Fæst viljum við sitja uppi með stútfullan fataskáp af flíkum sem við notum ekki. Flíkur sem notaðar hafa verið einu sinni til tvisvar og það endar með því að þeim er annaðhvort hent eða þær gefnar í fatasöfnun.

Þó að það sé gaman að fjárfesta í nýjum fatnaði, þá er ennþá skemmtilegra að horfa á klassísku flíkurnar sem maður eru notaðar aftur og aftur. Oft þykir manni vænna um fötin sem kostuðu meira, maður fer betur með þær flíkur og fær síður leið á þeim. Efnið endist og sniðið er mun betra en á ódýrari fatnaði.

Það er oft erfitt að standast freistinguna þegar kemur að ódýrum tískufatnaði, en inn á milli er gott að reyna að temja sér það hugarfar að kaupa minna og sjaldnar, en vanda valið. Þessar flíkur verða að vera klassískar og mega ekki detta úr tísku eftir eina árstíð.

Glamour hefur tekið saman nokkrar klassískar flíkur sem þú getur fjárfest í fyrir sumarið, og notið að ganga í til margra ára.

Stígvél með snákaskinnsmynstri geturðu notað allan ársins hring og passa þau til dæmis vel við alla liti af gallabuxum.

Ökklastígvél

Flott ökklastígvél passa vel við gallabuxur, kjóla og pils. Snákaskinnsmynstur er klassískt og passar vel við alla liti af gallabuxum. Þetta eru stígvélin sem þú munt nota í mörg ár. Rykfrakki Rykfrakkinn er flík sem þú notar á hverju vori, sumri og hausti. Hann er fullkomin „millibilsflík“ og passar við margt. Ef þú hyggst fjárfesta í nýjum á næstunni hafðu hann þá aðeins of stóran og þannig að þú getir bundið um mittið. Þú finnur hann jafnvel í herradeildinni.

Körfutaskan er klassísk. Hér er Jane Birkin með eina slíka árið 1966.

Körfutaska

Ef þú ert að leita þér að sumarlegri en klassískri tösku, þá kemur körfutaskan sterklega til greina. Karfan gengur upp við hvað sem er, en þó helst við sumarlega kjóla og gallajakka. Körfurnar eru mjög vinsælar fyrir sumarið og þú getur fundið þína hjá tískuhúsum eins og Loewe, Gucci og Prada

Þessi taska er frá Hereu.

Gallabuxur

Gallabuxur sem eru háar í mittið með beinum skálmum verða áfram vinsælar, og þá sérstaklega gömlu góðu 501 frá Levi’s. Það þurfa allir að eiga eitt par inni í fataskáp. Bestu buxurnar gætu meira að segja leynst í verslunum sem selja notuð föt, en þú gætir þurft að máta margar til að finna þær réttu.

Kendall Jenner í hinum fullkomnu gallabuxum, beinar niður og háar í mittið.
Kendall Jenner í hinum fullkomnu gallabuxum, beinar niður og háar í mittið.

Jakki

Góðan dragtarjakka úr alvöru efni er gott að eiga og verður það líklega ein mest notaða f líkin þín. Jakkarnir sem nú eru til í verslunum eru með litlum axlapúðum til að móta axlirnar og ná rétt niður fyrir mjaðmir. Þú munt nota jakkann við allt, síða blómakjóla, gallabuxur og strigaskó.

eddag@frettabladid.is

Þú gætir fundið þinn fullkomna rykfrakka í herradeildinni.