Hæsti­réttur hefur fellt úr gildi úr­skurð manna­nafna­nefndar um að þriggja ára stúlka úr Garða­bæ megi ekki bera nafnið Zoe. Dómurinn taldi úr­skurð nefndarinnar ó­full­nægjandi og sam­þykkti kröfu for­eldranna um að fella úr­skurðinn úr gildi. 

Þriggja ára bar­átta 

For­eldrar stúlkunnar hafa barist fyrir því að fá nafn dóttur sinnar sam­þykkt allt frá því að manna­nafna­nefnd hafnaði því árið 2015 og leituðu á náðir dóm­stóla í fram­haldinu. 

Fjöl­skipaður Héraðs­dómur Reykja­víkur hafnaði hins vegar beiðni um að úr­skurðurinn yrði felldur úr gildi. Þeirri niður­stöðu var á­frýjað og höfðu for­eldrarnir loks í Hæsta­rétti í dag erindi sem erfiði þegar dómurinn sam­þykkti að fella úr­skurð nefndarinnar úr gildi, en það heimilar for­eldrunum að senda inn nýja nafna­beiðni. 

Sjö heita Zoe í þjóð­skrá 

Manna­nafna­nefnd hafnaði beiðni for­eldranna á grund­velli þess að nafnið Zoe upp­fyllti ekki ís­lenskar ritreglur um rit­hátt, enda bók­stafurinn „z“ hvorki notaður í ís­lenskri staf­setningu né hefði öðlast hefð hér á landi. 

Hæsti­réttur bendir í dómi sínum á að sjö konur beri nafnið Zoe í Þjóð­skrá Ís­lands, sú elsta árið 1975. Þá megi, þrátt fyrir af­nám zetunnar, á­fram rita nöfnin Zóp­hanías, Zakarías, Zimsen os­frv. Þar af leiðandi hafi nefndin ekki látið reyna á öll laga­skil­yrði. 

„Líta verður svo á að manna­nafna­nefnd hafi ekki lagt mat á það í úr­skurði sínum hvort önnur skil­yrði 5. gr. laga nr. 45/1996 en að framan greinir væru upp­fyllt til þess að á­frýjandi fengi að bera eigin­nafnið Zoe, enda er ó­fært að slá föstu á grund­velli þagnarinnar einnar um það efni að nefndin hafi talið svo vera,“ segir í niður­stöðu dómsins. 

Þá er bent á að það sé ekki á valdi dóm­stóla að meta það hvort stúlkan megi heita um­ræddu nafni, þó þeir séu eftir al­mennum reglum til að leysa úr á­greiningi um lög­mæti úr­skurðar hennar. 

Zoe heitir enn „Ó­nefnd“ í Þjóð­skrá, en for­eldrar hennar hafa nú kost á að senda aðra beiðni til manna­nafna­nefndar.