Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, kemur fyrirtækinu til varnar og segir að ásakanir fyrrum starfsmanns fyrirtækisins um skaðleg áhrif Facebook á samfélagið ekki á rökum reist.

Færslu sem Zuckerberg skrifaði á Facebook-síðu sína og sendi á alla starfsmenn fyrirtækisins má sjá hér fyrir neðan.

Þar fullyrðir hann að ásakanirnar um að Facebook sé visvítandi að stuðla að dreifingu efnis sem vekur reiði fólks til að græða standist ekki nein rök.

Þeir sem kaupi auglýsingar á miðlum í eigu Facebook séu yfirleitt sammála um að vilja ekki tengjast neinum færslum sem tengjast ósætti eða óánægju.

Um leið lofaði Zuckerberg að Facebook myndi halda áfram að rannsaka neikvæð áhrif samskiptamiðla á líf ungmenna og að niðurstöðunum yrði deilt með almenningi.

Frances Haugen, fyrrum starfsmaður í vörustjórnun innan Facebook, kom fram fyrir Bandaríkjaþingi í gær þar sem hún staðfesti að hún stæði við allt sem kom fram í viðtalinu þar sem hún afhjúpaði hvernig áhrif samskiptamiðla Facebook geta haft skaðleg áhrif á ungt fólk.

Hún steig fram í viðtali við Wall Street Journal á dögunum þar sem hún greindi frá ýmsu sem á sér stað innan veggja Facebook en áður var hún búin að deila gögnum með blaðamönnum Wall Street Journal.

Haugen nýtti tækifærið í gær til þess að gagnrýna um leið viðskiptamódel Facebook og hvernig algóritmi Facebook er hugsaður til þess að halda einstaklingum inn á síðunni.