„Hún elskar lífið og allt sem er fallegt,“ segja vinir og aðstandendur Jónu Elísabetar Ottesen sem leggja henni lið og hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu. Jóna lenti í bílslysi í Langadal í júnímánuði og hlaut mænuskaða. Hún er að hefja langt og strangt endurhæfingarferli.

Meðal þeirra mörgu sem ætla sér að hlaupa í maraþoninu fyrir Jónu eru systir hennar, Ása Ottesen og vinkona Hólmfríður Helga Sigurðardóttir. Markmiðið er að létta undir með Jónu og fjölskyldu hennar. Fjölskyldan þarf til dæmis að flytja í húsnæði sem er hentugra fyrir hjólastólaaðgengi.

„Ég ætla ekki að æfa mig neitt, ég held ég hafi ekki tíma í það núna. Ég ætla að fara þetta á kraftinum sem fylgir vinum hennar Jónu, hann fleytir mér langt,“ segir Ása sem býr þó að því að hafa fyrir nokkrum árum hlaupið 21 kílómetra.

„Við viljum fá sem flesta með og höfum ítrekað að þeir þurfi ekki að þekkja Jónu heldur bara vilja veita henni styrk og hjálpa henni og vera með í því að búa til góða stemningu á þessum degi,“ segir Hólmfríður.

Nokkrir úr hlaupahópnum eru í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins sem kom út í dag. Þær segja Jónu finna vel fyrir þeim samhug sem henni er sýndur. „Jóna finnur þetta, ég er búin að vera að segja henni frá þessu og hún er ótrúlega ánægð með þetta. Jóna á ótrúlega marga vini og það eru allir tilbúnir til þess að hjálpa henni.“

Þeir sem vilja styrkja fjölskyldu Jónu geta heitið á hlaupara í hlaupahópnum hér: www.hlaupastyrkur.is/hlaupahopar/lid?cid=72424 eða lagt inn á Styrktarfélagið Yl. 0528-14-401998 - 70.11.11- 1410. Félagið stofnuðu vinkonurnar fyrir nokkrum árum þegar ein úr hópnum barðist við krabbamein og sigraðist á því. Nú hefur Ylur annan tilgang eða þann að létta undir með Jónu og fjölskyldu hennar.

Athugasemdir