Trúfélagið Zuism hefur opnað fyrir endurgreiðslu sóknargjalda á heimasíðu sinni. Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að félagið stefndi að því að hefja endurgreiðslu. Á heimasíðu félagsins segir að nú sé „tími hins mikilvæga helgisiðs Amargi“. Það sé einn af helgisiðum Zúista sem feli í sér niðurfellingu og endurgreiðslu á sóknargjöldum til meðlima sinn.

„Súmerar til forna voru með elsta skattkerfi sem skrár eru til um, kerfið kallaðist Bala kerfið og skatturinn nefndist byrgði. Súmerar gerðu sér einnig grein fyrir hættunni sem stafar af mikilli skuldasöfnun í hagkerfum og reglulega voru allar skuldir niðurfelldar og byrjað upp á nýtt. Í Súmeríu kallaðist þessi siður Amargi“ segir í tilkynningu félagsins. 

Sjá einnig: Zúistar segjast endurgreiða

1.923 í félaginu 1. janúar 2018

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru 1.923 skráðir í félagið þann 1. janúar á þessu ári. Þá hafði verið talsverð fækkun frá árinu áður þegar 2.845 voru skráð við ársbyrjun í félagið. Árið 2016 voru einnig fleiri, en þá voru 3.087 skráðir í félagið.

Mikill fjöldi flykktist í félagið árið 2015 eftir að þáverandi forystumenn félagsins lofuðu meðlimum að þeir fengju sjálfir í sinn vasa ríflega 10 þúsund króna framlag sem ríkið borgar trúfélögum á hvern meðlim. 

Árið 2017 fékk félagið greiddar rúmar 31 miljón í sóknargjöld miðað við að í félagið voru skráð 2.851 einstaklingar.

Á heimasíðunni er nú hægt að sækja um endurgreiðslu sóknargjalda. Aðeins er opið fyrir umsóknir í einn mánuð og verður formlega lokað fyrir þær klukkan 16.00 þann 30. nóvember þessa árs. 

Hægt er að sækja um endurgreiðslu hér.