur fyrir okkur í daglegu lífi.

Athugasemdir