Söngkonan Taylor Swift fer yfir deilur sínar við Kanye West í nýjasta tölublaði Rolling Stone tímaritsins, en Swift prýðir forsíðu blaðsins að þessu sinni. Deilurnar eiga rætur að rekja til ársins 2009, þegar West kallaði fram í þakkarræðu söngkonunnar þegar hún tók við VMA verðlaunum fyrir besta tónlistarmyndbandið. West hrópaði:

„Ég samgleðst þér. Ég ætla að leyfa þér að klára ræðuna, en Beyonce átti besta myndband allra tíma!“

„Við fórum út að borða og svona. Ég var bara ánægð með það, því hann sagði að ég væri að gera góða hluti í tónlistinni. Það var eins og ég væri að bæta upp fyrir einhverja höfnun í æsku eða eitthvað,“ segir hún.

Þegar VMA verðlaunin bar svo aftur að nokkrum árum síðar, árið 2015, átti að verðlauna Kanye. Hann tók upp tólið, hringdi í Swift og lagði til opinberar sættir á sviði VMA verðlaunanna – þar sem erjurnar þeirra á milli hófust.

„Hann getur verið svo góður“

„Hann hringdi í mig svona viku fyrir verðlaunaafhendinguna, og við töluðum saman í klukkutíma. Hann sagði að það væri hans eindregni vilji að ég kynnti verðlaunin sem hann myndi svo taka við,“ greinir Swift frá.

„Og hann getur verið svo góður. Hann ræddi við mig um allar ástæður þess að það hefði mikla þýðingu fyrir hann að það væri ég sem myndi veita honum verðlaunin. Og ég var ekkert smá uppi með mér,“ segir hún.

„Ég skrifaði ræðu, mætti á verðlaunaafhendinguna, held ræðuna og þá öskrar hann: MTV datt í hug að fá Taylor Swift til að veita mér verðlaunin!“

Kanye vildi að Swift veitti honum verðlaun.

Segir Kanye falskan

Hún lýsir því hvernig hún stóð út í salnum við hlið eiginkonu hans, Kim Kardashian. „Ég fékk gæsahúð. Ég gerði mér grein fyrir því hvað hann er falskur. Hann vill vera góður við mig þegar enginn sér, en fyrir framan aðra vill hann vera svalur, standa upp fyrir framan alla og tala illa um fólk. Ég var algjörlega miður mín.“

Swift segir Kanye hafa beðið hana um að finna sig baksviðs eftir verðlaunaafhendinguna. „Ég fór ekki. Svo sendi hann mér risablómvönd daginn eftir til að biðjast afsökunar. Ég hugsaði með mér, ég nenni ekki að eiga í einhverjum deilum við þennan mann. Ég ætla bara að einbeita mér að öðru.“